Í febrúar 2021 gaf Landbúnaðarháskóli Íslands út skýrsluna Fæðuöryggi á Íslandi. Margt merkilegt kemur fram í skýrslunni og má taka korn sem dæmi. Bent er á að innlend framleiðsla á korni til manneldis er aðeins um 1% af heildarneyslu. Um er að ræða afar lítið hlutfall sem gæti verið hærra þar sem skilyrði til framleiðslu hér á landi eru til staðar.
Matís hefur á undanförnum árum staðið að nokkrum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum um korn og möguleika þess á Íslandi. Dæmi um þetta er verkefnið um korn á norðurslóðum en einnig má nefna ýmis verkefni um íslenskt bygg sem unnin hafa verið í samstarfi við Landbúnaðarháskólann og fleiri innlenda og erlenda aðila. Auk þess er nú hafið samstarf um rannsóknir á notkun íslenskra hafra.
Bygg og hafrar búa yfir ýmsum áhugaverðum eiginleikum fyrir matvælaframleiðslu og hafa rannsóknir hjá Matís fjallað um virðiskeðju korns frá kornskurði til framleiðslu matvæla. Bygg er um allan heim notað til framleiðslu á byggmalti sem er eitt mikilvægasta hráefnið til framleiðslu á áfengum drykkjum. Talsvert af byggmalti er flutt inn til landsins en nota mætti meira af íslensku byggi í drykkjarvöruiðnaði á Íslandi sem hefur verið í miklum vexti síðustu ár. Nú er í gangi verkefni hjá Matís þar sem eru gerðar tilraunir með möltun á íslensku byggi.
Sýnt hefur verið fram á hollustu byggsins með mælingum á beta-glúkönum en þeir eru vatnsleysanleg trefjaefni og skýrslu um þessar mælingar má finna hér: Íslenskt bygg til matvælaframleiðslu. Þessi trefjaefni stuðla að lækkun kólesteróls í blóði og draga úr blóðsykursveiflum. Hveiti býr ekki yfir þessum eiginleikum og því er hægt að auka hollustugildi bökunarvara með því að nota bygg í staðinn fyrir hluta hveitisins. Hér eru miklir möguleikar á nýsköpun sem nýta mætti í hvers kyns bakstursiðnaði.
Hafrar eru vel þekkt hráefni í margs konar matvæli eins og hafraflögur (haframjöl), múslí og hafradrykki. Á Sandhólsbúinu nálægt Kirkjubæjarklaustri hefur verið unnið ötult frumkvöðlastarf við ræktun hafra og hafraflögur frá búinu eru vinsæl vara í verslunum. Landbúnaðarháskólinn hefur hafið tilraunir með heppilegustu hafraafbrigðin fyrir íslenskar aðstæður. Sandhólsbúið er svo einnig í samstarfi við Matís og unnið er að því að þróa hafradrykk úr þeirra eigin framleiðslu.
Matís hefur í gegnum tíðina gefið út margvíslegar upplýsingar um þróun matvara úr korni. Víðtækustu upplýsingarnar er að finna á vefsíðu norræns verkefnis um korn.