Fréttir

E. coli STEC í nauthakki – Uppruni matarborins smits staðfestur með heilraðgreiningu á Matís

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Matís getur greint hvort E.coli STEC sé í matvörum

Undanfarnar tvær vikur hafa sérfræðingar Matís unnið hörðum höndum að því að rekja uppruna hópsýkingar af völdum E. coli STEC sem upp kom í leikskóla í Reykjavík um miðjan október. Rannsóknin var unnin í nánu samstarfi við Matvælastofnun, Sóttvarnarlækni, sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

Fjöldi matvæla, sem lágu undir grun, voru skimuð fyrir E. coli STEC en þessi baktería getur leynst víða. Fljótlega kom í ljós að hakk, sem notað var í matseld á leikskólanum, var langlíklegasti uppruni smitsins. Mikill fjöldi bakteríustofna var ræktaður úr hakkinu og að lokum tókst að einangra þrjá stofna sem innihéldu einkennandi meinvirknigen og voru af sömu sermisgerð og stofn sem einangraður var úr sjúklingi. Erfðamengi þessara fjögurra stofna var að lokum heilraðgreint á Matís. Sú greining leiddi í ljós að stofnar úr hakkinu og sjúklingi voru erfðafræðilega eins. Matís var brautryðjandi í innleiðingu þessarar aðferðafræði hér á landi til að rekja uppruna matarborinna sýkinga.

Matís vill að lokum vekja athygli á að fyrirtækið býður upp á greiningar á E. coli STEC í matvælum. Matís er tilvísunarrannsóknastofa (NRL) í þessum greiningum hér á landi. Það þýðir að Matís uppfærir sífellt aðferðir sínar í samræmi við nýjustu þekkingu og aðferðir í Evrópu. E. coli STEC er baktería sem getur valdið alvarlegum veikindum.

Fréttatilkynning MAST

IS