Fréttir

Ráðgjöf um veiðar og vinnslu í Tansanínu

Haustið 2011 gerði Matís samning við stjórnvöld í Tansaníu um verkefni við Tanganyikavatn í Tansaníu. Verkefnið er fjármagnað með láni frá Norræna þróunarsjóðum (NDF) sem staðsettur er í Helsinki. Verkefnið var boðið út á norðurlöndum og varð Matís hlutskarpast í því útboði.

Tanganyikavatn er meðal stærstu ferskvatna heims, tæplega 19 þúsund ferkílómetrar að stærð. Vatnið er einnig annað dýpsta ferskvatn í heimi, 1500 metrar þar sem það er dýpst. Fjögur lönd liggja að vatninu, þ.e. Tansanía, Kongó, Búrúndí og Sambía.
Tansaníubúar veiða fisk í Tanganyika en bæði veiðar og vinnsla eru með frumstæðum hætti. Verkefni Matís er meðal annars að aðstoða við þróun aðferða til að nýta fiskinn betur og gera hann verðmætari.

Matís hefur samið við íslensku fyrirtækin Ráðgarð Skiparáðgjöf ehf. og Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar ehf.  (VJI) um hluta verkefnisins. Ráðgarður mun veita  ráðgjöf og hafa umsjón með smíði á sérhæfðu skipi sem nota á til rannsókna á Tanganyika og fiskistofnum í vatninu en verkfræðistofa VJI mun stýra innkaupum í verkefninu. Að auki hefur Matís gert samning við fyrirækið Goch í Tansaníu sem mun annast félagshagfræðilegan hluta verksins og samskipti við fiskisamfélög við Tanganyika vatn.

„Þetta verkefni er mikil áskorun fyrir okkur því þarna eru aðstæður allar mjög frumstæðar og ólíkar því sem við þekkjum. Við þurfum þannig að finna leiðir til að þróa fiskvinnsluna út frá því sem er til staðar en getum ekki gengið að því vísu að hafa rafmagn, olíu eða aðra orkugjafa líkt og annars staðar. Stór hluti af verkefninu snýst síðan um að þjálfa og kenna heimamönnum hvernig á að meðhöndla fiskinn og við komum til með að senda fólk frá okkur sem mun velja nokkur þorp við vatnið og leiðbeina íbúunum. Það má því segja að hluti verkefnisins verði unninn hér heima og á síðari stigum vinnum við síðan samkvæmt okkar áætlunum á staðnum. Þetta verður mjög spennandi verkefni sem við reiknum með að verði á hápunkti árið 2012,“ segir Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Matís sem jafnframt er verkefnisstjóri Tansaníuverkefnisins. Ásamt honum stýrir Margeir Gissurarson, verkefnastjóri hjá Matís verkefninu.

Nánari upplýsingar: Oddur Már Gunnarsson

Fréttir

Hvert er magn aðskotaefna í mat sem er á borðum neytenda?

Þann fyrsta febrúar síðastliðinn hófst nýtt rannsóknarverkefni sem styrkt er að hluta til af 7. rannsóknaráætlun Evrópusambandsins.

Titill verkefnisins á ensku er „Total Diet Study Exposure“ sem útleggst á íslensku „Rannsókn á heildarneyslu aðskotaefna úr matvælum“. Matís stýrir einum verkþætti af 11 sem eru í verkefninu og tekur alls þátt í fimm verkþáttum

Í verkefninu verða þróaðar aðferðir til að meta hversu mikið fólk fær af óæskilegum aðskotaefnum úr matvælum eins og þau eru á borðum neytenda. Aðferðirnar verða síðan notaðar til að mæla hversu mikið fólk fær af völdum aðskotaefnum með fæðunni í nokkrum Evrópulöndum, þar á meðal Íslandi.

Með þessu verkefni gefst frábært tækifæri fyrir samræmdar rannsóknir á neyslu aðskotaefna á Íslandi og í nokkrum öðrum Evrópulöndum. Hjá Matís eru stundaðar rannsóknir á aðskotaefnum og matvælaöryggi. Verkefnið verður mikilvægt til að efla þetta svið og stuðla að auknu matvælaöryggi á Íslandi. Markmið verkefnis er að gera samræmdar rannsóknir á neyslu óæskilegra aðskotaefna í matvælum í Evrópu.

Til þess að hægt sé að framkvæma samræmdar rannsóknir þarf að samræma aðferðir sem notaðar eru við sýnatöku matvæla, mælingar á aðskotaefnum í matvælum, gæðamat á gögnum o.s.frv. Ætlunin er að prófa mismunandi aðferðir sem notaðar hafa verið í Evrópu og skilgreina besta verklag við rannsóknirnar. Einnig verður tekið saman hvaða aðskotaefni og hvaða matvæli skipta mestu máli við mat á heildarneyslu óæskilegra efna í fæðu Evrópubúa, en slíkar upplýsingar eru lykilatriði til þess að hægt sé að gera áhættumat vegna neyslu þessara efna og meta áhrif þeirra á heilsu manna.

Rannsóknin á heildarneyslu aðskotaefna gerir okkur kleift að fá raunverulegt mat á því hversu útsett við erum fyrir óæskilegum aðskotaefnum s.s.þungmálmum, þrávirkum lífrænum efnum, sveppaeiturefnum og fleiri aðskotaefnum úr matvælum eins og við borðum þau þ.e.a.s. steikt, soðin grilluð, reykt, þurrkuð eða bökuð.

Lykilupplýsingar fyrir verkefnið:
Heildarverkefniskostnaður Matís: 631.169€ þar af ESB Styrkur: 497.997€
Heildarstyrkupphæð ESB verkefnisins: 5.967.951€
Fjöldi þátttakenda: 26 frá 18 mismunandi löndum

Nánari upplýsingar: Helga Gunnlaugsdóttir

Skýrslur

Nýting og efnainnihald grásleppu / Utilization and composition of lumpfish

Útgefið:

01/02/2012

Höfundar:

Ólafur Reykdal, Þuríður Ragnarsdóttir, Gunnar Þórðarson

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Nýting og efnainnihald grásleppu / Utilization and composition of lumpfish

Niðurstöður sem eru birtar í þessari skýrslu eru hluti verkefnisins Bætt nýting hrognkelsafurða. Á vertíðinni 2011 voru tekin sýni af grásleppu sem veidd var í Húnaflóa, Skagafirði og Skjálfanda. Einnig voru fengin sýni af slægðri grásleppu frá tveimur fyrirtækjum. Grásleppan var skorin í fimm hluta og einstakir hlutar voru vegnir. Flakanýting var að meðaltali 14% af heildarþyngd, hrogn voru 30%, lifur 3%, hryggur 6%, slóg 6% og hvelja ásamt haus og sporði 40%. Grásleppuflök voru fiturík (8‐18 g/100g) en lág í próteinum (8‐9 g/100g). Hveljan var aftur á móti fitulítil. Hrogn voru sérstaklega selenrík en þungmálmarnir kvikasilfur, kadmín og blý voru ekki mælanlegir.  

Results in this report are a part of the project Increasing utilization of lumpfish. Sampling was carried out in March to June 2011 in Húnaflói, Skagafjörður and Skjálfandi. Samples were also obtained from two companies. The lumpfish were cut into five parts and the parts were weighed. Fillets were 14% of lumpfish weight, roe were 30%, liver 3%, spine 6%, viscera 6% and skin together with head and tail 40%. Fillets were rich in fat (8‐18 g/100g) but low in proteins (8‐9 g/100g). The skin was however low in fat. Roe were very rich in selenium but the heavy metals mercury, cadmium and lead were below the quantification limits.

Skoða skýrslu

Fréttir

Matís á Framadögum háskólanna 2012

Framadagar Háskólanna 2012 verða haldnir þann 1. febrúar í Sólinni í Háskólanum í Reykjavík á milli kl 11-16

Eins og áður má gera ráð fyrir mikilli þátttöku meðal nemenda þetta árið. Eru Framadagar því kjörin vettvangur fyrir fyrirtæki til að ná til framtíðar starfskrafta þjóðarinnar með því að kynna sig og sína starfsemi og ná þannig fram ákveðnu forskoti á samkeppnisaðila í kappinu um hæfasta starfsfólkið.

Að venju verður Matís með stóran bás og mun kynna starfsemi sína allan daginn. Framadagabækling 2012 má finna á heimasíðu Framadaga, www.aiesec.is/framadagar, en þar eru nokkrar skemmtilegar auglýsingar frá Matís.

Nánari upplýsingar má fá á www.aiesec.is/framadagar og hjá Jóni Hauki Arnarsyni, jon.h.arnarson@matis.is eða Steinari B. Aðalbjörnssyni, steinar.b.adalbjornsson@matis.is.

Um Framadaga

Framadagar er árlegur viðburður í háskólalífinu þar sem 35 helstu fyrirtæki landsins kynna starfsemi sína fyrir háskólanemendum. Á Framadögum verður hvert fyrirtæki með bás þar sem hægt er að fá upplýsingar um fyrirtækið og komast í kynni við starfsmenn þess. Fjöldi örfyrirlestra verða haldnir yfir daginn, kennarar úr HÍ og HR munu etja kappi í spurningakeppni og ýmislegt fleira skemmtilegt!

Markmið Framadaga er að háskólanemar geti kynnt sér fyrirtæki og aukið þar með líkur á sumarvinnu, framtíðarstarfi eða verkefnavinnu fyrir fyrirtæki. Sömuleiðis að fyrirtæki kynnist mögulegum starfsmönnum hvort sem er sumarstarfsmönnum eða framtíðarstarfsmönnum. Sannkallað stefnumót nemenda og fyrirtækja.

Strætó á vegum Framadaga Háskólanna mun ganga á milli HÍ og HR frá 10:45-16:15 og verður í boði fyrir alla og það er ekkert gjald á meðan á þessu stendur.

Fréttir

Matreiðslumaður / matráður

Matís óskar eftir að ráða matráð til starfa í mötuneyti  starfsmanna að Vínlandsleið 12 í Reykjavík.

Starfssvið

Starfið felst í að vinna samhliða matráði Matís við umsjón mötuneytis þar sem boðið er upp á morgunverð og hádegisverð sem er eldaður frá grunni.  Matís leggur mikla áherslu á framleiðslu fjölbreyttra, ferskra og hollra rétta fyrir starfsfólk og gesti en í höfuðstöðvum Matís í Reykjavík starfa u.þ.b. 100 manns.  Vinnutími er kl: 8:00 – 14:30.

Hæfniskröfur

  • Menntun á sviði matreiðslu og/eða mjög góð þekking á fjölbreyttri matargerð
  • Reynsla af matreiðslu í stóreldhúsi/mötuneytum
  • Snyrtimennska og stundvísi
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Lipurð í mannlegum samskiptum
  • Metnaður til að ná árangri í starfi
  • Nýjungagirni og vilji til að þróast í starfi

Frekari upplýsingar veitir Jón H. Arnarson, mannauðsstjóri  í síma 422-5000, netfang: jon.h.arnarson@matis.is 

Umsóknarfrestur er til og með 31. ágúst 2014.

Meðferð umsókna:
Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Öllum umsóknum um auglýst störf verður svarað þegar ráðið hefur verið í starfið. Almennum umsóknum er svarað innan 7 daga og eru þær geymdar í sex mánuði.  Umsækjendur eru beðnir um að endursenda almennar umsóknir að sex mánuðum liðnum ef viðkomandi óska eftir að vera áfram á skrá

Fréttir

Hrossakjötskafli Kjötbókarinnar opnaður

Um miðjan september sl. var vefritið Kjötbókin, www.kjotbokin.is, formlega opnað, þegar fyrsti kaflinn um lambakjöt var gerður aðgengilegur.

Kjötbókin byggir á Íslensku kjötbókinni frá 1994, þar sem hlutar kjötskrokkanna eru útlistaðir með lýsingum á viðkomandi kjöttegund; beinabyggingu og heiti vöðva. Nú er annar kafli tilbúinn en hann snýst um hrossakjöt. Vefritið er samstarfsverkefni Matís og búgreinasambandanna, grafísk hönnun var unnin af PORThönnun, um forritunina sá Einar Birgir Einarsson og myndir tók Odd Stefán Þórisson.

Verkefnisstjóri veflægrar Kjötbókar er Óli Þór Hilmarsson. Hann segir að markmið hennar sé að safna saman á einn stað upplýsingum um heiti vöðva og hvernig þeir eru skornir, og að þar verði tengingar við uppskriftavefi, nýtingartölur, útgefnar skýrslur, upptökur, bókakafla og greinar sem tengjast viðkomandi kjöttegund. Sem sagt, að þar verði á einum stað allt sem þú þarft að vita um kjöt og að verkefnið standi undir vinnuheiti sínu: „Upplýsingaveita um íslenskt kjöt“.

Óli Þór segir að á Íslandi séu ákveðnir fordómar fyrir hendi í garð hrossakjöts. „Það er klárt að það er alltaf einhver eftirspurn, a.m.k. eftir folaldakjöti, en framboðið er ekki mikið. Þær þjóðir sem við lítum upp til hvað matargerð varðar, eins og Ítalía, Spánn og Frakkland, eru mikið fyrir hrossakjöt og nýta það á margvíslegan máta. Ég held að það sé aðeins tímaspursmál hvenær við Íslendingar tökum hrossakjötið í sátt og förum að sjá alls kyns vörur úr hrossakjöti, m.a. spægipylsur. Samkvæmt nýrri könnun Matís, sem framkvæmd var síðastliðið sumar, kemur fram að neysla á hrossakjöti er óveruleg á Íslandi, eða um 10 skipti að jafnaði á ári meðal íslenskra karla og fimm skipti meðal kvenna. Hrossakjöt er ákaflega meyrt kjöt og nýting miðað við bein er góð. Einna helst er að fitan geti verið til trafala; bæði að stundum er full mikið af henni og svo á hún til að þrána ef hún verður of gömul. Hross eru einmagadýr eins og svín og þurfa því ekki tíma til meyrnunar eins og naut og lamb. Því ætti að vera auðvelt í nútíma kjötvinnslu að koma í veg fyrir þránun í hrossakjöti.“

Óli segir að íslenskt hrossakjöt sé fyllilega sambærilegt við hrossakjöt í Evrópu. „Það sögðu okkur kjötkaupendur á Ítalíu meðan á útflutningi þangað stóð. Fitusýrusamsetning íslenska hrossakjötsins er mun hollari en þess evrópska, en einna helst var að ítalskir hafi kvartað yfir smæð skrokka í samanburði við önnur hrossakyn.“

Hafin er vinna við kaflann um nautakjöt, en síðan tekur hvíta kjötið við. Áætlað er að taki um tvo mánuði að klára hvern kafla.

Nánari upplýsingar veita Óli Þór Hilmarsson og Gunnþórunn Einarsdóttir.

Frétt þessi er tekin úr Bændablaðinu frá 19. janúar sl. (http://bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=5315).

Fréttir

Berst kadmín í búfjárafurðir?

Kadmín hefur alltaf verið í náttúrunni en í mörgum löndum óttast menn að það berist í matvæli í auknum mæli sem mengun frá iðnaði og einnig vegna þess að margar tegundir tilbúins fosfatáburðar innihalda nokkurt kadmín

Skýringin er sú að fosfat til áburðarframleiðslu inniheldur mismikið kadmín frá náttúrunnar hendi. Á Norðurlöndunum hefur verið stefnt að því að draga sem mest úr losun kadmíns út í umhverfið. Notkun kadmíns í iðnaði hefur minnkað og sett hafa verið hámarksgildi fyrir kadmín í tilbúnum áburði. Nú fer fram umræða innan Evrópusambandsins um hámarksgildi fyrir kadmín í áburði. Skoðanir eru skiptar þar sem lönd Suður-Evrópu gera minni kröfur en Norðurlöndin.

Kadmín er einn af þeim þungmálmum sem mest eru eitraðir fyrir menn og dýr. Bilið milli þess magns af kadmíni sem er manninum skaðlaust og þess sem skaðar heilsu er ekki breitt. Langtímaáhrif of mikils kadmíns í fæðu geta verið nýrnaskemmdir. Á síðustu árum hefur komið í ljós að skemmdir geta komið fram vegna minna magns kadmíns en áður var talið (Alfvén o.fl. 1997).

Nánar um þetta efni hér.

Fréttir

Iðnaðarsalt og annað salt

Eins og flestum er kunnugt hefur átt sér stað mikil umræða um salt undanfarna daga. Sitt sýnist hverjum um „saltmálið“ svokallaða en allir eru sammála um mikilvægi hollrar, góðrar og skaðlausrar fæðu sem hluti af heilbrigðu líferni

Matís vill leggja lóð sín á vogarskálar góðrar og upplýstrar umræðu. Til að leggja áherslu á vægi öruggra upplýsinga og faglegra vinnubragða í umræðu um erfið mál sem þessi og í ljósi hlutverks Matís varðandi lýðheilsu Íslendinga skal það tekið fram að fyrirtækið er með tækjabúnað til þess að mæla salt fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Matís leggur mikinn metnað í matvælarannsóknir en þess má geta að Matís rekur stærstu matvælarannsóknarstofu landsins. Hjá Matís er faggildin mæliaðferða í fyrirrúmi og er fyrirtækið með metnaðarfullar áætlanir um enn frekari uppbyggingu faggildra mæliaðferða. Matís hefur lengi stefnt að enn frekari uppbyggingu tækjabúnaðar og eru í skoðun hjá fyrirtækinu ýmsar leiðir er snúa að fjármögnum mikilvægs tækjabúnaðar, Íslendingum öllum til hagsbóta.

Nánari upplýsingar  veitir Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri efnarannsókna og áhættumats hjá Matís

Skýrslur

Vinnsla grásleppu á Vestfjörðum / Lumpfish production at West‐ fjords

Útgefið:

15/01/2012

Höfundar:

Gunnar Þórðarson, Óskar Torfason

Styrkt af:

Vaxtarsamningur Vestfjarða

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Vinnsla grásleppu á Vestfjörðum / Lumpfish production at West‐ fjords

Frá árinu 2012 verður skylt að koma með allan grásleppuafla að landi samkvæmt nýrri reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins, nr. 1083/2010.   Verkefninu „Grásleppa, verðmæti úr vannýttu hráefni“ er ætlað að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum með því að þróa vinnslu á afurðum úr grásleppu til útflutnings. Finna þarf heppilegustu aðferðir fyrir meðhöndlun hráefnisins um borð í bátum, í landvinnslu, við flutning og geymslu.   Tekjur aukast í sjávarbyggðum og því meira eftir því sem meira tekst að selja af aukafurðum grásleppunnar. Mikilvægt er að vöruþróun eigi sér stað til að hámarka tekjurnar. Nýting aukaafurða grásleppu stuðlar að aukinni atvinnu í sjávarbyggðum Vestfjarða. Atvinnan tengist meðhöndlun afla, slægingu, hreinsun, pökkun, frystingu og flutningum. 

From the year 2012 it will be required to bring the whole lumpfish catch to shore, under a new regulation from the Minister of Fisheries and Agriculture, No. 1083/2010. The project “Lumpfish, the value of underutilized species” is intended to support economic activity in the West‐fjords by developing processing methods for lumpfish export. The aim is also to find the most suitable methods for handling the raw material on board the fishing vessels, at processing side, and through storage and transport.   Income will increase at coastal areas by more product landed and more extra production and export. Further product development is important to maximize revenue. Utilization of lumpfish by‐products contributes to increased employment in West‐fjords costal arias. Jobs related to handling of catch, gutting, cleaning, packing, freezing and transportation.

Skoða skýrslu

Fréttir

Hver eru umhverfisáhrif fiskafurða?

Rekjanleiki og umhverfisáhrif fiskafurða eru burðarásin í verkefninu WhiteFish en Matís vinnur að því ásamt aðilum í Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Hollandi.

Verkefnið gengur út á að þróa aðferðir til að meta hvaða umhverfisáhrif fiskafurðir hafa, allt frá veiðum til neytanda. Við mat á umhverfisáhrifum er byggt á LCA vistferilsgreiningu sem þýðir að greiningin nær til allrar virðiskeðjunnar. Er því tekið tillit til þátta eins og ástands fiskistofnanna, áhrifa veiðiaðferða, orkunotkun við vinnslu og flutning, sóun í ferlinu, eyðingu eða endurvinnslu umbúða o.s.frv.

„Miðað við þá reynslu sem fengist hefur varðandi umhverfismerkingar sjávarafurða þá eru upplýsingar sem þessar mikilvægastar fyrir heild- og smásöluaðila vörunnar. Fæstir neytendur leggja á sig að sökkva sér ofan í þessa þætti en þeir treysta því aftur á móti að sá sem selur þeim sjávarafurðir sé að bjóða vöru sem hafi ásættanleg umhverfisáhrif. Stórar verslunarkeðjur hafa sín eigin viðmið hvað þetta varðar og með WhiteFish-verkefninu erum við að stíga skrefið enn lengra en gert er með „hefðbundnum“ umhverfismerkingum og reikna umhverfisáhrifin út fyrir alla virðiskeðju afurðanna“ segir Jónas Rúnar Viðarsson, fagstjóri hjá Matís.

„Á síðustu misserum hefur villtur fiskur úr N-Atlantshafi mætt aukinni samkeppni á mörkuðum frá ódýrum ræktuðum fiski frá Asíu og Afríku s.s. pangasius og tilapia. Með WhiteFish-verkefninu vonumst við til að geta sýnt fram á að okkar fiskur hafi minni umhverfisáhrif en þessi samkeppnisvara, þegar allt er talið til.“

Við þróunarvinnuna í verkefninu er unnið með fersk fiskflök frá Íslandi og einnig er sami ferill skoðaður hvað varðar ferskan heilan fisk frá Íslandi sem fluttur er í gámum til Grimsby í Bretlandi og unninn í vinnslum þar. Þriðja rannsóknarefnið er sjófrystur fiskur frá Noregi og loks í fjórða lagi fiskréttir framleiddir í Svíþjóð.

„Út frá þessu verkefni má síðan segja að hafi þróast hliðarverkefni, stutt af Nordic InnovationCentre, þar sem við erum að skoða hvaða upplýsingar afurðamarkaðurinn, þ.e. smásalar og neytendur, kallar eftir. Bæði hvað varðar innihald upplýsinganna og form þeirra. Þetta eru spurningar á borð við þær hvort neytendur vilja fá með vörunni upplýsingar um veiðiaðferð og ástand veiðistofns, hversu nákvæmar innihaldslýsingar þurfa þá að vera, hvort betra sé að þróa kóðakerfi þannig að neytendur geti farið sjálfir í tölvu og rakið feril vöru og svo framvegis. Þróun á framsetningu þessara upplýsinga gagnvart neytendum getur skapað norrænum fiskafurðum ákveðna sérstöðu og á þann hátt eru þessar rannsóknir eftirsóknarverðar,“ segir Jónas Rúnar.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson.

IS