Verkefnið Þróun íslenskrar haframjólkur var styrkt af Matvælasjóði á árinu 2021. Styrkþegi var Sandhóll bú ehf en þar var Örn Karlsson í forsvari. Vinna við vöruþróun, viðskiptaáætlun og öflun upplýsinga um tæki var keypt af Matís ohf. Vinnu við verkefnið lauk í mars 2022.
Að loknu vöruþróunarferli á rannsóknastofu Matís tókst að framleiða hafradrykk með fullnægjandi eiginleika og bragðgæði að mati starfsmanna Matís. Hægt var að ná sambærilegum bragðgæðum og fyrir algenga innflutta hafradrykki á markaði. Eiginleikar repjuolíu voru jafnframt til skoðunar. Hafrar frá Sandhólsbúinu reyndust fullnægjandi hráefni fyrir framleiðsluna. Tekin var saman viðskiptaáætlun fyrir verksmiðjuframleiðslu á hafradrykk á Íslandi.
Áform aðstandenda Sandhóls bús eru að hefja framleiðslu á íslenskum hafradrykk. Hafradrykkur úr íslenskum höfrum er nýjung hér á landi sem auka mun virði innlendrar hafraframleiðslu og hefur minna kolefnisspor en innfluttir hafradrykkir. Neysla á hafradrykkjum hefur verið stigvaxandi á Íslandi og má rekja þá þróun til vaxandi ásóknar neytenda í jurtatengdar afurðir í stað dýraafurða. Líklegt er að sú þróun haldi áfram vegna mikillar umræðu um umhverfismál.