EcoFishMan Evrópusambandsverkefnið, sem Matís leiðir, verður á „Seas the Future“ ráðstefnunni í Færeyjum 7. og 8. júní.
Tilgangur „Seas the Future“ er að stuðla að áframhaldandi vinnu, í gegnum norrænt samstarf, og stuðla þannig að sameiginlegum aðgerðum og samræmingu á svæðum vegna sjálfbærrar þróunar, bæði á milli Norðurlandanna og nágranna þeirra í aðliggjandi svæðum á Norður-Atlantshafi, Norður heimsskautinu og í Evrópusambandinu.
Eins og fram hefur komið í fréttum og vefsíðum Matís þá væntir Evrópusambandið þess að í EcoFishMan verkefninu verði þróuð ný aðferðafræði sem nýtist við breytingar og umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi sínu. Lögð er áhersla á samstarf við sjómenn, útgerð og vinnslu og að hagnýta upplýsingar úr rafrænum afladagbókum. Markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænni, sjálfbærri og hagrænni stjórnun með sérstakri áherslu á rekjanleika og að lágmarka brottkast afla.
Að EcoFishMan verkefninu koma alls 13 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í átta Evrópulöndum, þar á meðal Háskóli Íslands og háskólinn í Tromsö í Noregi. Gert er ráð fyrir að verkefnið kosti 3,7 milljónir evra á þremur árum og nemur styrkur ESB 3,0 milljónum evra.
- Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, verður verkefnisstjóri og dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri hjá Matís, verður með henni í vísindanefnd verkefnisins.