Fréttir

Hvítfiskvinnsla og landeldi njóta góðs af vinnu í Accelwater verkefninu

Síðastliðna viku fór fram verkefnafundur á Spáni í samstarfsverkefninu Accelwater sem Matís tekur þátt í. Tveir verkefnastjórar frá Matís, þau Sæmundur Elíasson og Hildur Inga Sveinsdóttir sóttu fundinn og kynntu meðal annars þá verkþætti sem þau hafa komið að.

Verkefnið Accelwater snýst um hröðun hringrásar vatns í matvæla- og drykkjariðnaði víðsvegar um Evrópu en helsta markmið verkefnisins er að nýta verðmæti úr vatni og minnka ferskvatnsnotkun við matvælavinnslu. Fjölmargir matvælaframleiðendur og rannsóknaraðilar koma að verkefninu en Matís leiðir þann vinnupakka sem snýr að Íslandi og hér er áhersla lögð á landvinnslu hvítfisks og landeldi laxa. Íslenskir þátttakendur verkefnisins eru auk Matís Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, Útgerðarfélag Akureyrar og Samherji Fiskeldi.

Á vinnufundinum kynntu Hildur og Sæmundur nýjustu fréttir af íslenska vinnupakkanum. Helstu fréttir sneru að uppsetningu flæði- og orkunema í hvítfiskvinnslu til þess að mæla breytingar og ná fram bæði vatns- og orkusparnaði í vinnslunni. Þar er meistaranemandi frá Danmörku að vinna lokaverkefni sitt kringum þessa vinnu.

Í landeldinu var farið yfir framgang í tilraunum með nýtingu á seyru til áburðarframleiðslu. Þar er komið kerfi sem síar seyruna og skilar sér í þurrefnismassa sem hægt er að nýta m.a. í lífgas eða áburð. Einnig var farið yfir tilraunir með þurrblæðingu á laxi og mögulega nýtingu laxablóðs til verðmætasköpunar.

Loks var farið yfir niðurstöður lífsferilsgreiningar sem unnið er að með Háskóla Íslands. Þar er um þessar mundir verið að greina vatnsnotkun og umhverfisáhrif fiskeldisiðnaðar og fóðurframleiðslu með aðferðafræði lífsferilsgreiningar.

Auk þessarar kynningar voru samstarfsaðilar í verkefninu sem sem staðsettir eru á Spáni heimsóttir. Kjötvinnuslufyrirtækið BETA var heimsótt og aðstæður skoðaðar en þau vinna að því að breyta úrgangi úr vinnslunni í verðmæti. Kjötvinnsla MAFRICA var einnig heimsótt og hjá þeim mátti skoða hreinsiferli fyrir úrgang sem var þróað í Accelwater verkefninu. Þá er úrgangur/svínaskítur settur í vatnshreinsunarferli og lífgasver og útkoman er endurnýtanlegt vatn og orka, meðal annars í formi lífgass.

Í lok ferðar gafst þeim svo tækifæri á að skoða hið fagra Montserrat fjall.

Frekari upplýsingar um Accelwater verkefnið má nálgast hér: Accelwater: Hröðun hringrásar vatns í matvæla- og drykkjariðnaði víðsvegar um Evrópu

IS