Fréttir

Verkefninu „Íslenskt bygg til framleiðslu á áfengum drykkjum“ lokið

Niðurstöður verkefnisins Íslenskt bygg til framleiðslu á áfengum drykkjum endurspeglast í MS verkefni sem unnið var af Craig Clapcot, nema í matvælafræði við Háskóla Íslands fyrr á árinu.

Markmið verkefnisins var að bera saman tvær aðferðir til að framleiða gerjanlegan vökva úr íslensku byggi til innlendrar viskíframleiðslu. Fyrri aðferðin byggðist á framleiðslu maltvökva úr íslensku byggi, hin síðari byggðist á því að vinna íslenskt bygg eingöngu með viðbættum ensímum. Innflutt byggmalt var einnig rannsakað til samanburðar. Mælingar voru gerðar á sykurtegundum við upphaf og lok gerjunar ásamt alkóhóli í lok gerjunar. Sýni voru sérstaklega útbúin fyrir skynmat og til að meta möguleika á framleiðslu áfengra drykkja. 

Á Íslandi eru tækifæri til að skilgreina íslenskar aðferðir við framleiðslu áfengra drykkja og þessar aðferðir þurfa ekki endilega að fylgja hefðbundnum aðferðum í Skotlandi og á Írlandi. Innan drykkjarvöruiðnaðarins á Íslandi er hafin skoðun á því hvernig hægt verði að vernda heitið „íslenskt viskí“ bæði á Íslandi og í Evrópu (sjá grein í Bændablaðinu frá nóvember 2020: Eimverk sækir um vernd fyrir „Íslenskt viskí).

Hluti af þessu ferli er að skilgreina hvað íslenskt viskí er og hvernig það er framleitt, alveg eins og Skotar þurftu að gera í byrjun 19. aldar fyrir eigin framleiðslu. Þetta gerðu þeir með því að spyrja spurningarinnar: Hvað er viskí?

Nauðsynlegt er að skilgreina íslenskt viskí svo hægt verði að nota innlent bygg í fleira en fóður og hægt verði að ganga úr skugga um hvort mögulegt verði að auka virði byggsins. Vonast er til þess að þessi vinna auðveldi nýjum aðilum að nýta íslenskt bygg til framleiðslu á viskíi og öðrum áfengum drykkjum.

Niðurstöður MS verkefnisins eru þær að báðar framleiðsluaðferðirnar eru vænlegar til framleiðslu á áfengum drykkjum á Íslandi. Þó fékkst ekki eins mikill sykur úr möltuðu íslensku byggi og innfluttu malti eða íslensku byggi sem hafði verið meðhöndlað með viðbættum ensímum við háan hita. Það kann að vera að gerð eimingartækjanna hafi meiri áhrif á bragð viskísins en það hvort byggið hafi verið maltað eða unnið með ensímum. Hugsanlegt er að ekki verði hægt að malta íslenskt bygg á hverju ári þar sem þroski byggsins er háður veðurfari. Iðnaðurinn þarf því að hafa önnur ráð en möltun í slíkum árum til að tryggja framleiðslu á áfengum drykkjum. Verkefnið mun vonandi leggja til þekkingu og hugmundir fyrir drykkjarvöruiðnað í örri þróun á Íslandi.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á verkefnasíðu þess hér: Íslenskt bygg til framleiðslu á áfengum drykkjum

IS