Kræklingarækt hefur verið stunduð á tilraunastigi víðsvegar við landið í nokkurn tíma og hafa frumkvöðlar náð tökum á ræktunaraðferðum sem henta fyrir íslenskar aðstæður og fyrstu fyrirtækin eru að hefja uppbyggingu sem byggir á þeirri þróun.
Í Evrópu og Kanada er kræklingarækt rótgróin matvælagrein og njóta Íslendingar góðs af því að hafa aðgang að tækni sem þegar hefur verið þróuð til ræktunar og vinnslu kræklings. Aðstæður hér við land eru þó ekki alltaf sambærilegar og hefur þróunarvinna á Íslandi m.a. falist í að aðlaga tækni að íslenskum aðstæðum.
Kræklingarækt hérlendis hefur að mestu leiti byggt á lirfusöfnun, síðar á framleiðsluferlinu hefur skel verið stærðarflokkuð og sett í sokka sem komið er fyrir í áframrækt á línum í sjó. Aðalmarkmið AVS verkefnisins “Stytting ræktunartíma kræklings” var að þróa og meta ræktunaraðferð sem ekki hefur verið prófuð áður hérlendis, svokölluð skiptirækt. Þessi aðferð felur í sér að villtri smákel (<35 mm) er safnað eftir að hún hefur leitað til botns, hún stærðarflokkuð, sokkuð og látin vaxa á hengjum/sokkum uppi í sjó. Deilimarkmið AVS verkefnisins voru að meta stofnstærð og nýliðunargetu á tilraunaveiðisvæðum smáskelja í Hvalfirði og upptöku kadmíums í kræklingi eftir flutning og í áframræktun.
Niðurstöður þessara rannsóknar leiddu í ljós að talsvert magn af veiðanlegum kræklingi er til staðar í Hvalfirði. Ljóst er þó að uppistaða þess stofns eru stórar skeljar sem ekki henta til áframræktunar. Úr því má bæta með því að grisja stofninn þannig að rými skapist fyrir smáskel að setjast.
Minna fannst af skel í Breiðafirði, en hún var þó smærri en skelin í Hvalfirðinum og hentaði því betur til skiptiræktar. Ágætis árangur náðist af því að rækta þessa skel áfram í Eyjafirði og var hægt að uppskera hana þar að rúmu ári liðnu þar sem hún var búin að ná markaðsstærð. Með lirfusöfnun tekur það skelina 2-3 ár að ná markaðsstærð en með því að safna villtri smáskel er hægt að láta hana ná markaðsstærð á einu ári. Mikil verðmætasköpun gæti falist í því að nýta áður ónýttan stofn og stytta ræktunartíma kræklings um a.m.k. eitt ár. Upptaka kadmíums í kræklingi getur þó verið vandamál eftir flutning og í áframræktun og mikilvægt er að fylgjast með styrk kadmíums í kræklingi áður en hann fer á markað.
Skiptirækt getur líka verið gagnleg sem viðbót við hefðbundna ræktun, sérstaklega ef hefðbundin lirfusöfnun hefur farið forgörðum af einhverjum ástæðum. Niðurstöður þessa verkefnis geta því nýst við fleira en styttingu á ræktunartíma og geta gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu kræklingaræktar umhverfis landið.
Líkt og undanfarin ár þá sendir Matís ekki út hefðbundin jólakort heldur eingöngu kort á rafrænu formi. Þess í stað styrkir Matís Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.
Er það ósk Matís að styrkurinn komi að góðum notum og styðji enn frekar við það frábæra starf sem nú þegar fer fram hjá Krafti.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Krafts, www.kraftur.org.
Í sumarverkefninu Hitastýring í gámaflutningi ferskra fiskafurða, sem unnið var í samstarfi Eimskips og Matís, var hitadreifing í kæligámum mæld og verklag við hleðslu kæli- og frystigáma, sem eru notaðir bæði við flutning á ferskum og frystum vörum, var tekið út.
Hitastýringin sem skoðuð var í verkefninu snýr að geymslu og flutningi á ferskum fisk en hann er mun viðkvæmari fyrir hitasveiflum en fryst vara. Því er mikilvægt að umhverfishita afurðanna í gámnum sé vel stýrt gegnum flutningaferlið. Niðurstöður Evrópuverkefnisins Chill on og AVS verkefnisins Hermun kæliferla sýna að með vel hitastýrðum sjóflutningi má ná fram mun lengra geymsluþoli sjávarafurða en fæst í síður hitastýrðum flugflutningskeðjum.
Niðurstöður mælinga sýndu að hitadreifing innan gáma er háð verklagi við hleðslu þar sem loftflæði í gám er misjafnt eftir hleðslumynstri. Hitadreifing í gámum er ekki einsleit og almennt er kaldara við botn og nær kælivél en heitara við loft gáms og næst hurð. Mælingar sýndu einnig að hitastig innan gáms sveiflast með umhverfishita þegar heitt er úti. Taka ber fram að mælingarnar voru gerðar að sumarlagi.
Kæligámar eru hannaðir til að viðhalda lágu loft- og vöruhitastigi innan gámsins en ekki til að kæla niður vörur. Niðurstöður mælinga sýndu fram á mikilvægi forkælingar vöru fyrir hleðslu í gáma en ef henni er hlaðið of heit tekur langan tíma að ná kjörgeymsluhita . Í verkefninu voru skoðaðar mismunandi gámagerðir með það að markmiði að greina hvaða gámagerð henti best til flutninga á ferskum fisk en þar er lágt og stöðugt hitastig mikilvægt. Greina mátti fylgni milli frammistöðu mismunandi gáma og aldurs þeirra.
Hermun kæliferla er einnig styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís (TÞS) og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
Föstudaginn 17. desember nk. fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands.
Þá ver Hélène L. Lauzon, matvælafræðingur, doktorsritgerð sína „Forvarnir í þorskeldi: Einangrun, notkun og áhrif bætibaktería á fyrstu stigum þorskeldis“ (Preventive Measures in Aquaculture: Isolation, Application and Effects of Probiotics on Atlantic Cod (Gadus morhua L.) Rearing at Early Stages).
Andmælendur eru dr. Einar Ringø, prófessor við Norwegian College of Fishery Science, Faculty of Bioscience, University of Tromsø, og dr. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.
Leiðbeinandi var dr. Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum og aðjúnkt við Læknadeild Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru Sigríður Guðmundsdóttir M.Sc., sérfræðingur við Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, dr. Ragnar Jóhannsson, sérfræðingur hjá Matís ohf, dr. Ólafur S. Andrésson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og dr. Seppo Salminen, prófessor og forstöðumaður “Functional Foods Forum” við háskólann í Turku í Finnlandi.
Dr. Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í sal 132 í Öskju og hefst klukkan 13:00.
Ágrip úr rannsókn Léleg afkoma á fyrstu stigum þorskeldis er vandamál og notkun sýklalyfja hefur verið helsta úrræðið. Notkun bætibaktería er talin vera mögulegur valkostur sem fyrirbyggjandi aðferð til að stuðla að stöðugleika í eldisumhverfi og bættri heilsu eldisdýra. Markmið doktorsverkefnisins var að auka lifun og stuðla að þroskun þorsklirfa á fyrstu eldisstigum. Áhersla var lögð á einangrun og greiningu ræktanlegra baktería auk þróunar forvarnaraðferða. Niðurstöður rannsóknanna eru kynntar í 5 vísindagreinum.
Áhrif mismunandi meðhöndlunar á ræktanlega og ríkjandi örveruflóru í þorskeldi voru skoðuð á tveimur klaktímabilum og einnig eiginleikar tengdir sýkingarmætti baktería í eldisumhverfinu. Niðurstöðurnar sýna að bæði fóðrun og mismunandi meðferðir höfðu áhrif á gerð örveruflóru og að samsetning örveruflórunnar tengist velgengni í lirfueldi. Einnig var hannað skimunarferli til að velja bætibakteríur úr eldisumhverfi þorsks. Tvær bætibakteríur, Arthrobacter bergerei og Enterococcus thailandicus, voru einangraðar og eiginleikum þeirra lýst. Rannsóknir á lirfu- og seiðastigi staðfestu getu þessara bætibaktería til að efla forvarnir á fyrstu stigum þorskeldis.
Verkefnið var unnið hjá Matís ohf. Samstarfsaðilar voru Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar á Stað við Grindavík.
Um doktorsefnið Hélène L. Lauzon er fædd í Montreal í Kanada árið 1965. Hún lauk stúdentsprófi frá Collège Saint-Maurice árið 1983 og var AFS skiptinemi á Íslandi á árunum 1983-1984. Hún lauk BS prófi í matvælafræði við Macdonald Campus við McGill-háskóla í Kanada árið 1991 og MS prófi í matvælafræði við Háskóla Íslands árið 1997. Hélène hóf störf hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins við örverurannsóknir árið 1992 og varð síðar sérfræðingur hjá Matís ohf. Hún hóf doktorsnám við Læknadeild árið 2005.
Foreldrar Hélène eru Gilles Lauzon, kjötiðnaðarmaður, og Suzanne Éthier, húsfreyja. Hún er gift Þorfinni Sigurgeirssyni, grafískum hönnuði og myndlistarmanni, og saman eiga þau tvö börn, Díu og Dag.
Transfitusýrur er hugtak sem notað er yfir ákveðna tegund af harðri fitu. Þessi transfita eða transfitusýrur eru þó ólíkar náttúrulegri harðri fitu, s.s. eins og finna má í kókoshnetum, að því leyti að þær myndast þegar mjúkri fitu, svokallaðri ómettaðri fitu, er breytt í matvælaiðnaði (fitan er hert).
Transfitusýrur í matvælaframleiðslu En ef stór hluti transfitu er í fæðunni okkar vegna matvælaiðnaðarins er þá ekki auðvelt að breyta þessu og minnka neyslu á transfitu? Málið er ekki svo einfalt. Áður en til notkunar á transfitu kom í matvælaiðnaði voru framleiðendur að nota harða fitu við framleiðslu en neysla á harðri fitu hefur neikvæð áhrif á heilsu manna. Í leit sinni að „hollari” kosti fóru framleiðendur að líta til mýkri fitu en að mörgu leyti er hún ekki hentug til matvælaframleiðslu þar sem hún m.a. þránar fyrr en harða fitan og því styttist geymsluþol vöru sem framleidd er með mjúkri fitu. Í viðleitni sinn til að bæta eiginleika mjúku og „hollari” fitunnar fóru framleiðendur að breyta byggingu hennar. Mjúka fitan, oftast jurtafita, er hert að hluta, þ.e.a.s. gerð að harðari fitu og við þessa breytingu öðlast hún ákveðna eiginleika sem m.a. lýsa sér í lengra geymsluþoli. Fjárhagslega var þessi breyting því til batnaðar fyrir fyrirtækin enda er lengra geymsluþol ávísun á að minna er fleygt af mat.
Skaðsemi transfitusýra Almennar ráðleggingar Lýðheilsustöðvar eru að minnka neyslu á harðri fitu og skiptir þá ekki máli hvort um sé að ræða transfitusýrur eða mettaða fitu. Frekar ætti að velja fitu sem er mjúk, þ.e.a.s. á fljótandi eða mjúku formi við stofuhita. Eftir sem áður hefur neysla á mjúkri fitu sem hefur verið hert að hluta, þ.e. transfitu, aukist mjög á síðustu áratugum. Neysla á matvælum sem innihalda transfitusýrur eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Áhrifa neyslu á transfitusýrum gætir m.a. í því að LDL-kólesteról hækkar (slæma kólesterólið) og HDL-kólesterólið lækkar (góða kólesterólið). Neysla á matvælum sem innihalda transfitusýrur er því óæskileg og í raun því minna sem við neytum af transfitusýrum því betur erum við sett m.t.t. ofangreindra áhættuþátta og sjúkdóma. Framleiðendur matvæla sem og aðrir eru smátt og smátt að gera sér grein fyrir þessari hættu og er bann við notkun olíu sem inniheldur transfitusýrur á veitingastöðum í New York borg sýnilegasta dæmið um breyttan hugsunarhátt þó svo að deila megi um ágæti þessháttar neyslustýringar.
Neysla transfitusýra á Ísland Íslendingar neyta almennt séð of mikillar fitu og er hörð fita of stór hluti af heildarfituneyslu landans. Því kemur það ekki á óvart að neysla á transfitusýrum sé óhóflega mikil á meðal íslenskra neytenda. Samkvæmt niðurstöðum könnunar frá árinu 2002 á mataræði landsmanna var neysla á transfitusýrum um 3,5 g á dag að meðaltali en þó voru einhverjir hópar, t.d. karlmenn á aldrinum 20-39 ára, sem neyttu mun meira en 3,5 g á dag. Neyslan hafði þá minnkað um nánast þriðjung frá árinu 1990 aðallega vegna minnkandi smjörlíkisneyslu og einnig vegna þess að samsetning smjörlíkis hafði verið breytt á þessum tíma. Þrátt fyrir að neysla Íslendinga á transfitusýrum sé á réttri leið er enn langt í land að við náum undir efri mörk sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sett á sem mörk fyrir transfitusýruneyslu einstaklinga (2 g á dag). Lýðheilsustöð vinnur nú að nýrri neyslurannsókn sem mun varpa ljósi á stöðuna hjá Íslendingum eins og hún er í dag.Þess má geta að Danir voru fyrstir til að setja reglur varðandi hámark transfitusýra í tilteknum matvælum. Í Danmörku mega matarolíur, viðbit og smjörlíki ekki innihalda meira en 2 g af transfitusýrum í hverjum 100 g af fitu í vörunni. Ákveðið hefur verið að setja svipaðar reglur hér á landi. Hvernig getum við komist hjá því að velja matvæli sem innihalda transfitusýrur? Transfitusýrur má finna í allmörgum tegundum matvæla. Líklegt er að transfitusýrur finnist í smjörlíki, steikingarfeiti, örbylgjupoppi, kartöfluflögum og öðru snakki, sælgæti, kexi, kökum, vínarbrauðum, frönskum kartöflum og öðrum djúpsteiktum skyndibitamat sem og í öðrum matvælum sem hafa verið elduð upp úr olíu sem hefur verið hituð óæskilega mikið.
Merkingum á magni transfitusýra á pakkningum matvæla er verulega ábótavant. Þetta á sérstakleg við um matvæli önnur en þau sem koma frá Bandaríkjunum en þar hafa verið settar nokkuð strangar reglur um merkingu transfitusýra. Neytendur geta þó fylgst með því hvort transfitusýrur séu til staðar í matvælum með því að skoða innihaldslýsingu á umbúðum. Ef á umbúðum stendur „hert fita/jurtafita”, „að hluta til hert jurtaolía”, „partially hydrogenated (vegetable) oil” eða „delvist hærdet fedt/olie” er mjög líklegt að þar megi finna eitthvað af transfitu. Nú er þó hægt að kaupa hráefni sem innihalda fullherta fitu með miklu af mettuðum fitusýrum en engum transfitusýrum.
Þann 1. desember urðu breytingar á yfirstjórn Matís.
Doktor Sjöfn Sigurgísladóttir, sem verið hefur forstjóri Matís frá því að félagið tók til starfa 1. janúar 2007 og forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins þar á undan, lætur nú af störfum að eigin ósk.
Doktor Sveinn Margeirsson tekur við af henni sem forstjóri. Samhliða breytingunum mun dr. Hörður G. Kristinsson taka við nýrri stöðu rannsóknastjóra Matís, ásamt því að starfa áfram sem sviðsstjóri Líftækni og lífefnasviðs hjá félaginu.
Sveinn og Hörður, sem hafa báðir gegnt lykilstörfum hjá Matís, þekkja vel til allrar starfsemi félagsins. Auk þess hafa þeir í sameiningu stýrt fyrirtækinu undanfarna fjóra mánuði með góðum árangri.
Stjórn Matís þakkar Sjöfn fyrir frábært starf sem hún hefur unnið í þágu félagsins og fyrir hraða og örugga uppbyggingu þess undanfarin fjögur ár og óskar henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.
Um leið býður stjórnin Svein og Hörð velkomna til starfa í nýjum hlutverkum og óskar þess að áframhald verði á því góða starfi sem þeir hafa unnið í þágu Matís ohf.
Matís hefur að markmiði að auka samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu á alþjóðlegum vettvangi. Meðal hlutverka félagsins eru efling nýsköpunar og aukin verðmæti og öryggi matvæla með öflugu þróunar og rannsóknastarfi. Á þeim vettvangi eru spennandi tímar framundan hér á landi við frekari uppbyggingu sjávarútvegs, landbúnaðar, líftækni og annarrar matvælaframleiðslu.
F.h. stjórnar Matís ohf., Friðrik Friðriksson, form. 896-7350
Fréttatilkynninguna á .pdf formi má finna hér. Nýtt skipurit Matís er hér.
Fyrir stuttu undirrituðu Matís og Fisktækniskóli Suðurnesja samstarfssamning sem m.a. stuðlar að eflingu fagþekkingar, leikni og hæfni nemenda í námi í veiðum, vinnslu og fiskeldi.
Matís er stærsta rannsóknafyrirtæki landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis.
Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla og líftækni.
Hjá Matís starfa margir af helstu sérfræðingum landsins í matvælatækni og líftækni; matvælafræðingar, efnafræðingar, líffræðingar, verkfræðingar og sjávarútvegsfræðingar. Einnig starfar fjöldi M.Sc. og Ph.D. nemenda við rannsóknartengt nám hjá Matís.
Fisktækniskóli Suðurnesja (FTS) er samstarfsvettvangur aðila á Suðurnesjum sem vinna að uppbyggingu þekkingar á framhaldsskólastigi á sviði fiskveiðaveiða, vinnslu sjávarafla og fiskeldis.
Fisktækniskólinn er einnig samstarfsvettvangur um undirbúning og framkvæmd endurmenntunar starfandi fólks í fiskeldi, veiðum og vinnslu sjávarafla. Fisktækniskólinn stendur að og hvetur til rannsókna og þróunarstarfs á sviði menntunar í fiskveiðaveiðum, vinnslu sjávarafla og fiskeldis.
Fisktækniskóli Suðurnesja er leiðandi í samstarfsneti skóla, fyrirtækja og símenntunarmiðstöðva á níu stöðum víðsvegar um land undir heitinu Fisktækniskóli Íslands (FTÍ).
Hörður G. Kristinsson, starfandi forstjóri Matís og Ólafur Jón Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Fisktækniskólans, skrifa undir samninginn.
Með samstarfi sínu hyggjast samningsaðilar:
Efla fagþekkingu, leikni og hæfni nemenda sem leggja stund á skóla- og vinnustaðanám í veiðum, vinnslu og fiskeldi.
Efla fagþekkingu, leikni og hæfni kennara og tilsjónarmanna nemenda í veiðum, vinnslu og fiskeldi.
Efla áhuga ungs fólks á greinunum og stuðla þannig að nýliðun starfsmanna og aukinni virðingu fyrir störfum, fyrirtækjum og stofnunum.
Auka skilning forsvarsmanna fyrirtækja í greinunum á nauðsyn og arðsemi menntunar almennra starfsmanna.
Þróa kennsluhætti og starfsþjálfun á framhaldsskólastigi og í framhaldsfræðslu, bæði í skóla og í fyrirtækjum.
Veita stjórnvöldum ráð um uppbyggingu og skipulag náms á framhaldsskólastigi og í framhaldsfræðslu.
Sækja um styrki til innlendra og erlendra sjóða til að efla námsefnisgerð og þróun námsefnis
Aftari röð frá vinstri: Gylfi Einarsson verkefnistjóri FTÍ, Margeir Gissurarson, Matís, Franklin Georgsson, Matís, Lárus Þór Pálmason, FTS, Nanna Bára Maríasdóttir verkefnastjóri FSS, Guðjónína Sæmundsóttir, forstöðumaður MSS og varamður í stjórn FSS. Fremri röð frá vinstri: Hörður G. Kristinsson, starfandi forstjóri Matís og Ólafur Jón Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri FSS
EPCIS staðall notaður við að sýna fram á rekjanleika afurða í íslenskum sjávarútvegi.
Fyrir stuttu fór fram tilraunakeyrsla í karfavinnslu HB Granda í Reykjavík þar sem notast var við EPCIS staðalinn við að sýna fram á rekjanleika afurða með þeim tilgangi að auka öryggi afurða og upplýsingaflæði innan virðiskeðjunnar. Tilraunakeyrslan gekk vel og munu helstu niðurstöður verða kynntar á ráðstefnum beggja vegna Atlandsála á næstu misserum.
Í verkefninu „eTrace“ er verið að skilgreina, þróa og innleiða rekjanleikakerfi sem byggir á EPCIS staðli frá EPCGlobal (www.epcglobalinc.org) sem byggir að hluta til á RFID (Radio Frequency IDentificaton) tækni. EPCIS staðallinn gerir það kleyft að skiptast á upplýsingum um EPC-merktar vörur, innan og á milli fyrirtækja. Í verkefni þessu eru upplýsingar um öryggi matvæla samþáttaðar við aðrar rekjanleikaupplýsingar í rauntíma. Megin tilgangur með svona kerfi er að tryggja fullkominn rekjanleika og auka um leið öryggi afurða og upplýsingastreymi.
Auk Matís eru meðal annars norsku fyrirtækin SINTEF og TraceTracker, háskólinn í Lundi, tæknifyrirtækið Roi4u og sænska fiskveiðieftirlitið þátttakendur í verkefninu, sem styrkt af SafeFoodEra áætluninni.
Tilraunin fór þannig fram að fiskiker HB Granda voru merkt með rafrænu auðkenni (RFID) sem sendir frá sér útvarpsbylgjur. Merkin samanstanda af rafrás (circuit) sem geymir og vinnur úr upplýsingum og loftneti til að senda og taka á móti upplýsingum. Hröð þróun hefur verið í gerð svona merkja á undanförnum árum og er nú svo komið að svona merki rúmast í litlum límmiða. Notast var við handlesara frá Nordic (ID PL3000), og var gögnum hlaðið þráðlaust með Wi-Fi tengingu þar sem veflægt EPCIS kerfi frá TraceTracker tók á móti gögnum.
Þessi rafrænu merki voru svo lesin af fiskikerum, vinnslukerum, frauðplastkössum og vörubrettum í gegnum ferlið til að fá rekjanleika afurða í gegnum vinnsluferlið. Þessi tilraun fór aðeins fram innan veggja HB Granda en ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að fylgja vöru alla leið til neytenda. Með þessum reglulega aflestri næst tenging frá veiðum og vinnslu til endanlegrar vöru. Þetta opnar möguleika á stórbættri upplýsingagjöf milli aðila innan virðiskeðjunnar og til neytenda.
Mynd 1. Yfirlitsskjámynd frá karfavinnslunni hjá HB Granda úr hugbúnaði TraceTracker sem þróaður hefur verið í verkefninu.
Á mynd 1 hér að ofan sést einn veiðidagur, sem skilaði 38 kerum af ísuðum karfa. Þessi ker fara í gegnum vinnsluna í Reykjavík þar sem þau verða að 12 kerum af flökuðum karfa. Í þessu verkefni var 7 kerum fylgt í gegnum pökkunina þar sem þau enduðu í 329 frauðplastkössum sem staflað var á 5 bretti. Á bak við hvern lið á þessar mynd eru víðtækar upplýsingar um hvern einasta hlut með rekjanlegt auðkenni.
Þetta kerfi gerir það mögulegt að tengja aðrar upplýsingar við tilkomandi rekjanlegan hlut eða atburð í vinnslunni sjálfri. Þannig var til að mynda lesið af hitastigssíritum með sömu handlesurum og rafrænu auðkennin og þannig hægt að tengja hitastigsniðurstöður beint við ákveðin ker eða kassa í ferlinu, eða jafnvel heilar lotur af afurðum ef svo ber undir. Einnig gefst kostur á að tengja upplýsingar frá gæðakerfum, eftirlitsaðilum og vottunaraðilum beint við viðkomandi hóp auðkenna og þannig er hægt að sýna öðrum aðilum í virðiskeðjunni fram á mæliniðurstöður fyrir óæskileg efni, hitastigsferil, tengingu afurða við kvóta eða vottunarupplýsingar.
Með svona kerfi næst „fínni“ rekjanleiki en nú er fyrir hendi. Með núverandi rekjanleikakerfum er yfirleitt hægt að rekja vörur niður á skip og veiðidag, en svona kerfi gæti rekið vörur jafnvel niður á ákveðin veiðihol. Með auknum upplýsingum ætti að vera hægt að stjórna vinnslu afurða betur og ná fram enn betri nýtingu, einnig opnar svona kerfi möguleika á aukinni sjálfvirkni í framleiðslu og aukinni upplýsingagjöf til kaupenda.
Með stöðlun upplýsinga næst að samkeyra upplýsingar úr mismunandi kerfum, en eins og staðan er í dag eru yfirleitt mörg kerfi í notkun við veiðar, vinnslu og sölu afurða. Hugmyndin er að þau kerfi sem eru fyrir hendi sendi frá sér upplýsingar á stöðluðu formi til EPCIS kerfis, þannig stjórnar hver aðili fyrir sig í virðiskeðjunni hvaða upplýsingar hann vill sýna öðrum aðilum eins og sýnt er á mynd 2. Þannig opnast möguleikar fyrir að stórauka upplýsingagjöf milli aðila í virðiskeðjunni og til neytenda.
Mynd 2. Yfirlit fyrir ætlaða virkni EPCIS rekjanleikakerfis. Við flæði afurða í virðiskeðjunni verða til margþættar upplýsingar sem geta nýst við upplýsingagjöf til viðskiptavina en eru líka nauðsynlegar til að uppfylla reglugerðir. Upplýsingar á stöðluðu formi eru settar í EPCIS gagnagrunn af hverjum aðila fyrir sig í virðiskeðjunni, sá aðili stjórnar svo hvaða upplýsingum hann vill deila með öðrum aðilum í keðjunni, sem og neytendum.
Ljóst er að kröfur um rekjanleika afurða eru alltaf að aukast. Notkun rafrænna auðkenna og sjálfvirk gagnatekja er góð aðferð tryggja rekjanleika þeirra. Ætla má að íslensk fiskveiðifyrirtæki og vinnsluaðilar fari meira útí sjálfvirka gagnasöfnun um leið og fiskiker verða merkt með rafrænu auðkenni. Þá munu sjálfvirkar aflestrarstöðvar leysa af handlesara eins og notaðir voru í þessari tilraun.
Slík virkni eins og EPCIS staðallinn bíður uppá, þar sem upplýsingar frá mismunandi stöðum eru samþættar og tengdar við viðkomandi auðkenndan hlut eða vinnslu getur nýst matvælaframleiðendum, söluaðilum sem og neytendum á margvíslegan hátt. En eins og staðan er í dag tapast oft mikilvægar upplýsingar í virðiskeðjunni eða aðgengi að þeim er torveldað með ósamþættum kerfum og þar að leiðandi mjög tímafrekt að finna réttar upplýsingar fyrir viðkomandi auðkennisnúmer.
Gott rekjanleikakerfi veitir einnig möguleika að fræða neytendur enn frekar um vöru, sýna fram á sótspor hennar, fæðumílur auk atriða eins og hvernig varan var unnin og að hún sé veidd úr sjálfbærum fiskistofni. Aðrir þættir geta einnig verið mikilvægir neytendum, eins og hvort varan sé holl, hvort hún innihaldi þekkta ofnæmisvalda, eru umbúðirnar endurnýtanlegar, hvort starfsmönnum hafi verið umbunað með réttlátum hætti og hvort varan sé örugg og lögleg. Með því að geta svarað spurningum sem þessum á auðveldan hátt myndast traust á viðkomandi vörumerki.
Nýjungar eins og tvívíddar strikamerki ásamt nýlegum farsíma gera það mögulegt að neytendur geta fengið upplýsingar um vöru strax við búðarhilluna. En með því að taka mynd af tvívíðu strikamerki (eða hefðbundnu strikamerki) á afurðum detta þeir inná heimasíðu afurðar þar sem hægt er að fræða þá um viðkomandi þætti. Mikilvægt er að þær upplýsingar sem standa neytendum til boða séu tengdar rekjanleikakerfinu, til að sýna fram á mest viðeigandi upplýsingar fyrir tiltekna afurð fyrir sig.Auknar kröfur eftirlitsaðila, upplýstari neytendur og hröð farsímaþróun gerir það að verkum að ör þróun er um þessar mundir í öllu því sem snýr að rekjanleika afurða og framsetningu upplýsinga. Því er mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki að taka þátt í svona tilraunum til að sjá hvaða tæknimöguleikar eru handan við hornið.
Matvælastofnun heldur fræðslufund um transfitusýrur þriðjudaginn 30. nóvember 2010 kl. 15:00 – 16:00.
Á fundinum verður fjallað um áhrif transfitusýra á lýðheilsu, greiningu transfitusýra í íslenskum matvælum og væntanlega reglugerð um takmörkun á magni transfitusýra í matvörum hérlendis.
Hvað er transfitusýrur, hvers vegna finnast þær í matvælum og í hvaða matvælum eru meðal þeirra spurninga sem teknar verða fyrir á fundinum. Fjallað verður um greiningar á transfitusýrum í íslenskum matvælum og þróunina í transfitusýruneyslu. Heilsufarsleg áhrif af neyslu transfitusýra verða skoðuð og fyrirhuguð reglugerð um transfitusýrur kynnt, ásamt framkvæmd eftirlits.
Gestafyrirlesarar verða Hólmfríður Þorgeirsdóttir frá Lýðheilsustöð, verkefnisstjóri nýrrar landskönnunar á mataræði sem nú stendur yfir, og Ólafur Reykdal frá Matís, sem nýverið hlaut Fjöregg MNÍ 2010 fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði.
Fyrirlesarar: Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá Lýðheilsustöð Ólafur Reykdal, matvælafræðingur og verkefnastjóri hjá Matís Zulema Sullca Porta, sérfræðingur hjá Matvælastofnun
Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu á vef MAST undir Útgáfa – Fræðslufundir. Þar verður einnig birt upptaka að fræðslufundi loknum.
Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu Matvælastofnunar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin).
Vottun í framkvæmd – kynningarfundur 19. nóvember. Fundurinn verður haldinn föstudaginn 19. nóvember frá kl. 14-16 í Víkinni sjóminjasafni, Grandagarði 8, Reykjavík.
Tilgangur fundarins er að kynna stöðu í verkefninu um vottun ábyrgra veiða Íslendinga, hagnýtar upplýsingar sem tengjast vottuninni og nýtingu hennar í markaðslegum tilgangi.
Dagskrá: 14.00 Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda og formaður fagráðs sjávarútvegs hjá Íslandsstofu Félag um merki og vottun Gjald og innheimta
14.10 Kristján Þórarinsson, varaformaður Fiskifélags Íslands og formaður tækninefndar um ábyrgar veiðar Bakgrunnur og staða vottunar Tæknileg framkvæmd verkefnisins
14.30 Mike Platt, Global Trust Hagnýtar upplýsingar um framkvæmd vottunar og umsóknarferli í vottun Umsóknarferlið fyrir rekjanleikavottun (Chain of Custody) 14.50 Guðný Káradóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu Hagnýtar leiðbeiningar um notkun upprunamerkisins, með og án vottunar Kynning og markaðssetning 15.10 Fyrirspurnir og umræður
Pallborð: Eggert B. Guðmundsson, Kristján Þórarinsson, Finnur Garðarsson, Guðný Káradóttir og Mike Platt Boðið verður upp á léttar veitingar í lok fundarins.Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með því að senda póst á islandsstofa@islandsstofa.is eða í síma 511 4000.
Við notum vafrakökur til að tryggja almenna virkni, mæla umferð og tryggja bestu mögulegu upplifun notenda á matis.is.
Functional
Alltaf virkur
The technical storage or access is strictly necessary for the legitimate purpose of enabling the use of a specific service explicitly requested by the subscriber or user, or for the sole purpose of carrying out the transmission of a communication over an electronic communications network.
Preferences
The technical storage or access is necessary for the legitimate purpose of storing preferences that are not requested by the subscriber or user.
Statistics
The technical storage or access that is used exclusively for statistical purposes.The technical storage or access that is used exclusively for anonymous statistical purposes. Without a subpoena, voluntary compliance on the part of your Internet Service Provider, or additional records from a third party, information stored or retrieved for this purpose alone cannot usually be used to identify you.
Marketing
The technical storage or access is required to create user profiles to send advertising, or to track the user on a website or across several websites for similar marketing purposes.