Fréttir

Breytt viðhorf til brottkasts

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega birtist viðtal við Jónas Viðarsson hjá Matís á fréttavef Fiskifrétta um breytta stefnu Evrópusambandsins í tengslum við brottkast á fiski. Matís er lykilþátttakandi, ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Hampiðjunni og Marel í verkefninu DiscardLess sem er ætlað að greiða fyrir innleiðingu á brottkastsbanninu sem verið er að innleiða innan evrópska fiskiskipaflotans.

Í viðtalinu talar Jónas um þessa stefnubreytingu í fiskveiðistjórnun ESB og þær breytingar sem hafa orðið á almennu viðhorfi til brottkasts. Hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins hafi hreinlega gert kröfu til þess að fiski sé kastað í sjóinn. „Það hefur verið ekki bara leyfilegt heldur skylda ef fiskiskipið er annað hvort ekki með kvóta fyrir honum eða ef fiskurinn er undir leyfilegri lágmarksstærð,“ segir Jónas. „Þetta hefur bara verið tíðkað hjá þeim, og það er allt samkvæmt reglunum. En nú er það að breytast.“

Jónas nefnir einnig sérstaka stöðu Íslands sem hafi ákveðið forskot umfram nærri allar aðrar þjóðir sem eru með brottkastsbann. „Hér höfum við til dæmis tækifæri til að landa í þessum VS-afla til dæmis. Þá fer aflinn beint inn á fiskmarkaðinn og 80 prósent af aflaverðmætinu fer í rannsóknir, í þennan VS-sjóð. Áhöfnin fær þá bara 20 prósent og þetta er þá ekki talið gegn kvóta, en þetta hefur reyndar ekki verið mjög mikið nýtt að undanförnu. Og sama er með undirmál, bara talið 50 prósent gagnvart kvóta, þannig að það er nú verið að gera ýmislegt til að sporna gegn þessu,“ segir Jónas.

Evrópskir ráðamenn og aðrir hagaðilar horfa til Íslands og annarra landa sem reynslu hafa af að starfa undir brottkastsbanni og því er innlegg Íslands mikilvægt í verkefninu, auk þess sem Matís leiðir einn vinnupakka og er með lykilhlutverk í nokkrum öðrum vinnupökkum.

Hægt er lesa viðtalið í heild sinni á vef Fiskifrétta.