Mikið magn hliðarhráefnis fellur til í íslensku fiskeld, en í dag eru þessi hráefni að mestu unnin í meltu sem flutt er út til Noregs til frekari vinnslu í dýrafóður.
Í þessu verkefni er bent á leiðir til að auka verðmætasköpun við meltuvinnslu hér á landi, og lækka kostnað. Einkum var horft til þess að lækka flutningskostnað með því að vinna meltuna meira, taka úr henni lýsi og vatn, sem minnkar umfang og vigt við flutning og gefur tækifæri á að vinna hana í dýrari afurðir. Laxeldi á Íslandi í dag er dreift um Austurland og Vestfirði, auk þess sem umfangsmikið landeldi er í undirbúningi á a.m.k. þremur stöðum á Suðurlandi, og því mikilvægt að finna lausnir til að safna saman og flytja hliðarhráefnin frá eldi og slátrun til áframvinnslu, en töluverðan tækjabúnað þarf til þess.
Markmið verkefnisins er að þróa leiðir til að búa til verðmætar afurðir úr hliðarhráefni sem fellur til við ræktun, slátrun og vinnslu laxfiska. Hliðarstraumum í fiskeldi er að mestu skipt í tvo flokka, þ.e. K2 sem er sjálfdauður fiskur sem drepst í kvíum, og K3 sem er slóg sem fellur til við slátrun, auk hausa, hryggja og afskurðar sem fellur til við fullvinnslu. Ekki má vinna hráefni frá K2 til manneldis né í fóður fyrir dýr sem ræktuð eru til manneldis, og þess vegna þarf að líta til annarra markaða t.d. gælu- eða loðdýr. K3 getur hins vegar farið til framleiðslu til manneldis eða í fóður dýra sem neytt er af mönnum.
Í verkefninu er velt upp mikilvægum möguleikum í nýtingu á K2 og K3 sem hingað til hefur verið kostnaður fyrir fiskeldið og gæti snúið því yfir í verðmætasköpun. Til að koma þessum hugmyndum lengra er nauðsynlegt fyrir rannsóknarsamfélagið að vinna þétt með fiskeldisfyrirtækjum og yfirvöldum sem skapa regluverkið.
Verkefninu lauk árið 2022 með útgáfu lokaskýrslu sem sjá má hér.