Fréttir

Norrænt samstarf um fiskimjöl og lýsi

Í ljósi sívaxandi próteinþarfar á heimsvísu hefur orðið til mikil þörf á aukinni þekkingu á gæðaeiginleikum fiskimjöls og lýsi fyrir dýrafóður til að hægt að sé auka verðmæti þessara afurða. Um miðjan nóvember síðastliðinn var því haldin vinnustofa í tengslum við norræna framleiðslu á fiskmjöli og lýsi í Kaupmannahöfn.

Þátttakendur vinnustofunnar voru 75 talsins og komu víðs vegar að úr Evrópu. Hópurinn samanstóð af vísindafólki, framleiðendum, söluaðilum og viðskiptavinum sem tóku þátt í fimm vinnulotum þar sem ákveðnir þættir framleiðslunnar voru skoðaðir sérstaklega.

Norðurlöndin tóku nýverið höndum saman og settu á laggirnar svokallað norrænt gæðaráð fyrir fiskimjöl og olíu, e. Nordic Centre of Excellence in Fishmeal and –oil sem hefur það að marki að styrkja norrænt samstarf og auka þekkingu á gæðaeiginleikum fiskimjöls og lýsis. Ætlunin er að koma norrænni framleiðslu á fiskimjöli og lýsi í fremstu röð og tryggja þannig framboð af öruggu og gæða fiskimjöli og lýsi til fóður- og fæðugerðar.

Nordic Centre of Excellence Network sá um skipulagningu og EUfishmeal sá um að hýsa viðburðinn og tók Matís virkan þátt í viðburðinum. 

Fréttir

Eru vinnsla og útflutningur á lifandi beitukóngi raunhæfur kostur?

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Veiðar á beitukóngi hafa verið stundaðar hér á landi um langt skeið og verið nýttur bæði í beitu og til manneldis. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar frá 1772 er greint frá því að beitukóngur hafi þótt mikill herramansmatur meðal íbúa í Breiðafirði. Það var hins vegar ekki fyrr en 1996 sem beitukóngsveiðar og vinnsla til útflutnings hófst fyrir alvöru hér á landi, en fyrirtækið Sægarpur á Grundarfirði ruddi þar veginn. Frá þeim tíma hefur veiðin hér við land verið nokkuð misjöfn milli ára, en þar hafa markaðsaðstæður haft mest áhrif. Veiðarnar hafa nær eingöngu verið stundaðar í Breiðafirði og það eru aðallega tvö fyrirtæki sem hafa stundað veiðar og vinnslu af krafti þ.e. Sægarpur á Grundarfirði og Royal Iceland í Reykjanesbæ. Rekstur Sægarps fór í þrot árið 2013 og síðan hefur Royal Iceland verið eitt um að sinna þessum veiðum.

Heimsafli beitukóngs hefur verið um 30-35 þúsund tonn á ári, þar sem Bretland og Frakkland eru stærstu veðiþjóðirnar. Ágætir markaðir eru fyrir beitukóng víða í mið- og suður Evrópu, sem og víðsvegar í Asíu. Íslenska framleiðslan hefur þó að lang mestu farið á markaði í Asíu s.s. Kína, Kóreu og Japan.

Þekkt er að á ákveðnum markaðssvæðum er töluverð eftirspurn eftir lifandi beitukóngi og í sumum tilvikum er greitt hærra verð fyrir slíka vöru. Aðstandendur Sægarps á Grundarfirði ákváðu því að kanna hvort veiðar, vinnsla og útflutningur á lifandi beitukóngi væri raunhæfur kostur. Þeir fengu því Matís með sér í lið og með dyggum stuðningi frá AVS sjóðnum var farið í umfangsmiklar rannsóknir og tilraunastarfsemi.

Framkvæmdar voru tilraunir með mismunandi aflameðferð um borð í veiðiskipi og geymslu eða flutning, sem gaf vísbendingar um að með réttri meðhöndlun og frágangi væri hægt að halda beitukóngi á lífi í u.þ.b. viku. stefnt hafði þó verið að því að tryggja a.m.k. 10 daga lifun til að það teldist raunhæft að ætla sér að flytja út lifandi beitukóng. Niðurstöður tilraunanna sýndu hins vegar að þegar meira en vika var liðin frá veiði dró hratt úr lifun og kjötið var orðið óhæft til neyslu á tíunda degi. Mögulega væri hægt að þróa þessa ferla betur til að tryggja betri lifun, en miðað við þessar niðurstöður er geymsluþolið ekki nægjanlega langt til að þetta geti talist álitlegur kostur að sinni.

Einnig voru gerðar tilraunir til að halda beitukóngi lifandi í hringrásarkerfi í fiskikeri. Markmiðið með þeim tilraunum var að kanna hvort hægt væri að geyma lifandi beitukóng á „lager“ fyrir vinnslu í landi. Útbúið var hringrásarkerfi með síubúnaði sem dugði til að hald lífi í beitukóngi í viku. Ekki er ólíklegt að hægt sé að lengja þann tíma með öflugri síubúnaði en notaður var í þessum tilraunum. Þessar niðurstöður verða að teljast jákvæðar og til þess fallnar að þær gætu verið teknar upp hjá fyrirtækjum sem standa að vinnslu á beitukóngi.
Markaðir fyrir lifandi beitukóng voru einnig skoðaðir, en segja má að sú könnun hafi endanlega fært heim sanninn um að útflutningur á lifandi beitukóngi væri ekki raunhæfur kostur. Það sé einfaldlega betri kostur að vinna beitukónginn hér heima. Breytist markaðsaðstæður hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að hægt sé að bæta ferla svo að slíkur útflutningur verði mögulegur.

Lokaskýrsla þessa verkefnis er nú aðgengileg hér.

Fréttir

Nýbylgju bragð – um nýjar leiðir til þróunar og vinnslu á bragðefnum úr þörungum

Tengiliður

Rósa Jónsdóttir

Fagstjóri

rosa.jonsdottir@matis.is

Nú nýlega fór af stað virkilega áhugavert verkefni hjá Matís í samstarfi við Háskóla Íslands, verkefni sem hefur fengið nafnið Nýbylgju bragð. Markmið verkefnisins er að þróa verðmæt heilsusamleg bragðefni úr stórþörungum sem geta komið í stað salts og nýtt sem bragðbætandi einingar þ.e. efni/efnasambönd eða náttúrulegar blöndur þess. Einstakir eiginleikar bragðefnanna verða nýttir til að þróa saltminni og bragðmeiri matvæli.

Væntingar eru um að bragðefnin verði nýtt til að minnka notkun á salti í mat og einnig sem bragðbætandi innihaldsefni fyrir matvæli. Þrívíddar (3D) matvælaprentari verður notaður til að þróa nýjar heilsusamlegar vörur með lágt saltinnihald, flott útlit og gott bragð.

Verkefnið er hluti af meistaraverkefni í Matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands.

Þess má geta að verkefnið byggir á fyrri verkefnum sem unnin hafa verið hjá Matís; innlendum, norrænum og evrópskum verkefnum.

Verkefnið er styrkt af AVS.

Skýrslur

Veiðar, vinnsla og útflutningur á lifandi beitukóngi

Útgefið:

06/12/2018

Höfundar:

Jónas R. Viðarsson, Ásbjörn Jónsson

Styrkt af:

AVS-Rannsóknasjóður í sjávarútvegi (V 11005-11)

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Veiðar, vinnsla og útflutningur á lifandi beitukóngi

Í þessari skýrslu er stiklað á stóru á framkvæmd og helstu niðurstöðum rannsóknarverkefnis sem fram fór á árunum 2012-2013. Ástæða þess að dregist hefur að gefa út lokaskýrslu verkefnisins er sú að árið 2013 varð eigandi verkefnisins, Sægarpur ehf. gjaldþrota. Verkefnið var því ekki fullklárað og hefur legið að mestu í dvala síðan 2013. En þar sem stærstum hluta verkefnisins hafði verið lokið áður en Sægarpur fór í þrot, þykir höfundum rétt og skylt að greina hér opinverlega frá hvað fram fór í verkefninu og hverjar helstu niðurstöður þess voru. Markmið verkefnisins var að þróa veiðar, vinnslu, geymslu og flutning á lifandi beitukóngi, auk þess að kanna markaði fyrir slíkar afurðir. Framkvæmdar voru tilraunir með mismunandi aflameðferð um borð í veiðiskipi og geymslu eða flutning, sem gaf vísbendingar um að með réttri meðhöndlun og frágangi væri hægt að halda beitukóngi á lífi í u.þ.b. viku. stefnt hafði verið að því að tryggja a.m.k. 10 daga lifun til að það teldist raunhæft að ætla sér að flytja út lifandi beitukóng. Niðurstöður tilraunanna sýndu hins vegar að þegar meira en vika var liðin frá veiði dró hratt úr lifun og kjötið var orðið óhæft til neyslu á tíunda degi. Mögulega væri hægt að þróa þessa ferla betur til að tryggja betri lifun, en miðað við þessar niðurstöður er geymsluþolið ekki nægjanlega langt til að þetta geti talist álitlegur kostur að sinni. Einnig voru gerðar tilraunir til að halda beitukóngi lifandi í hringrásarkerfi í fiskikeri. Markmiðið með þeim tilraunum var að kanna hvort hægt væri að geyma lifandi beitukóng á „lager“ fyrir vinnslu í landi. Útbúið var hringrásarkerfi með síubúnaði sem dugði til að hald lífi í beitukóngi í viku. Höfundar telja að mögulega væri hægt að lengja tímann með öflugri síubúnaði. Þessar niðurstöður verða að teljast jákvæðar og til þess fallnar að þær gætu verið teknar upp hjá fyrirtækjum sem standa að vinnslu á beitukóngi. Markaðir fyrir lifandi beitukóng voru einnig skoðaðir, en segja má að sú könnun hafi endanlega fært heim sanninn um að útflutningur á lifandi beitukóngi væri ekki raunhæfur kostur. Það sé einfaldlega betri kostur að vinna beitukónginn hér heima. Breytist markaðsaðstæður hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að hægt sé að bæta ferla svo að slíkur útflutningur verði mögulegur.

This report contains an overview of the progress and main results in a research project that ran in 2012-2013. The reason for the delay in publication of this final report is that the project owner was declared bankrupt in 2013 and the project has been dormant since then. The authors of the report did however feel obligated to make public the progress and main results that were achieved before the owner went out of business. The aim of the project was to develop best practice for catching, handling, packaging, storage and transport of live whelk; as well as studying the markets for live whelk. Experiments were made with different onboard handling, storage and transport of live whelk. These experiments indicated that it should be possible to keep the whelk alive for one week after capture, with correct handling. The goal had however been to ensure that the whelk could be kept alive for at least ten days. Experiments were also made where it was attempted to keep whelk alive in a regular plastic fish-tub equipped with a circulation system. The objective with this was to examine if whelk could be stored, in a relatively simple and inexpensive manner, in-stock for land-based processing. The results indicate that such a system could be used to keep a living inventory of whelk for the processing. The authors of this report are confident that the timeframe could be extended by fitting the system with more efficient filtration equipment. The markets for live whelk were briefly analysed and the results of that analyses indicate that export of live whelk from Iceland is not economically feasible or practical. There is simply too little premium paid for live whelk at the moment.

Skoða skýrslu

Fréttir

Fréttatilkynning stjórnar Matís

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, hefur látið af störfum eftir 8 ára starf. Matís er öflugt félag með sterkan mannauð. Stjórn Matís þakkar Sveini fyrir hans framlag til félagsins. Undir hans stjórn og með aðkomu öflugs starfsfólks, hugviti þeirra og þekkingu, hefur Matís vaxið.

Oddur Már Gunnarsson er starfandi forstjóri frá og með deginum í dag. Frekari upplýsingar veitir Sjöfn Sigurgísladóttir, stjórnarformaður Matís.

Fréttir

Eru smáþörungar og stórþörungar framtíðin?

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Miðvikudaginn 12. desember 2018 verður Dr. Ira Levine, forseti Algae Foundation og prófessor við University of Southern Maine með kynningu á þörungum og þörungaræktun.

Eitt af markmiðum heimsóknar Dr. Ira Levine til Íslands er að koma á tengslum milli aðila í þörungarræktun í Maine og Íslandi. Algae Foundation býður upp á frítt kennsluefni sem hann mun kynna sem og miðla af reynslu sinni. Haldnir verða tveir fyrirlestrar, annar með áherslu á stórþörunga og hinn á smáþörunga.

Nánari upplýsinar um viðburðinn má finna hér.

Fréttir

Plastmengun er raunveruleg ógn við lífríki jarðarinnar

Nú rétt í þessu lauk mögnuðum þætti í fréttaskýringaþættinum Kveik sem sýndur er á RÚV á þriðjudagskvöldum. Að þessu sinni var fjallað um plast, bæði örplast og plast sem til að mynda fuglar og önnur dýr hafa étið.

Augu ráðamanna víðs vegar um heiminn hafa verið að opnast hvað varðar ógnina sem okkur stafar af plasti. Til að mynda stefnir Evrópusambandið á stórátak í þessum málum og ljóst þykir að næstu rannsóknaáætlanir, þá sérstaklega sú sem hefst 2021, muni taka mið af þessum áherslum.

Það fór sjálfsagt ekki framhjá neinum hversu mikið áfall það var fyrir Sigríði Halldórsdóttur hjá RÚV að sjá niðurstöður rannsókna Matís á vatni frá þvottavélum, vatni sem fer beinustu leiði niður í niðurföllin hjá okkur og út í sjó. Matís hefur verið öflugur þátttakandi í rannsóknum og umfjöllun um þessi mál undanfarin ár og hefur fyrirtækið, ásamt samstarfsaðilum, beitt sér fyrir því að málefni plastmengunar, þá sérstaklega örplasts, fái aukið vægi.

Matís hefur byggt upp öfluga innviði og þekkingu til rannsókna á plasti í umhverfinu, tekið þátt í rannsóknaverkefnum á plasti, er þátttakandi í samráðsvettvangi stjórnvalda um aðgerðaráætlun í plastmálefnum og mun leiða verkefni innan formenskuáætlunar Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019-2021 en það verkefni mun fjalla um að byggja upp grunn til að stunda rannsóknir og vöktun á plasti, svo fátt eitt sé nefnt.

Plastmengun er raunveruleg ógn við lífríki sjávar. Við Íslendingar eigum mikið undir lífríki sjávar enda hefur sjávarútvegur verið okkar helsta atvinnugrein undanfarna áratugi. Það er því mikilvægt að þekking sem til staðar er sé nýtt til hins ýtrasta til að vinna gegn þeirri miklu vá sem plastmengun í sjó er. Ætlum við okkur að nýta auðlindir hafsins með þeim hætti sem verið hefur og jafnvel betur? Til þess að það sé hægt þarf að stunda rannsóknir á öllum þáttum virðiskeðju sjávarafurða, frá lífríki hafsins til veiða og vinnslu og á borð neytenda og svo það sem fellur til frá fiskvinnslum.

Hér byggir Matís á góðum grunni enda hefur fyrirtækið og forveri þess (Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins) unnið þrekvirki ásamt samstarfsaðilum í greininni, í því að auka virði sjávarfangs með sjálfbærum hætti.

Oft var þörf en nú er nauðsyn að taka höndum saman og beita vísindunum til þess að koma í veg fyrir að lífríki sjávarins í kringum Ísland beri varanlegan skaða af. Við þurfum að rannsaka stöðuna, meta hættuna sem til staðar er og sjá jákvæðu tækifærin sem til staðar eru ef við stígum öflugt skref fram á við.

Áfram gakk!

Fréttir

Aukin þekking á loðnu og dreifingu hennar

Tengiliður

Guðbjörg Ólafsdóttir

Sérfræðingur

gudbjorg.olafsdottir@matis.is

Nýtt verkefni er nú rétt nýhafið hjá Hafrannsóknastofnun og Matís. Verkefnið nefnist eCAP og snýr að því að rekja loðnu með umhverfis erfðagreininum (eDNA).

eCAP miðar að því að nota DNA sem finnst í umhverfinu (hafinu) til að finna og rekja loðnu til að auka þekkingu á breyttri dreifingu hennar og til að bæta stofnstærðarmat og fiskveiðar á íslenskum hafsvæðum. Það mun gagnast íslenskum sjávarútvegi, veita nýjar og betri aðferðir við mat á stofnstærð og hjálpa til við að meta heildar leyfilegan afla. Einnig mun eCAP leiða til minni kolefnislosunar hjá íslenska flotanum þar sem reikna má með því að sigla þurfi minna í leit að loðnunni, ef markmið verkefnisins nást.  

Hafrannsóknastofnun, Rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, stýrir verkefninu.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði.

Fréttir

Þróun blæðingar- og kælibúnaðar

Tengiliður

Sæmundur Elíasson

Verkefnastjóri

saemundur.eliasson@matis.is

Nýtt verkefni er við það að hefjast hjá Matís og samstarfsaðilum. Verkefnið er einkar hagnýtt og snýr að endurhönnun og umbótum á blæðingar- og kælibúnaðinum Dreka sem framleiddur hefur verið af Micro Ryðfrí Smíði ehf. frá árinu 2012 en búnaðurinn hefur verið notaður um borð í skipum með góðum árangri.

Markmið verkefnisins snýr að því að auka hráefnagæði og einsleitni á afurðum með búnaði sem tryggir jafnframt einfaldan rekstur um borð og tekur lítið pláss í samanburði við aðrar sambærilegar lausnir. Til að ná þessum markmiðum er verkefninu ætlað að skila eftirfarandi þremur afurðum:

Endurhönnun á blæðingar- og eða kælibúnaðinum Dreka með sjálfvirkni í huga.

Hönnun á lóðréttum Dreka sem hægt er að koma fyrir milli dekkja og spara þannig verðmætt rými um borð og einnig skapast tækifæri til að bæta blóðtæmingu með auknum vökvaþrýsting í blæðingarferlinu.

Hönnun á nýrri lausn sem sameinar blæðingu og kælingu í eina samþættu. Þessar lausnir verða síðan prófaðar og niðurstöður þeirra munu nýtast við gerð markaðsefnis.

Samstarfsaðilar Matís í þessu verkefni eru Micro Ryðfrí Smíði ehf. og Skinney Þinganes.

Verkefnastjórn: Micro

Styrkur: Tækniþróunarsjóður

Mynd/picture: Magnús Óskarsson fyrir Matís

Fréttir

Roðskurður íslenskra makrílflaka

Tengiliður

Hildur Inga Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

hilduringa@matis.is

Ástand makríls sem veiddur er innan íslenskrar lögsögu veldur því að erfitt er að vinna hann. Rannsóknir á möguleikum tengdum flökun og geymslu á makríls sýna að dökkur vöðvi undir roði er viðkvæmur fyrir þráa. Markmið verkefnis sem nú er í gangi innan Matís er að meta möguleika á roðskurði makrílflaka og hvaða áhrif vinnslan hefur á gæði þeirra og stöðugleika. Það að fjarlægja roð og dökkan vöðva gæti skilað mun verðmætari flakaafurðum auk þess að skapa vettvang til þess að nýta hliðarhráefnið í verðmætar afurðir til manneldis.

Fortilraunir hafa sýnt að hægt er að fjarlægja roð og dökkan vöðva án þess að flakið fari illa, en mikla vinnu þarf að leggja í að aðlaga búnað, gera rannsóknir á stöðugleika roðlausra flaka ásamt því að leita leiða til að nýta það hliðarhráefni sem fellur frá við þá vinnslu. Að vinna makríl sem veiddur er innan íslenskrar lögsögu í hágæða roðlaus makrílflök og hliðarhráefni í aðrar virðisaukandi vörur getur skapað mikla verðmætaaukningu fyrir alla sem að koma, íslenskan sjávarútveg, þjóðina og umhverfið.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands, Síldarvinnslan og Ísfélag Vestmannaeyja.

IS