Þriðjudaginn 1. apríl 2025 ver Clara Anne Thérèse Jégousse doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Örverusamfélög á Íslandsmiðum rannsökuð með víðerfðamengja raðgreiningum. Exploration of microbial communities from Icelandic marine waters using metagenomics.
Doktorsvörnin fer fram í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands klukkan 13:00 til 16:00.
Andmælendur eru dr. Alexander Sczyrba, prófessor við Bielefeld University, Þýskalandi, og dr. Ian Salter, rannsóknastjóri við Havstovan – hafrannsóknastofnun Færeyja.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild og fagstjóri hjá Matís. Auk hans var dr. María Guðjónsdóttir, prófessor við sömu deild og verkefnastjóri hjá Matís, meðleiðbeinandi og í doktorsnefnd sátu dr. René Groben, verkefnastjóri hjá Matís, dr. Pauline Vannier, lektor við Université de Toulon, og dr. Arnar Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild.
Ólöf Guðný Geirsdóttir, deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.
Ágrip
Örverur gegna lykilhlutverki í því að viðhalda heilbrigði og fæðukerfi hafsins og við að stýra næringarefnahringrás hafsins. Við Íslandsstrendur, þar sem heitir Atlantshafsstraumar og kaldir norðurskautsstraumar mætast, myndast einstakt umhverfi og lífríki sjávar. Þó svo að rannsóknir hafi staðið yfir á frumframleiðni frá miðju síðustu aldar með aðstoð smásjáa og gervitunglmynda hafa rannsóknir á flokkunarfræði örvera á umhverfiserfðamengjum í íslenskri lögsögu verið takmarkaðar. Meginmarkmið doktorsrannsóknarinnar var því að skoða hvaða tegundir örvera finnast í íslenskri lögsögu, í hvaða hlutföllum, hvert hlutverk þeirra er í vistríki sjávar og hvaða umhverfisþættir hafa áhrif á dreifingu þeirra.
Meginniðurstöður ritgerðarinnar eru að nauðsynlegt er að kanna örveruflóru hafsins allt árið um kring og einnig mismunandi dýpi. Niðurstöðurnar afhjúpa samhengi örverusamfélaga og umhverfisþátta og leggja grunn að frekari rannsóknum. Opin gögn úr þessari rannsókn mynda viðmið fyrir frekari rannsóknir á vistfræðilegum ferlum og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins við Ísland á tímum hnattrænna loftslagsbreytinga.