Fiskeldisteymi Matís heimsótti Stolt Sea Farm í apríl og þökkum við fyrir góðar móttökur. Meginþorri Íslendinga er sennilega ekki vel upplýstur um þetta flotta fyrirtæki sem staðsett er yst úti á Reykjanesi.
Um er að ræða alþjóðlegt fyrirtæki, með höfuðstöðvar á Spáni, sem framleiðir sandhverfu (turbot) og Senegal flúru (Senegal sole), en á síðasta ári var framleiðsla fyrirtækisins um 6.900 tonn af sandhverfu og 1.700 tonn af Senegal flúru. Stolt er með framleiðslu á 16 stöðum á heimsvísu, en hér á Íslandi er einungis framleidd Senegal flúra og var framleiðslan á síðasta ári um 250 tonn. Flúran er hlýsjávarfiskur og nýtir fyrirtækið sér kælivatn frá virkjun HS Orku, sem staðsett er við hlið fiskeldisins, til að halda á fiskunum kjörhitastigi, sem er um 23°C.
Stolt hyggur á framleiðsluaukningu á komandi árum. Sú aukning mun að líkindum ekki fara fram hér á landi en fyrirtækið hefur verið að auka við innviði sína á Spáni og í Portúgal á síðustu misserum. Eins og sjá má á grafinu hér að neðan er fyrirtækið með markmið um að þrefalda framleiðslu sína á næstu 10 árum.
Hvað framleiðslu á Senegal flúru varðar þá stefnir Stolt á að auka framleiðslu sína úr 1.700 tonnum í 4.700 tonn til ársins 2028, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
Solt Sea Farm er framsækið fyrirtæki sem fjárfesti 10,7% af tekjum sínum í Rannsóknum og Þróun, sem er hlutfall sem við hjá Matís kunnum að meta. Matís óskar þessu flotta fyrirtæki gæfu á komandi árum og væntir þess að samstarf fyrirtækjanna muni vaxa og dafna.