Fréttir

Ráðherra afhjúpar nýja tegund af fiskikeri í Brussel

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrirtækið Sæplast ehf á Dalvík hefur þróað nýtt byltingarkennt fiskiker í samvinnu við Rf, FISK Seafood hf og Háskóla Íslands. Fiskikerið var formlega afhjúpað af sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni á sjávarútvegssýningunni í Brussel í dag. Frá þessu segir á vefsíðu AVS sjóðsins, en hann styrkti einmitt þetta verkefni.

Þetta verkefni hófst árið 2004 og markmið þess var að finna leiðir til að minnka farg á fiski í neðstu lögum fiskkera og minnka þar með rýrnun og mar í fiski. Fyrstu hugmyndirnar voru þær að reyna að útbúa og þróa nokkurs konar hillukerfi í kerin, en væntanlegir notendur slógu þá hugmynd fljótlega af svo reynt var að nálgast verkefnið með öðrum hætti.

Niðurstaðan var sú að byrja frá grunni og hanna alveg nýtt ker sem uppfyllti þau markmið að bæta gæði hráefnis og að bæta jafnframt nýtingu rúmmáls um borð í skipum, geymslum og flutningstækjum. Nú hefur nýtt ker litið dagsins ljós og er það nokkuð lægra en flest fiskiker eru í dag, einnig er kerið léttara, og við stöflun þá lokar efra kerið því neðra án þess að skítur frá lyftara berist í neðra kerið.  Að auki er rúmmálsnýting í lestum skipa og flutningstækjum umtalsvert betri með nýja kerinu. 

Einn kostur er að nýja kerið staflast með eldri kerum þannig að ekki er um neina slíka kerfisbreytingu að ræða. Það verður spennandi að fylgjast með og sjá hvernig þessu nýja keri verður tekið og hvernig það reynist, etv er hér komið nýtt og betra tæki til að bæta nýtingu og gæði hráefnis.

Verkefnisstjóri á Rf var Sveinn V. Árnason