Þróun íslenska gagnagrunnsins um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) 2024-2025

Heiti verkefnis: ÍSGEM

Samstarfsaðilar: Samstarfsaðilar eru breiður hópur notenda ÍSGEM, svo sem matvælafyrirtæki, rannsóknafólk, kennarar og almenningur

Rannsóknasjóður: Matvælaráðuneytið

Upphafsár: 2024

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla er aðgengilegur á heimasíðu Matís

Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) geymir gögn um næringarefni í matvælum á íslenskum markaði og hefur verið lykiltæki fyrir næringarrannsóknir, opinbera ráðgjöf um mataræði, næringargildismerkingar og vöruþróun í matvælafyrirtækjum. Þá sækja einstaklingar upplýsingar um matvæli í grunninn á vefsíðu Matís. Fyrsta gerð ÍSGEM var tekin í notkun 1987 og er grunnurinn í umsjón Matís.

Matvælaráðuneytið hefur gert samning við Matís um viðamikla uppfærslu á ÍSGEM gagnagrunninum á árunum 2024 og 2025. Markmiðið er að tryggja aðgang almennings, rannsóknaraðila og atvinnulífs að áreiðanlegum upplýsingum um næringarinnihald matvæla. Vísað er í hlutverk Matís sem er að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, matvælaöryggis og lýðheilsu.

Matís skal uppfæra og viðhalda ÍSGEM þannig að þekkingu á næringargildi sé miðlað til almennings. Fáanleg íslensk gögn um næringarefni verða rýnd, gæðametin og skráð í ÍSGEM. Aflað verður erlendra gagna þegar það á við með aðstoð erlendra samstarfsaðila. Matís verður þátttakandi í evrópsku samstarfi á vegum EuroFIR félagsins. Framkvæmdar verða efnagreiningar á völdum matvælum í þeim tilgangi að kanna áreiðanleika þeirra gagna sem fyrir eru í gagnagrunninum og einnig til að afla gagna sem eru ekki fáanleg innanlands eða erlendis.