Bætt nýting sjávarafla
Skýrsla þessi er unnin fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið; og er hún aðallega hugsuð sem innlegg í vinnu ráðuneytisins við endurskoðun á stefnu varðandi nýtingu sjávarafla. Skipta má efni skýrslunnar upp í tvo meginþætti þ.s. í fyrri hlutanum er tekið stöðumat á nýtingu og verðmætasköpun þorskafla m.t.t. sjófrystingar, landvinnslu og gámaútflutnings; en í seinni hlutanum er reynt að bera kennsl á hvar helstu sóknarfæri eru til bættrar nýtingar og aukinnar verðmætasköpunar á bolfisksafla landsmanna. Við gagnaöflun var aðallega leitað í afla- og ráðstöfunarskýrslur Fiskistofu og útflutningsgögn Hagstofunnar fyrir árin 2007 og 2008. Þar sem Fiskistofa og Hagstofan eru enn að safna gögnum fyrir árið 2009 þótti ekki tímabært að kanna nýtingu og verðmætasköpun eftir vinnsluleiðum fyrir 2009; skýrsluhöfundar mælast þó til að það verði gert um leið og öll gögn liggja fyrir. Árið 2008 veiddu íslensk skip um 151 þúsund tonn af þorski (127 þúsund tonn slægt) sem úr voru unnin 90 þúsund tonn af afurðum að verðmæti 59,5 milljarðar króna (fob). Um 75% aflans fór til landvinnslu, 20% var sjófryst og rúmlega 5% var flutt út óunnið í gámum. Gögnin sýna að verulegur munur var á nýtingatölum í landvinnslu og sjóvinnslu þ.s. flakanýting, hausanýting og nýting á aukaafurðum var umtalsvert lakari hjá frystitogaraflotanum. Gróft áætlað var nýting í landvinnslu um 72% (massahlutfall hráefnis og afurða miðað við slægt með haus) á móti um 44% í sjófrystingu. Ýmsar ástæður kunna að liggja að baki þeirri staðreynd að nýting afla af frystiskipum sé mun lakari en í landvinnslu, en þó má ljóst vera að umtalsverð sóknarfæri séu fólgin í að auka nýtingu hjá frystitogaraflotanum. Sem dæmi um hvar hægt væri að auka nýtingu má t.d. nefna að hausanýting hjá flakafrystitogurum er almennt 35,5%, en í flakavinnslu í landi er hún 22- 30%; og yfirdrifinn meirihluti togaranna sér þess þar að auki ekki fært að koma með hausana í land. Einnig bendir ýmislegt til að unnt væri að koma með meira af öðrum aukaafurðum í land en nú er gert t.d. afskurð, marning, lifur, hrogn, svil o.fl. Mikið hefur áunnist varðandi nýtingu í landvinnslu á undanförnum misserum en þó eru enn til staðar tækifæri til úrbóta. Mest framþróun í bættri nýtingu hefur orðið í vinnslu á þorskafurðum, en nýting á aukaafurðum í vinnslu á öðrum tegundum hefur ekki náð að fylgja þar eftir, enda eftir mestu að slægjast í þorskinum. Ánægjuleg þróun hefur t.d. orðið á síðustu þrem árum í niðursuðu á lifur, sem hefur tvöfaldast í magni frá 2006-2009. Mjög mikið magn af fiski er flutt út óunnið í gámum á ári hverju, en hátt fiskverð á mörkuðunum í Bretlandi og Þýskalandi gerir það að verkum að útgerðamenn sjá meiri hagnaðarvon í því að senda fiskinn úr landi en að selja hann til vinnslu innanlands. Hægt er að auka útflutningsverðmæti hluta þessa afla með því að vinna hann hér heima. Þrátt fyrir að bætt nýting sé mikilvæg má ekki gleyma því að magn og gæði fara ekki alltaf saman, því er ekki síður mikilvægt að hámarka hlutfall afurða sem fara í dýrustu afurðaflokkana. Til að það sé hægt þarf að tryggja rétta meðferð og ferlastýringu í gegnum alla virðiskeðjuna þar sem gæði eru hámörkuð á öllum stigum veiða, vinnslu og flutninga.