Fréttir

Nýsköpun í vinnslu stórþörunga

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Um næstu áramót lýkur norræna verkefninu „Conservation and processing marine macro algae for feed ingredients (Capmafi)“ sem Nordic Marine Innovation styrkir. Þátttakendur auk Matís eru Eukaryo AS, Due Miljø og Akvatik AS frá Noregi ásamt Tari-Faroe Seaweed frá Færeyjum.

Meginmarkmið verkefnisins er að þróa framleiðsluferil til að aðskilja ákveðna efnishluta úr stórþörungum með himnusíunarbúnaði, varðveita þá og nota sem viðbætt hráefni í eldisfóður fyrir fiskeldi. 

Aðaláherslan var lögð á aðskilnað próteina, peptíða og amínósýra, með aðstoð ensíma. Framleiðsluferillinn byggðist í grófum dráttum á smækkun þörunganna í þykkni með votmyllu. Þykknið var meðhöndlað með ensímum í þeim tilgangi að brjóta próteinin niður í peptíð og amínósýrur. Þykknið var síðan meðhöndlað með sýru (meltugerð) til að auka geymsluþolið og hjálpa til við niðurbrot próteina. Himnusíun sá svo um aðskilnað próteina, peptíða og amínósýra úr þykkninu.

Gerð var tilraun í Bodø í Noregi, í stórum skala, þar sem notuð var himnusíun til aðskilnaðar efnasambanda. Gekk hún ágætlega fyrir sig og heimtur próteina og minni sameinda lofuðu góðu fyrir verkefnið.

Áður en verkefninu lýkur verður aðskilnaður fjölsykra skoðaður.