Bláa lífhagkerfið er mikilvægt mörgum samfélögum á norðurslóðum þar sem það er uppspretta matar og annarra verðmætra lífauðlinda, skapar verðmæti og atvinnu og styrkir dreifðar byggðir. Innan verkefnisins var bláa lífhagkerfi valinna svæða; Íslands, Noregs og Norður-Kanada skoðað með tilliti til stöðu þess, helstu tækifæra og ógnana. Niðurstöður verkefnisins voru teknar saman í lokaskýrslu. Í skýrslunni er, auk greininga á bláa lífhagkerfi svæðanna þriggja, kafli um bláa lífhagkerfið í Alaska, kafli um sýn Inúíta á bláa lífhagkerfið og kafli um markaði fyrir hin ýmsu hráefni úr sjó. Verkefnið var unnið fyrir Sustainable Development Working Group (SDWG) og féll undir formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu (2019-2021).
Greining á bláa lífhagkerfi norðurslóðasvæðanna þriggja leiddi bersýnilega í ljós mikinn breytileika milli svæða og að það er ekki hægt að tala um eitt blátt lífhagkerfi á norðurslóðum. Þetta stafar af fjölbreyttum náttúrulegum, efnahagslegum og félagslegum aðstæðum á norðurslóðum. Einnig er þroski bláa lífhagkerfisins og svæðisbundnar áherslur innan þess mismunandi, auk breytilegs menningarlegs skilnings á því. Þrátt fyrir það eru mikilvægir sameiginlegir hagsmunir innan norðurslóða til staðar og getur svæðið notið góðs af auknu samstarfi og gagnkvæmum stuðningi til að styrkja bláa lífhagkerfið enn frekar.