Fréttir

Húsfyllir að Hvanneyri – fyrsta skrefið í að þrefalda verðmætasköpun og arðsemi íslensks landbúnaðar

Mjög góð mæting var á fund á Hvanneyri um aukið virði landbúnaðarafurða sem Samtök ungra bænda, Landbúnaðarháskóli Íslands og Matís buðu til í gærkvöldi. Þar stigu á stokk forsvarsmenn fundarboðenda og fulltrúar frá öllum helstu framboðum til alþingiskosninganna um næstu helgi. Á næstu dögum munum við fjalla um fundinn og draga fram það helsta sem þar fór fram.

Margt áhugavert kom fram í erindi frambjóðenda og sitt sýndist hverjum um hvernig hægt er að auka virði landbúnaðarafurða en öll framboðin voru þó sammála um að nýsköpun, rannsóknir og þróun eru grunnatriðin sem þurfa að vera til staðar til að aukin verðmætasköpun geti átt sér stað í landbúnaði. Slíkt er athyglivert í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpi næsta árs og ríkisfjármálaáætlun næstu fimm ára er lagt til af núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fjármagn til Matís verði skorið niður um 12% eða um 51 milljón. Slíkt er algerlega á skjön við stefnu allra flokka um eflingu nýsköpunar á Íslandi.

Ásmundur Einar Daðason frá Framsóknarflokki sagðist hafa fylgst með uppbyggingu Matarsmiðja Matís allt í kringum landið í gegnum tíðina. Hann sagði að á meðan niðurskurðaráform liggi fyrir þá væri Matís væntanlega að takast á við þau áform og undirbúa sig. Á sama tíma gæti félagið ekki sótt fram með eðlilegum hætti og unnið áfram að þeim flottu verkefnum sem í gangi væru allt í kringum landið. Niðurskurðurinn væri því í mikilli mótsögn við efni fundarins, aukið virði landbúnaðarafurða.

Fréttir

Getum við notað íslenskar olíur í viðarvörn?

Vitað er að fiskolíur hafa verið notaðar sem viðarvörn fyrr á öldum og reynst vel. Þekkingin hefur hins vegar mikið til glatast. Með aukinni áherslu á afturhvarf til eldri tíma og hráefna og betri þekkingu, skapast lag til að nýta fiskolíur, sem núna falla í úrgangsflokk, til verulega aukinna verðmæta en leysa þarf framleiðslu- og vöruþróunarvandamál áður en lengra er haldið. 

Nýtt verkefni er u.þ.b. að hefjast hjá Matís í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Magla ehf. með fjárstyrk frá AVS sjóðnum. Markmið verkefnisins er að þróa afurð úr fiskolíum til notkunar sem hluta af viðarvörn en ákvarða þarf framleiðsluferla til að breyta óhreinu hrálýsi og þá hvaða lýsi í verðmæta viðarolíu. Heildarstyrkur verkefnisins er sjö milljónir. 

Verkefnastjóri er Ásbjörn Jónsson auk hans eru Heiða Pálmadóttir og starfsfólk efnastofu Matís þátttakendur í verkefninu. Verkefnið hefst í nóvember 2017 og líkur í nóvember 2018.

Fréttir

Skýrsla starfshóps um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna

Þann 23. maí 2016 var skipaður starfshópur um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna, með það að markmiði að búa til ein heildarlög um heilbrigði dýra, sem hefði þann tilgang að bæta almennt heilbrigði búfjár og gæludýra hvað alla sjúkdóma varðar. Starfshópurinn afhenti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu skýrslu sína 17. október 2017.

Helstu áherslur í tillögum starfshópsins eru meðal annars að tryggja skilvirkni í tilkynningum og viðbrögðum við sjúkdómum, vanhöldum og slysum á dýrum, og að rekin sé öflug stofnun sem sinni rannsóknum, ráðgjöf og áhættumati vegna dýrasjúkdóma. Þá er lagt til að stofnað verði sérstakt ráð sem fari með leyfisveitingar, réttindamál og endurmenntun dýralækna og heilbrigðisstarfsmenn dýra, og fjalli um kærur, álitamál o.fl.  

Lagt er til að starfsemin á Keldum verði efld og að hún færist undir yfirstjórn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og verði annað hvort sjálfstæð stofnun eða verði sameinuð öðrum stofnunum, að hluta eða öllu leyti (bls. 74). 

Skýrslan kemur til með að nýtast vel við vinnslu frumvarpa en vinna við þau mun hefjast fljótlega. Skýrslan er lögð fram til kynningar og er öllum frjálst að koma með athugasemdir eða ábendingar við efni hennar.  

Fréttin birtist fyrst á vef Stjórnarráðsins.

Fréttir

Um þróun í sjávarútvegi

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 14. október sl. þakkar Arnljótur Bjarki Bergsson Sigurjóni Þórðarsyni fyrir grein í Morgunblaðinu 7. október. Tilefni greinarskrifa Sigurjóns er frétt á vef Matís frá 29. september að lokinni velheppnuðum viðburði World Seafood Congress. Í frétt Matís er hvorki talað um met né eru lýsingarorð í efstastigi notuð. Í fréttinni á vef Matís er bent á að útflutningsverðmæti á hvert kg afla þorsks hafi aukist um ríflega 350% frá árinu 1981. Sigurjón bendir réttilega á að verð þorskflaka á Bretlandsmarkaði hafi hækkað meira á sama tíma. Hér að neðan er ítarlegra svar Arnljóts Bjarka við grein Sigurjóns.

Í fréttinni á vef Matís er jafnframt þróun verðmætasköpunar í sjávarútvegi frá árinu 2003-2016 rakin. Árið 2003 var tekin stefnumarkandi ákvörðun um að auka verðmæti sjávarfangs (AVS) með rannsóknum og þróun; leggja meiri áherslu á verðmæti afurða en magn hráefna. Í því samhengi skiptir skynsamlegt umhverfi auðlindastýringar vissulega máli. Á hinn bóginn er það okkar skoðun að áhersla á vinnslu og virðiskeðjuna skili samfélaginu mun meiri árangri. Því var í fréttinni á vef Matís ekki fjallað um kvótakerfi.

Fjármögnun verkefna er fyrst og fremst í gegnum samkeppnissjóði, slík fjármögnun er flokkuð sem sértekjur og er hlutfall sértekna Matís hátt m.t.t. áþekkra eininga hér heima. Fjármögnun starfsemi Matís er Sigurjóni hugleikin og er það vel. Óskandi væri að fleiri alþingismenn, núverandi, fyrrverandi og verðandi, sýndu viðlíka áhuga. Fjárveiting ríkisins í gegnum þjónustusamning við Matís, á grunni fjárheimilda til Matvælarannsókna var á árinu 2016 435 milljónir kr. Að sköttum og opinberum gjöldum greiddum, stóðu eftir 80 milljónir. Sértekjur Matís árið 2016 námu 1180 milljónum. Þar af var 481 milljón aflað úr alþjóðlegum samkeppnissjóðum og 252 milljónum úr innlendum samkeppnissjóðum. Vart þarf að geta þess að árangur Matís í sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði, s.s. Horizon 2020 áætlunina, þykir eftirtektarverður. Meðal samstarfsaðila okkar í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum eru Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna. Ráðstefnan og hliðarviðburðir hennar voru fjármögnuð í víðtæku samstarfi eins og sjá má á heimasíðu WSC2017

Fjárfesting í nýsköpun er forsenda framfara í matvælaiðnaði. Því miður er fjárfesting í nýsköpun í evrópskum matvælaiðnaði eingöngu helmingur þess sem er í bandarískum matvælaiðnaði og þriðjungur, sé miðað við Japan. Mikið þarf til að halda í horfinu, hvað þá að vera leiðandi í síbreytilegum heimi. Rétt er að sjávarútvegur, fiskvinnsla sérstaklega, stendur öðrum matvælaiðnaði að baki á heimsvísu, þó eftir athöfnum íslensks sjávarútvegs sé tekið víða um heim eins og umræður á nýliðinni ráðstefnu báru með sér. Í því ljósi má nefna ásókn Norðmanna og Færeyinga í íslenska þekkingu og tækni á sviði sjávarútvegs.

Nýsköpun í sjávarútvegi felst m.a. í bættri meðhöndlun afla, nýjum kæliaðferðum, sjálfvirkni, nýjungum í vöruframboði og nýjum leiðum til markaðssetningar. Allt eru þetta dæmi um aðferðir sem hafa haft áhrif á verðmæti íslenskra þorskflaka á breska markaðnum frá 1981. Það ár var verulegur hluti þorsks fluttur út heill, án nokkurrar vinnslu. Ástand hráefnis var oft ábótavant. Það sem unnið var á Íslandi var flutt út blokkfryst að verulegu leyti. Í dag er verulegur hluti þorskafurða sem fluttur er til Bretlands, við stýrðar aðstæður, ferskir flakabitar sem hlotið hafa góða meðhöndlun í gegnum virðiskeðjuna. Þetta er ein af lykilástæðum þess að verð á breskum neytendamarkaði hafa hækkað svo sem raun ber vitni. 

Íslendingar hafa verið fyrirferðamiklir með sitt sjávarfang um langt skeið því hefur þróun í íslenskum sjávarútvegi við veiðar sem og vinnslu haft áhrif á vöruframboð og verð á breska markaðnum. Þegar meira var lagt upp úr magni en gæðum tíðkaðist það að fiskiskip sigldu með afla og seldu sem slíkan á uppboðsmörkuðum í breskum höfnum, þá jafnvel uppundir 12-14 daga gamlan, nú er meira um það að fiskur sé flakaður og snyrtur á Íslandi og jafnvel sneiddur í flakabita, þökk sé íslenskri tækniþróun (t.d. Marel og samkeppnisaðilar), fyrir flutning, við stýrðar aðstæður, til Bretlands. Þannig geta íslenskar sjávarafurðir komist nær neytendum eftir þær fara úr landi. Flökun á Íslandi og sú þróun á vörusamsetningu sem flutt er úr landi hefur áhrif á verðþróun og verðmætasköpun. Það er virðingarvert að rýna gögn frá erlendum stofnunum. Þó höfundur sé ekki hagfræðingur má sjá að aðgengilegustu gögn hagstofu Bretlands um fisk sýna smásöluverðþróun á fiskflökum, sem er ekki það sama og innflutningsverð í Bretlandi eða útflutningsverð frá Íslandi. Breytingar urðu á verðgildi breska sterlingspundsins á árinu 2016 gagnvart örðum gjaldmiðlum, slíkt kann að hafa áhrif á smásöluverð matvæla. Þróun gjaldmiðla er mismunandi og þeir eru misgamlir og misstöðugir. Vissulega er verðþróun fiskflaka veigamikill þáttur í verð þróun þorskafurða. Fiskflök í smásölu í Bretlandi hafa breyst á síðustu 35 árum minna er um það að gamall fiskur er flakaður í versluninni, þó eitthvað sé um að fiskflök séu þýdd upp í verslunum, og fiskflök séu enn seld frosin í Bretlandi er nú oftar að finna flakabita sem fluttir hafa verið sem slíkir kældir frá Íslandi. Fiskflök sem unnin væru með samahætti og gerðist og gekk fyrir 35 árum myndu ekki seljast við sama verði og fiskflök sem meðhöndluð eru með þeim þætti sem algengt er í dag. Sé litið á einstaka markaði má ekki gleyma því að íslenskar þorskafurðir eru í það minnsta fluttar héðan beint til þriggja heimsálfa, þá má horfa til verðþróunar (vísitölu sjávarafurða) á öðrum mörkuðum. Munur á þróun verðmætasköpunar úr öllum þorskafurðum Íslendinga og verðþróun þorskflaka í smásölu á Bretlandsmarkaði, má að hluta til skýra með því að matvælahrávörur hafa ekki hreyfst jafn mikið allstaðar.


Verð hrávöru (e. Commodity) hefur breyst hægar en sérvöru eins og flaka. Matvælaverðsvísitala Alþjóðabankans (e. World Bank) hækkaði um 38% frá 1981 til 2016. Matvælaverðsvísitala Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) hækkaði um 51% á samatíma á verðlagi hvers árs. Sé litið til fiskverðs sérstaklega hefur fiskverð á heimsvísu hækkað um ríflega 51% frá 2003 til ársins 2016, meðan hafa fiskflök í Bretlandi hækkað um 57%. Á sama tíma hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða Íslendinga hækkað um 145% í SDR, úr 0,53 SDR/kg afla í 1,3 SDR/kg afla eins og greint var frá í frétt Matís. Þökk sé þróun sem m.a. hefur verið drifin áfram af samstarfi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja- og samtaka, menntastofnana, Matís, iðnfyrirtækja og fleiri hagaðila í sjávarútvegi. 

Til að að íslenskt atvinnulíf geti náð árangri hefur Matís lagt mikið upp úr því að rækta mannauð, m.a. með samstarfi við íslenska háskóla, samstarf sem vonandi verður hægt að fjármagna til framtíðar, þrátt fyrir boðaðan niðurskurð í fjárlagafrumvarpi 2018. Nauðsynlegt er að hafa góð gögn til að byggja á þegar taka þarf ákvarðanir. Of oft þarf að benda á að þriðja verðmætasta fisktegundin í útflutningstölum Íslendinga sé annar afli. Með nothæf gögn í handraðanum skulum við ræða málin opinskátt, án upphrópana, og setja þau í samhengi. Hver eru t.d. áhrif þess að hætta að bjarga verðmætum og mæta þess í stað þörfum? Hvernig getum við enn bætt samstarf og samhæfingu íslenskra aðila? Samstarf Matís í gegnum tíðina við hagaðila í sjávarútvegi, ekki síst Landssamband smábátaeigenda, hefur skilað árangri við aflameðhöndlun og verðmætasköpun. Nú þurfum við að horfa til framtíðar og sækja enn lengra fram á vettvangi verðmætasköpunar á grunni þekkingar og auðlinda sjávar við Ísland og um allan heim.

Fréttir

Dregið úr ákjósanlegri fjárfestingu

Í frumvarpi til fjárlaga, sem lagt var fram 12. september sl., kemur fram áætlun um að lækka fjármagn ríkisins til matvælarannsókna (Matís) um 51 milljón á næstu tveimur árum, úr 441 milljón í 390 milljónir. Þetta er þvert á þörf fyrir nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi um allt land og mun reynast skammgóður vermir fyrir ríkissjóð, enda hefur rekstur Matís gengið vel og skilað samfélaginu miklum ávinningi. Að teknu tilliti til skattgreiðslna og tryggingagjalds stóðu einungis um 80 milljónir eftir af þeim 435 milljónum sem þjónustusamningur um matvælarannsóknir skilaði Matís árið 2016.

Þess er skemmst að minnast að sumarið 2017 greip yfirstjórn Matís til aðhaldsaðgerða til að koma í veg fyrir tap á yfirstandandi ári, enda hefur traustur rekstur verið í fyrirrúmi hjá Matís frá upphafi. Að aðhaldsaðgerðunum loknum leit út fyrir að Matís gæti stutt vöxt í lífhagkerfinu af krafti. Viðbúið er að boðaður niðurskurður skaði getu Matís til að þjóna lögbundnu hlutverki sínu við að auka verðmætasköpun, matvælaöryggi og að bæta lýðheilsu.

Sértekjur Matís árið 2016 námu 1180 milljónum. Fjárfesting ríkisins í matvælarannsóknum er nauðsynleg til mótfjármögnunar samkeppnissjóða, en fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til matvælarannsókna sækir metnaðarfullt starfsfólk Matís 2,6 krónur í sértekjur og vega þar þyngst erlendir samkeppnissjóðir, s.s. Horizon 2020, sem skiluðu Matís 481 milljón á árinu 2016 og íslensku nýsköpunarsamfélagi enn meiru. Ef litið er til þeirra fjármuna frá hinu opinbera, sem Matís hefur úr að spila að lokinni greiðslu skatta og opinberra gjalda (80 milljónir) lætur nærri að starfsfólk Matís hafi náð að ávaxta þá fjárfestingu fimmfalt með sókn í erlenda sjóði og þrefaldað fjárhæðina með innlendum styrkjum á sama tíma.  Slík ávöxtun þætti flestum fjárfestum góð og eru þá vantalin þau áhrif sem rannsóknaverkefni Matís hafa á samfélagið um allt land.

Dæmi um alþjóðlegt verkefni sem nýtist íslensku rannsóknasamfélagi er FarFish, sem Matís sótti í Horizon 2020 á árinu 2016. Matís leiðir verkefnið og meðal mikilvægra samstarfsaðila er Sjávarútvegsskóla háskóla sameinuðu þjóðanna (UNUFTP). Búast má við að tekjur UNUFTP, sem er hýst hjá Hafrannsóknastofnun, af verkefninu nemi um 279 þúsund Evrum á næstu árum, sem jafngildir 69% af væntum tekjum Hafrannsóknastofnunar, rannsókna og ráðgjafarstofnunar Hafs og vatna af rannsókna og þróunar verkefnum fjármögnuðum með stuðningi Horizon 2020.  

Í stað þess að skera niður fjárfestingu ríkisins í matvælarannsóknum og hefta þannig metnaðarfulla sókn Matís í alþjóðlega samkeppnissjóði, væri skynsamlegra að auka fjárfestinguna til eflingar Matvælalandsins sem Ísland getur verið og varðveislu Matarauðs okkar.

Fréttir

Loftslagsmaraþon í fyrsta sinn á Íslandi!

Tengiliður

Justine Vanhalst

Verkefnastjóri

justine@matis.is

Hefurðu áhuga á loftslagsmálum og langar að leggja þitt af mörkum? Taktu þátt í sólarhringshakki um loftslagsmál 27. október nk. í Matís (3. hæð). Climathon/loftslagsmaraþon er sólarhringsáskorun um nýsköpun í loftslagsmálum sem haldin er samtímis í 237 borgum um allan heim. Unnið verður hörðum höndum í 24 klst. að útfæra nýjar hugmyndir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðra loftmengun. Dómnefnd velur bestu lausnirnar og veitir verðlaun.

Loftslagsmaraþon er samkeppni sem er öllum opin. Fólk getur skráð sig sem einstaklingar, hópar, nemendur, frumkvöðlar og allir sem láta sig loftslagsmál varða. Rafmagnað andrúmsloft, hollur matur, innblásnar vinnustofur, hópumræður, afslappað andrúmsloft og svefnkrókar og fjölda óvæntra uppákoma bíður þeirra sem taka þátt. Dagur B. Eggertsson setur loftslagsmaraþonið af stað með hvatningarræðu klukkan 13:00 þann 27. október.

Viðburðurinn á Facebook

Skráðu þig til leiks hér

Hlökkum til að sjá þig! 

Fréttir

Matís í samstarfi hafríkja

Á ný yfirstöðnum fundi stórra hafþjóða um bláan vöxt (e. Large Ocean Nations Forum on Blue Growth), þann 3. október s.l. undirrituðu Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís viljayfirlýsingu um samstarf (e. Letter of Intent). 

Fundurinn var skipulagður sjávarútvegsráðuneyti Færeyja, Norrænuráðherranefndinni og Norður-Atlantshafssamstarfinu NORA. Síðustu tvö ár hefur í auknum mæli verið rætt um hafsvæði sem tilheyra þjóðum og ríkjum þeirra fremur en flatarmál þess svæðis sem upp úr hafinu stendur.

HHogSM

Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.

Einu ári áður skilaði nefnd um endurskoðun á fiskveiðistjórnun í Færeyjum skýrslu. Eðli málsins samkvæmt var fjallað um fleira en fiskveiðistjórnun eina og sér og farið er í skýrslunni í margbreytileika sjávarútvegs, markmið og mögulegan ávinning af veiðum, vinnslu, dreifingu og sölu sjávarfangs með hagnýtingu nýsköpunar og rekjanleika.

Í samræmi við tillögu í skýrslunni um að hið opinbera í Færeyjum ásamt færeysku atvinnulífi leggi sig fram um að menntun og rannsóknir í matvælaframleiðslu verði framarlega í forgangsröðun í Færeyjum. Í því sambandi var hreyft við þeirri hugmynd að kanna kosti þess að setja á fót matvælarannsóknaeiningu í Færeyjum með Matís sem fyrirmynd.

Viljayfirlýsingin sem undirrituð var í síðustu viku undirstrikar áform Fiskimálastýrisins í Færeyjum og Matís á Íslandi um að taka saman höndum til að auka verðmæti, matvælaöryggi og lýðheilsu meðal stórra hafþjóða.

Samstarfið verður þróað frekar með samstarfsverkefnum. Áherslu er lögð á að auka verðmætasköpun, byggða á hagnýtingu vísinda- og nýsköpunar, í færeyskum sjávarútvegsfyrirtækjum og efla enn frekar vísindalegt samstarf milli færeyskra, íslenskra og alþjóðlegra rannsókna og iðnaðaraðila. Samstarfið mun styðja við markmið nýlega kynntra áforma um umbætur í Færeyskum sjávarútvegi.

Fréttir

Lífhagkerfi og vöxtur á Norðurslóðum

Tækifæri fyrir samfélög og ógnanir við lífshætti á Norðurslóðum eru til umræðu á Hingborði Norðursins í ár sem fyrri ár. Í tengslum við ráðstefnuna eru margir áhugaverðir viðburðir, þar á meðal er einn sem snýr að frumkvöðlum, nýsköpun og hagrænni þróun.

Í tengslum við Hringborð Norðursins (e. Arctic Circle) stendur Norræna ráðherranefndin og Viðskiptaráð Norðurslóða (e. Arctic Economy Council) fyrir hliðarviðburði (e. Break-Out Session) um hagræna þróun, nýsköpun og frumkvöðla á Norðurslóðum. Hliðarviðburðurinn fer fram í Kaldalóni í Hörpu föstudaginn 13. október milli klukkan 16:15 og 17:45.

Fjallað verður m.a. um þátt norrænnar samvinnu í breytingum innan hagkerfa Norðurslóða, greiningu viðskipta á Norðurslóðum og viðhorf innfæddra til viðskiptaþróunar á Norðurslóðum. Þá mun Róbert Guðfinnsson hjá Genís tala um hvað þurfi til að knýja nýsköpun og frumkvöðla starf á Norðurslóðum, Stephen Hart, hjá Evrópska fjárfestinga bankanum, mun kynna fjármögnun viðskiptaþróunar og fjárfestinga á Norræna hluta Norðurslóða m.t.t. tækifæra, þarfa og krafa, Thomas Westergaard hjá Hurtigruten, mun segja frá þætti norrænar matargerðar sem samkeppnisforskot í ferðaþjónustu á Norðurslóðum og Sveinn Margeirsson hjá Matís mun ræða hlutverk lífhagkerfis til að stuðla að sjálfbærum vexti á Norðurslóðum.

Að lokum mun formaður Viðskiptaráðs Norðurslóða Tero Vauraste fjalla um hvernig hægt sé að hreyfa við áætlun um viðskiptaþróun á Norðurslóðum fram á við.

Þessu tengt má geta þess að Matís er þátttakandi í ClimeFish verkefninu sem miðar að því að styðja við sjálfbæran sjávarútveg, virkja aukningu í framleiðslu innan evrópsks fiskeldis, auðvelda atvinnu- og svæðisþróun innan atvinnugreinanna, og þróa spálíkön og tól til ákvarðanatöku til að bregðast megi við loftslagsbreytingum í samstarfi við hagaðila.

Áhugasamir eru hvattir til að mæta og taka þátt í spennandi umræðum.

Fréttir

Nýsköpun í vinnslu stórþörunga

Um næstu áramót lýkur norræna verkefninu „Conservation and processing marine macro algae for feed ingredients (Capmafi)“ sem Nordic Marine Innovation styrkir. Þátttakendur auk Matís eru Eukaryo AS, Due Miljø og Akvatik AS frá Noregi ásamt Tari-Faroe Seaweed frá Færeyjum.

Meginmarkmið verkefnisins er að þróa framleiðsluferil til að aðskilja ákveðna efnishluta úr stórþörungum með himnusíunarbúnaði, varðveita þá og nota sem viðbætt hráefni í eldisfóður fyrir fiskeldi. 

Aðaláherslan var lögð á aðskilnað próteina, peptíða og amínósýra, með aðstoð ensíma. Framleiðsluferillinn byggðist í grófum dráttum á smækkun þörunganna í þykkni með votmyllu. Þykknið var meðhöndlað með ensímum í þeim tilgangi að brjóta próteinin niður í peptíð og amínósýrur. Þykknið var síðan meðhöndlað með sýru (meltugerð) til að auka geymsluþolið og hjálpa til við niðurbrot próteina. Himnusíun sá svo um aðskilnað próteina, peptíða og amínósýra úr þykkninu.

Gerð var tilraun í Bodø í Noregi, í stórum skala, þar sem notuð var himnusíun til aðskilnaðar efnasambanda. Gekk hún ágætlega fyrir sig og heimtur próteina og minni sameinda lofuðu góðu fyrir verkefnið.

Áður en verkefninu lýkur verður aðskilnaður fjölsykra skoðaður.

Fréttir

Hjálpum til við nútímavæðingu

Ísland sem stórt hafríki, fremur en smátt eyríki, á mikila möguleika í forystu verðmætasköpunar innan bláalífhagkerfisins. „Ekki er nóg með að við nýtum auðlindina mjög vel, heldur sköpum við gæðahráefni og látum mjög lítið fara til spillis borið saman við aðrar þjóðir. Forskot Íslands á þessu sviði nær ekki aðeins til hefðbundins sjávarfangs heldur ekki síður til nýtingar sjávarauðlinda til framleiðslu fæðubótarefna, lækningavara og snyrtivara svo nokkur dæmi séu nefnd. Þekking Íslands nær yfir alla virðiskeðju sjávarfangs og styrkleiki okkar á þessu sviði er eitthvað sem við gætum nýtt mun betur, auk tækifæra tengdra öðrum lífverum, t.d. þörungum,“ segir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís í nýlegu viðtali við Morgunblaðið.

Í viðtalinu ræðir Sveinn sér­stöðu Íslands og bend­ir á hversu lítið aðrar þjóðir ná að nýta bláa líf­hag­kerfið: „Með líf­hag­kerf­inu er átt við þann hluta hag­kerf­is­ins sem bygg­ir á lif­andi og end­ur­nýj­an­leg­um auðlind­um, og nær bláa líf­hag­kerfið yfir all­ar þær lif­andi auðlind­ir hafs­ins sem við nýt­um. Bláa hag­kerfið er vannýtt víða um heim og þaðan koma t.d. minna en 5% allra mat­væla á meðan meira en 95% mat­væla verða til á landi –og það þrátt fyr­ir að vötn og höf þeki meira en 70% af yf­ir­borði jarðar.“

Sveinn seg­ir sér­kenni Íslands m.a. birt­ast í því að þar hef­ur hlut­föll­un­um verið snúið við og um 80-90% af öll­um mat­væl­um sem landið fram­leiðir komi úr haf­inu.

Sveinn hvetur bæði stjórnvöld og atvinnulíf til að skoða mjög vandlega „að nota t.d. þá þekk­ingu sem býr í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi til að stór­bæta vinnslu, veiðar og markaðssetn­ingu víða um heim. Í öll­um heims­álf­um megi finna lönd sem hafa alla burði til að nýta auðlind­ir sjáv­ar mun bet­ur og eru stödd þar sem Ísland var fyr­ir 30 eða 40 árum. Að taka þátt í því að færa sjáv­ar­út­veg þess­ara þjóða inn í nú­tím­ann myndi ekki aðeins vera gott viðskipta­tæki­færi held­ur gæti líka aukið hróður lands og þjóðar.”

Að mati Sveins ætt­u Íslendingar „að sam­hæfa stefn­una í sjáv­ar­út­vegs­mál­um, ut­an­rík­is­mál­um og viðskipta­mál­um, og ráðast í tang­ar­sókn. Núna er ein­mitt rétti tím­inn enda er því spáð að bláa líf­hag­kerfið muni vaxa gríðarlega og að um all­an heim verði miklu fjár­magni varið í þenn­an hluta at­vinnu­lífs­ins. Ísland þyrfti að vera í far­ar­broddi í þess­ari þróun, því ann­ars er hætta á að við drög­umst aft­urúr.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á sjávarútvegsvef Morgunblaðsins 200 mílum.

IS