Ný rannsókn Matís sýnir kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöts og grænmetis – og leggur grunn að opinberum upplýsingum um umhverfisáhrif í ÍSGEM gagnagrunninum.
Í verkefninu Kolefnisspor íslenskra matvæla (KÍM), sem er samstarfsverkefni Matís, Háskóla Íslands og EFLU, hefur verið þróuð samræmd og vísindalega studd aðferð til að meta losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskri matvælaframleiðslu. Verkefnið náði til fjögurra helstu matvælaflokka: mjólkur, nautakjöts, lambakjöts og grænmetis (kartöflur og gúrkur). Markmið verkefnisins var ekki einungis að þróa aðferðafræðina heldur einnig að framkvæma útreikninga með íslenskum gögnum og bera niðurstöðurnar saman við evrópsk viðmið.
Gagnaöflun og aðferðafræði byggð á alþjóðlegum stöðlum
Gagnaöflun fór fram í nánu samstarfi við innlenda framleiðendur og hagsmunaaðila. Þar sem frumgögn voru takmörkuð var stuðst við alþjóðlega viðurkennda gagnagrunna til að tryggja áreiðanleika og samanburðarhæfni. Útreikningar byggðu að mestu á vistferilsgreiningu (LCA) samkvæmt ISO-stöðlum, en einnig var tekið mið af GHG Protocol, Product Environmental Footprint (PEF) og Environmental Product Declaration (EPD) aðferðum.
Niðurstöður sýna íslensk matvæli á pari við evrópsk viðmið
Niðurstöður sýna að reiknað kolefnisspor íslenskra matvæla er almennt á svipuðu bili og það sem greint hefur verið fyrir sambærileg matvæli í Evrópu samkvæmt birtum rannsóknum. Hins vegar er umtalsverður munur á milli vöruflokka og framleiðsluaðferða. Greiningin dregur fram ákveðna styrkleika íslenskrar matvælaframleiðslu, svo sem notkun endurnýjanlegrar orku og stuttra virðiskeðja, en einnig þörf á frekari gögnum til að gera nákvæmari samanburð við önnur lönd.

Kolefnisspor matvæla gerð aðgengileg í ÍSGEM gagnagrunninum
Verkefnið lagði jafnframt grunn að því að kolefnisspor verði birt í ÍSGEM gagnagrunninum, þar sem almenningur, stefnumótendur og framleiðendur geta nálgast upplýsingar á gagnsæjan hátt. Enn er verið að útfæra hvernig niðurstöður verði birtar í gagnagrunninum, bæði hvað varðar form og nákvæmni gagna.
Þó verkefnið einblíni á kolefnisspor (GWP100) sýnir það skýrt mikilvægi þess að bæta við fleiri umhverfisáhrifaflokkum í framtíðinni, svo sem vatnsnotkun, næringarefnaauðgun og áhrif á líffræðilega fjölbreytni, til að ná heildstæðri mynd af sjálfbærni íslenskra matvæla.
Verkefnið heldur áfram undir heitinu KÍM 2, þar sem unnið verður að frekari greiningu á kolefnisspori fleiri íslenskra matvæla. Einnig hefur hafist nýtt verkefni, KÍM – sjávarafurðir, sem beinist að losun íslenskra fiskafurða. Með þessum framhaldsverkefnum verður unnið að því að byggja upp heildstæða mynd af umhverfisáhrifum íslenskrar matvælaframleiðslu frá landi til sjávar.
Verkefnið KÍM var unnið með stuðningi Matvælasjóðs.
