Fréttir

Alþjóðleg ráðstefna um matvæli og líftækni

Dagana 26. – 27. september sl. hélt Aarhus Food & Bio cluster í Danmörku ráðstefnuna Food & Bio Global Summit 2023. Meginstef ráðstefnunnar var sjálfbærni í framleiðslu matvæla með áherslu á nýsköpun. Líkt og kom fram á ráðstefnunni eru matvælakerfi heimsins komin að þolmörkum, þá einkum tengt áhrifum veðurröskunar; hamfarahlýnunar, flóða, hækkun yfirborðs sjávar, þurrka o.s.frv. Yfir 170 þátttakendur víðsvegar að úr heiminum sóttu ráðstefnuna sem var hlaðin frábærum fyrirlestrum. 

Eitt mikilvægasta stef ráðstefnunnar var að efla til alþjóðlegs sáttmála um matvæli eða Global Food Alliance, til að tengja og efla sjálfbærni og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þessi sýn er mikilvæg í ljósi Parísarsáttmálans um að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar. Einnig nær sáttmálinn til þess að efla getu ríkja heims í að takast á við afleiðingar loftlagsbreytinga.

Ein alvarlegasta afleiðing loftlagsbreytinga er áhrif á heilbrigði og getu vistkerfa til að framleiða mat. Hnignun vistkerfa mun því leiða til matvælaskorts og hungursneyðar. Hugmynd ráðstefnunnar um alþjóðlega sáttmálann um mat er að með samstöðu og samstarfi allra sem vinna eða eiga aðkomu að rannsóknum, nýsköpun eða pólitískum ákvörðunum verði hægt að sporna við hörmungum á borð við tap vistkerfa og hungursneyð.

Á ráðstefnunni var þétt dagskrá fyrirlestra tengdum ofangreindum málefnum; samstarfi, nýsköpun, rannsóknum og þróun. Einnig voru haldnir tengifundir, speed date, þar sem hver og einn þátttakandi gat tengst innan síns fagsviðs öðrum þátttakendum og þar með teygt á tengslaneti sínu.

Vel var mætt á ráðstefnuna, og mátti sjá þátttakendur víðsvegar að úr heiminum. Frá Íslandi mætti einn ráðstefnugestur á vegum Matís og var hún afar ánægð með ráðstefnuhaldið og erindin. Málefni matvælaframleiðslu og getu vistkerfa til að standa undir áskorunum framtíðar þ.e. fólksfjölgun og hnignandi vistkerfi sökum hamfarahlýnunar er ein allra mikilvægasta áskorun samtímans.

Nýsköpun og tækniþróun sem hefur átt sér stað í matvælaiðnaði er ekki bara hröð heldur jafnframt afar áhugaverð. Nú ert til dæmis mögulegt að vinna kjöt úr frumum dýra (cell based proteins) og rækta þörunga með hátækni aðferðum o.s.frv. Framundan eru áskoranir í matvælaframleiðslu en samhliða er unnið ötullega að lausnum með þróun tæknilausna og nýsköpun samhliða sjálfbærri þróun og eflingu hringrásarhagkerfisins. Nánari upplýsingar um Food & Bio Global Summit 2023 má finna hér:

Food & Bio Global Summit 2023 

IS