Fréttir

Mikill áhugi á beinum viðskiptum með heimaslátrað kjöt

Nú fyrir helgi stóð Matís fyrir fundi um möguleika til beinna viðskipta með heimaslátrað kjöt og mikilvægi áhættumats í því samhengi.  Fundurinn var haldinn í Miðgarði í Skagafirði og var mjög vel sóttur, enda ljóst að mikill áhugi er á því meðal bænda að slátra á bæjum sínum og selja afurðirnar í beinum viðskiptum til neytenda.

Á meðal framsögumanna var Andreas Hensel, forseti þýsku áhættumatsstofnunarinnar BfR.  Í máli Andreasar kom m.a. fram að ýmsar undanþágur eru í gildi í Þýskalandi um bein viðskipti bænda, m.a. er seld ógerilsneydd mjólk á svokölluðum „Milchhaltestelle“ á bóndabæjum. Jafnframt er eftirliti með slátrun bænda á lömbum undir þriggja mánaða aldri haldið í lágmarki, þar sem áhættan fyrir neytendur er metin sem lítil. Bein viðskipti með afurðir af þeim lömum eru ekki takmörkunum háð umfram hefðbundnar afurðir. Grundvöllur þess að hægt væri að fá slíkar undanþágur væri að fyrir lægi vísindalegt áhættumat og aðgerðir til að lágmarka áhættu, svo sem þjálfun bænda í slátrun og meðferð kjötafurða.

Aðrir framsögumenn voru Freydís Dana Sigurðardóttir fagssviðsstjóri búfjáreftirlits hjá Matvælastofnun, Atli Már Traustason bóndi að Höfdölum, Þröstur Heiðar Erlingsson bóndi í Birkihlíð og Hrönn Jörundsdóttir sviðsstjóri hjá Matís. Líflegar umræður í kjölfar erinda endurspegluðu mikinn áhuga bænda og mikilvægi þess að bein viðskipti með heimaslátrað kjöt yrðu auðvelduð.

Nálgast má útsendingu af fundinum á facebook síðu Matís.  Á næstu dögum verður sagt betur frá efni fundarins en í kjölfar hans ákváðu starfsmenn Matís og Matvælastofnun að vinna sameiginlega að framgangi málsins.

Frekari upplýsingar veitir Hrönn Jörundsdóttir, 858-5112.

Hér er hægt að sjá upptöku frá fundinum.

Og glærur frá fundinum má finna hér fyrir neðan:

IS