Fréttir

Nýpróteinin afar sjálfbær í samanburði við flest hefðbundnari matvæli

Á dögunum birtist grein í veftímaritinu Horizon, the EU Research & Innovation Magazine þar sem fjallað var um það hvernig viðhorf fólks til ýmissa nýpróteina hafa breyst og þróast undanfarin ár.

Í greininni var meðal annars rætt við Birgi Örn Smárason, fagstjóra hjá Matís um verkefnið NextGenProteins sem hann hefur leitt undanfarin fjögur ár. Í því verkefni voru umhverfisáhrif, næringareiginleikar og viðhorf neytenda til þriggja nýpróteina rannsökuð.

Unnt var að framleiða þrjár gerðir af próteindufti, úr skordýrum, spirulinu úr örþörungum og einfrumuprótein úr gersveppum sem ræktaðir voru á afgöngum sem falla til við skógrækt. Allar gerðir hafa góða næringareiginleika svo hægt er að nota duftið í bæði fóður og fæðu og auk þess hefur framleiðsla þeirra lítil umhverfisáhrif í samanburði við flesta aðra matvælaframleiðslu.

Birgir Örn sagði í viðtalinu að hann trúi því sannarlega að með því að fræða neytendur sé hægt að taka stór skref í átt að aukinni sjálfbærni í mataræði fólks og matvælakerfum heimsins. Í verkefninu voru gerðar ýmsar neytendakannanir meðal fjölda fólks frá Finnlandi, Þýskalandi, Íslandi, Ítalíu, Póllandi, Svíþjóð og Bretlandi.

Í ljós kom að viðhorf fólks eru að stærstum hluta mjög jákvæð í garð spirulinu og einfrumupróteins en dálítið síðri í garð skordýrapróteins. Þrátt fyrir að próteinduft sem búið var til úr krybbum hafi verið þróað sérstaklega til þess að bæta viðhorfin til þessarar tegundar próteins voru samt aðeins einn af hverjum þremur sem gátu hugsað sér að bragða á skordýrum.

Greinina, sem ber yfirskriftina New foods can go from yucky to yummy as people’s perceptions evolve má lesa í heild sinni með því að smella hér.

IS