Markmið verkefnisins er að þróa fæðubótarefni rík af næringarefnum úr spirulina (Spirulina plantensis). Stefnt er að því að þróa öruggar notendavænar vörur með með háum styrk af virku B12 vítamíni og járni, tilbúna til framleiðslu og markaðsetningar í lok verkefnisins. Við vöruþróunina verður lögð áhersla á m.a. skynmat, örveru- og efnamælingar.
Framkvæmdar verða notendaprófanir með það að markmiði að fá fram upplifun og mat neytenda á vörunni. Auk þess verða áhrif fæðubótaefnisins á járngildi og blóðhag könnuð og borin saman við sambærilegt fæðubótaefni á markaði. VAXA Technologies hefur með ákveðnum ræktunarskilyrðum og vinnslu á spirulina þróað afurð undir nafninu Icelandic Ultra Spirulina (IUS). IUS inniheldur m.a. lífsnauðsynlegar amínósýrur, lífaðgengilegt (e. bioavailable) járn, virkt B12 vítamín, K1 vítamín og ß-karótín. Magn af virku B12 vítamíni í IUS er það hátt að það nægir að taka inn 0,03 g af IUS daglega til að uppfylla skilyrði fyrir næringarfullyrðingu þ.e. veitir meira en 20% af ráðlögðum dagskammti af virku B12 vítamíni. VAXA Technologies nýtir koltvísýring, rafmagn og heita og kalda frárennslisstrauma frá Hellisheiðarvirkjun til að rækta spirulina. Spirulina framleiðsla VAXA er því ekki einungis umhverfisvæn, hún er með neikvætt kolefnisfótspor.