Fréttir

Sjávarútvegsráðherra Sierra Leóne heimsækir Matís

Sendinefnd frá Sierra Leóne kom til landsins í lok september í boði utanríkisráðuneytisins til að kynna sér starfsemi helstu stofnanna er tengjast bláa hagkerfinu – Matís, Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og Sjávarútvegsskóla GRÓ.

Fyrir nefndinni var Emma Josephine Kowa, sjávarútvegsráðherra. Heimsókn nefndarinnar var undirbúningur að væntanlegum samstarfsverkefnum Íslands og Sierra Leóne, sem tengjast samkomulagi um tvíhliða samstarf landanna í þróunarmálum. Sierra Leóne er eitt fátækasta ríki veraldar þrátt fyrir aðgengi að töluverðum auðæfum, bæði á landi og sjó. Langvinnt grimmt borgarasrtíð reyndi á þjóðina en núverandi stjórnvöld eru staðráðin í þróa ríkið til betri vegar og horfa þar á betri nýtingu á auðæfum hafsins.

Sendinefndin ásamt fulltrúum utanríkisráðuneytisins kom í heimsókn til Matís 20 september s.l. þar sem starfsemi fyrirtækisins var kynnt og húsakynni skoðuð. Í framhaldi voru umræður um aðkomu Matís að ýmsum verkefnum sem snerta bláa hagkerfið og fellur undir markmið utanríkisráðuneytisins um tvíhliða samstarf. Sjávarútvegsráðherra þakkaði Matís sérstaklega fyrir vel heppnað verkefni er varðaði reykingu fisks sem skilar betri gæðum og bættu heilsufari starfsfólks. En Matís hannaði reykofninn og aðstoðaði við smíði hans.

IS