Fréttir

Hver eru umhverfisáhrif fiskafurða?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Rekjanleiki og umhverfisáhrif fiskafurða eru burðarásin í verkefninu WhiteFish en Matís vinnur að því ásamt aðilum í Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Hollandi.

Verkefnið gengur út á að þróa aðferðir til að meta hvaða umhverfisáhrif fiskafurðir hafa, allt frá veiðum til neytanda. Við mat á umhverfisáhrifum er byggt á LCA vistferilsgreiningu sem þýðir að greiningin nær til allrar virðiskeðjunnar. Er því tekið tillit til þátta eins og ástands fiskistofnanna, áhrifa veiðiaðferða, orkunotkun við vinnslu og flutning, sóun í ferlinu, eyðingu eða endurvinnslu umbúða o.s.frv.

„Miðað við þá reynslu sem fengist hefur varðandi umhverfismerkingar sjávarafurða þá eru upplýsingar sem þessar mikilvægastar fyrir heild- og smásöluaðila vörunnar. Fæstir neytendur leggja á sig að sökkva sér ofan í þessa þætti en þeir treysta því aftur á móti að sá sem selur þeim sjávarafurðir sé að bjóða vöru sem hafi ásættanleg umhverfisáhrif. Stórar verslunarkeðjur hafa sín eigin viðmið hvað þetta varðar og með WhiteFish-verkefninu erum við að stíga skrefið enn lengra en gert er með „hefðbundnum“ umhverfismerkingum og reikna umhverfisáhrifin út fyrir alla virðiskeðju afurðanna“ segir Jónas Rúnar Viðarsson, fagstjóri hjá Matís.

„Á síðustu misserum hefur villtur fiskur úr N-Atlantshafi mætt aukinni samkeppni á mörkuðum frá ódýrum ræktuðum fiski frá Asíu og Afríku s.s. pangasius og tilapia. Með WhiteFish-verkefninu vonumst við til að geta sýnt fram á að okkar fiskur hafi minni umhverfisáhrif en þessi samkeppnisvara, þegar allt er talið til.“

Við þróunarvinnuna í verkefninu er unnið með fersk fiskflök frá Íslandi og einnig er sami ferill skoðaður hvað varðar ferskan heilan fisk frá Íslandi sem fluttur er í gámum til Grimsby í Bretlandi og unninn í vinnslum þar. Þriðja rannsóknarefnið er sjófrystur fiskur frá Noregi og loks í fjórða lagi fiskréttir framleiddir í Svíþjóð.

„Út frá þessu verkefni má síðan segja að hafi þróast hliðarverkefni, stutt af Nordic InnovationCentre, þar sem við erum að skoða hvaða upplýsingar afurðamarkaðurinn, þ.e. smásalar og neytendur, kallar eftir. Bæði hvað varðar innihald upplýsinganna og form þeirra. Þetta eru spurningar á borð við þær hvort neytendur vilja fá með vörunni upplýsingar um veiðiaðferð og ástand veiðistofns, hversu nákvæmar innihaldslýsingar þurfa þá að vera, hvort betra sé að þróa kóðakerfi þannig að neytendur geti farið sjálfir í tölvu og rakið feril vöru og svo framvegis. Þróun á framsetningu þessara upplýsinga gagnvart neytendum getur skapað norrænum fiskafurðum ákveðna sérstöðu og á þann hátt eru þessar rannsóknir eftirsóknarverðar,“ segir Jónas Rúnar.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson.