Í verkefninu var fengist við að draga saman gögn um efnainnihald matvæla frá íslenskum landbúnaði og varpa með því ljósi á sérstöðu og mikilvægi innlendu framleiðslunnar. Með efnainnihaldi er átt við næringarefni og aðskotaefni. Verkefnið var unnið á árunum 2020 og 2021 og var það styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
Niðurstöður verkefnisins eru teknar saman í skýrslu Matis ( Sérstaða matvæla frá íslenskum landbúnaði– Næringarefni og aðskotaefni – Matís (matis.is) ). Athuganir fóru fram fyrir hvern þessara matvælaflokka: Grænmeti, korn, kjöt, mjólk og egg. Gerð var grein fyrir framleiðsluaðstæðum, fáanlegum gögnum um næringarefni og aðskotaefni og síðan voru settar fram ályktanir. Nokkrar ályktanir koma fram hér að neðan.
Nauðsynlegt er að koma á árlegu eftirliti með sveppaeiturefnum í innlendu korni (byggi og höfrum) og kornvörum. Nauðsynlegt er að gera mælingar á kjöti þegar kjötmatsflokkun er breytt þannig að hægt sé að gefa upp rétt næringargildi. Vegna mikillar vöruþróunar á skyri er magn ýmissa vítamína og steinefna óljóst í skyrafurðum og nauðsynlegt er að gera efnamælingar til að hægt sé að veita upplýsingar um þessi efni. Lítið er gert af varnarefnamælingum á íslensku grænmeti og korni og því þyrfti að auka þær mælingar til að styrkja stöðu innlendu framleiðslunnar. Í ljósi loftslagsbreytinga, fleiri skordýra og annarra plága, gæti þurft að auka notkun varnarefna í ræktun og þá er mikilvægt að beita þeim með árangursríkum hætti og eftirlit gæti hjálpað til þess.