Fréttir

Hrönn Ólína Jörundsdóttir ver doktorsritgerð sína í umhverfisefnafræði

Starfsmaður Matís, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, varði doktorsritgerð sína “Útbreiðsla og breytingar í magni þrávirkrar lífrænnar mengunar í langvíueggjum frá Norðvestur Evrópu” (Temporal and spatial trends of organohalogens in guillemot (Uria aalge) in North Western Europe) þann 6. febrúar 2009 við Umhverfisefnafræðideild Stokkhólmsháskóla.

Ritgerðin fjallar í stórum dráttum um þrávirka lífræna mengun á Norðurlöndunum, t.d. PCB og skordýraeitrið DDT ásamt niðurbrotsefnum þeirra, sem mæld voru aðalega í langvíueggjum. Efnin voru mæld í eggjum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð til að fá landfræðilegan samanburð.

Niðurstöður sýna að lífríki Norður Atlantshafsins er minna mengað en lífríki Eystrasaltsins, en þó reyndust ýmiss mengandi efni vera í svipuðum styrk á þessum svæðum og þarf að rannsaka nánar af hverju það stafar. Flúoreruð alkanefni, sem koma m.a. úr útivistarfatnaði, hafa nýlega fundist í umtalsverðu magni í náttúrunni mældust í langvíueggjum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð og voru í einstaka tilfellum í hærri styrk í eggjum frá N-Atlantshafi en í Eystrasaltinu. Brómeruð eldvarnarefni, sem m.a. eru notuð í raftæki, voru allstaðar mælanleg og virðist vera hægt að greina mismunandi uppruna efnanna sem berast til Norður Atlantshafsins, annars vegar frá N-Ameríku og hins vegar frá Evrópu.

Einnig var gerður samanburður á magni mengandi efna í sjö íslenskum fuglategundum, þ.e. kríu, æðarfugli, langvíu, fýl, sílamáfi, svartbak og skúmi. Skúmurinn reyndist hafa umtalsvert háan styrk mengandi efna, m.a. PCB sambanda og skordýraeitursins DDT, og er mikilvægt að rannsaka heilsuástand skúmsins.

Ljóst er að hluti þeirrar mengunar sem mælist í íslensku lífríki berst með haf- og loftstraumum til Íslands en hins vegar er umtalsverður hluti tilkominn vegna notkunar Íslendinga á varningi sem inniheldur margvísleg mengandi efni.

Leiðbeinendur voru dr. Åke Bergman prófessor í umhverfisefnafræði við Háskólann í Stokkhólmi, dr. Anders Bignert prófessor, Náttúrugripasafn Svíþjóðar og dr. Mats Olsson prófessor emeritus. Andmælandi var Dr. Derek Muir, Environment Canada.

Prófnefndina skipuðu þau dr. Kristín Ólafsdóttir, dósent við Háskóli Íslands, dr. Björn Brunström, prófessor við Háskóla Uppsala og dr. Conny Östman, dósent við Háskóla Stokkhólms.

Frekari upplýsingar veitir Hrönn, hronn.o.jorundsdottir@matis.is.

Fréttir

Málþing MARIFUNC á Íslandi 19. mars nk

Þann 19. mars nk. á Hótel Hilton-Nordica mun 2. málþing MARIFUNC fara fram. Skipuleggjandi málþingsins er Matís.

Um er að ræða hálfs dags málþing þar sem farið verður yfir þau vísindalegu gögn sem til eru um sjávarfang og heilsu, notkun og gæði fitu úr sjávarfangi og próteina úr sjávarfangi til framleiðslu á markfæði (functional foods) og hver viðbrögð neytenda eru við markfæði úr sjávarfangi.

Dagskrá málþingsins:

Hvað: 2 málþing Marifunc verkefnisins um Sjávarfang og heilsusamleg efni – Hver er staða mála gagnvart neytendum og fyrirtækjum?’
Hvenær: 19. mars 2009, 8.30 – 12.45
Hvar:  Hótel Hilton-Nordica. Suðurlandsbraut 2, Reykjavík.  Fundarsalur  E.

Skráning: senda þarf tölvupóst á Marifunc.registration@matis.is. Fram þarf að koma nafn þátttakanda, netfang og hvaðan þáttakandinn er (borg/land). Einnig er hægt að skrá sig á staðnum. Aðgangur er ókeypis.
Skráningarfrestur: þriðjudagur 17. mars.

Bakgrunnur málþingsins:
Á málþinginu verður farið yfir rannsóknir um áhrif sjávarfangs og efnisþátta í sjávarfangi á heilsu.  Einnig verður fjallað um notkun og gæði feitmetis og próteina sem notuð eru sem efnisþættir í fæðubótarefni og markfæði.  Erindin á málþinginu byggja að niðurstöðum verkefnisins Nordic Network for Marine Functional Food (MARIFUNC)  á vegum Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Málþingið er skipulagt af Matís ohf. (www.matis.is) og Rannsóknastofu í næringarfræði (www.rin.hi.is).

Dagskrá (öll erindi verða á ensku):8.30 Skráning og kaffi
9.00  Opnun og kynning. Sjöfn Sigurgísladóttir,  forstjóri Matís ohf., Ísland.
9.10  Kynning á  MARIFUNC. Joop Luten, Coordinator MARIFUNC, Nofima Marine, Noregur.
9.25 Sjávarfang og heilsa- Hvað er  að frétta ? Alfons RamelRannsóknastofu í næringarfræði, Háskóli Íslands, Landspítali.
10.25 Kaffihlé
10.45 Áskoranir við notkun  fitu úr sjávarfangi í markfæði og fæðubótarefni.  Nina Skall Nielsen , DTU Aqua, Danmörk
11.30 Fiskprótein og peptíðvörur- vinnsluaðferðir, gæði og vinnslueiginleikar. Guðjón Þorkelsson/ Hörður Kristinsson,  Matis ohf., Ísland.
12.15 1-2-3-4 Heilsa. Ola Eide, Olivita, Noregur.
12.35 Málþingslok

Hér er áhugaverður tengill um efni málþingsins.

Frekari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri, gudjon.thorkelsson@matis.is.

Fréttir

Matís á Framadögum 2009

Framadagar 2009 verða haldnir föstudaginn 20. febrúrar í húsakynnum Háskólabíós.

Vegna gífurlegra breytinga í íslensku atvinnulífi og efnahagsástandi má gera ráð fyrir met þáttöku meðal nemenda þetta árið. Eru Framadagar því kjörin vettvangur fyrir fyrirtæki til að ná til framtíðar starfskrafta þjóðarinnar með því að kynna sig og sína starfsemi og ná þannig fram ákveðnu forskoti á samkeppnis aðila í kappinu um hæfasta starfsfólkið.

Frekari upplýsingar má fá á www.framadagar.is og hjá Jóni Hauki Arnarsyni, jon.h.arnarson@matis.is eða Steinari B. Aðalbjörnssyni, steinar.b.adalbjornsson@matis.is.

Fréttir

Verkefnið „Bætibakteríur – hin hliðin“ var eitt þeirra verkefna sem tilnefnt var til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands árið 2009

Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2008 og var unnið af Hugrúnu Lísu Heimisdóttur, nemanda sem lokið hafði fyrsta ári í líftækni á auðlindasviði við Háskólann á Akureyri. Verkefni nemanda var hluti af stærra verkefni, “Bætibakteríur í lúðueldi”, sem unnið var í samstarfi Matís ohf., Háskólans á Akureyri, Fiskey hf og Háskólans á Hólum með styrk úr Tækniþróunarsjóði (2006-2008).

Markmið verkefnisins í heild sinni var að leita hugsanlegra bætibaktería í lúðueldi Fiskey hf. og sem síðan væri hægt að bæta út í umhverfið hjá lúðulirfum í þeim tilgangi að bæta vöxt og afkomu lirfanna.

Fyrstu vikurnar eru megin flöskuháls við eldi lúðu og annarra sjávarfiska en þá nærast lirfurnar á lifandi fóðurdýrum. Fóðurdýrunum fylgir mikill fjöldi baktería auk þess sem lirfurnar þurfa á þessu þroskastigi að reiða sig eingöngu á ósérhæfða ónæmissvörun. Mikill áhugi er því fyrir notkun bætibaktería í því markmiði að stjórna samsetningu bakteríuflóru í umhverfi og meltingarvegi lirfa og gera hana jákvæðari fyrir lirfurnar.

Meðhöndlun með blöndu þriggja tegunda hugsanlegra bætibaktería reyndist gefa marktækt betri afkomu lúðulirfa á fyrstu stigum eldisins og í verkefni nemandans var sjónum því beint að hinni hlið bætibakteríanna, þ.e. þeirri hlið sem snýr að þeim eiginleikum bakteríanna sem unnt er að rannsaka og mæla á rannsóknastofunni. Eitt af einkennum öflugra bætibaktería er að hamla vexti óæskilegra baktería og rannsakaði nemandi þessa og ýmsa aðra eiginleika bakteríanna. Einnig er mikilvægt að leita hagkvæmra leiða til þess að framleiða bakteríurnar í miklu magni og geyma þær og flytja án þess að þær missi eiginleika sína. Frostþurrkun er hentug og æskileg leið til þess að geyma og flytja bakteríur og skoðaði nemandinn vöxt bakteríanna og vaxtarhamlandi áhrif þeirra í bæði ferskum og frostþurrkuðum ræktum.

Helstu niðurstöður verkefnisins sýndu að bætibakteríurnar höfðu hamlandi áhrif á vöxt ríkjandi baktería í hluta sýna en lítil sem engin áhrif á vöxt ríkjandi baktería í öðrum sýnum. Þetta gæti bent til þess að í hluta lirfa ríki bakteríuflóra sem náð hefur þar góðri fótfestu og því erfitt að hafa áhrif á vöxt bakteríanna. Því er mikilvægt að meðhöndla með bætibakteríum snemma í eldisferlinu til þess að æskilegar bakteríur nái þar fótfestu. Niðurstöður gáfu jafnframt vísbendingar um að bætibakteríustofnarnir þrír vaxi betur í návist hvors annars en einir og sér.

Því má segja að verkefni nemanda hafi varpað skýru ljósi á eiginleika bætibakteríanna og hentugustu aðferðir við framleiðslu þeirra til notkunar á fyrstu stigum lúðueldis.

Verkefnið var unnið undir leiðsögn Rannveigar Björnsdóttur lektors við HA og annarra sérfræðinga Matís ohf. á Akureyri. Nánari upplýsingar veitir Rannveig í síma 422-5108.

Fréttir

Stefnumót atvinnulífs og Þekkingarseturs – Matís tekur þátt

Þekkingarsetur Vestmannaeyja býður fulltrúum atvinnulífsins og almenningi á opinn vinnufund þann 9.febrúar kl.17.00 í Alþýðuhúsinu.

Markmiðið með fundinum er að kynna almenningi og fulltrúum atvinnulífsins í Vestmannaeyjum fyrir starfsemi Þekkingarseturs Vestmannaeyja. Jafnframt verða settir upp umræðuhópar þar sem ræddar verða hugmyndir að verkefnum og hvernig slíkar hugmyndir geta orðið að veruleika.

Dagskrá:
A. Kynning starfsmanna ÞSV á sinni stofnun eða fyrirtæki
1.       Þekkingarsetur Vestmannaeyja
2.       Rannsóknarþjónustan
3.       Matís
4.       Atvinnuþróunarfélagið

Stutt hlé

5.       Náttúrustofa
6.       Surtseyjarstofa
7.       Hafrannsóknastofnunin
8.       Viska
9.       Nýsköpunarmiðstöð Íslands

B.      Kaffihlé, veggspjöld og myndasýning

C.      Umræðuhópar – Styrkjum samfélagið með góðu samstarfi
Sjávarútvegur og atvinnumál
Náttúra og ferðamennska
Menntun

Þrír vinnuhópar þar sem starfsmenn ÞSV og fulltrúar úr atvinnulífinu stýra umræðum  í hverjum hóp fyrir sig og setja niður hugmyndir, markmið, tillögur o.s.frv. Öllum er frjálst að taka þátt í umræðuhópum.

Í lok fundar verður stutt samantekt kynnt úr hverjum umræðuhópi.

Fundi slitið.

Fréttir

Fræðaþing landbúnaðarins 2009 – Matís með erindi og fleira

Fræðaþing landbúnaðarins 2009 fer fram dagana 12. og 13. febrúar nk. í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar (fyrri dagur, f.h.) og í ráðstefnusölum á 2. hæð Hótel Sögu.

Á þinginu verður boðið upp á fjölbeytt erindi og munu starfsmenn Matís flytja allmörg þeirra og koma með önnur innlegg svosem eins og einblöðunga ofl.

Upplýsingar um fræðaþingið frá skipuleggjendum þess:

Fyrir hönd stofnana okkar boðum við til Fræðaþings landbúnaðarins 2009 sem haldið verður samkvæmt meðfylgjandi dagskrá dagana 12. og 13. febrúar nk. í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar (fyrri dagur, f.h.) og í ráðstefnusölum á 2. hæð Hótel Sögu.

Þátttakendum á Fræðaþinginu, sem gista vilja á Hótel Sögu eða Hótel Íslandi eru boðin eftirfarandi kjör:

Gisting með morgunverði:
Hótel Saga
Eins manns herbergi – kr. 8.000
Tveggja manna herbergi – kr. 9.000
Park Inn
Eins manns herbergi – kr. 7.000
Tveggja manna herbergi – kr. 8.000

Gistingu þarf að panta með góðum fyrirvara og geta þess að um Fræðaþing sé að ræða. Pantanasími er 525 9900.

Ráðstefnugjald er kr. 12.000 og er innifalið í því fundargögn og kaffi/te.

Ráðstefnuritið kostar kr. 4.000 í lausasölu. Fyrirlesarar og fundarstjórar eru undanþegnir gjaldinu. Drög að dagskrá fundarins fylgja.

Að þessu sinni gefst þátttakendum á Fræðaþinginu kostur á að kaupa hádegisverðbáða þingdagana á Hótel Sögu. Þátttakendur eru beðnir að skrá sig til hádegisverðar um leið og þeir skrá þátttöku á þingið.          

Vakin er athygli á að skráning fer fram á heimasíðunni http://www.bondi.is/ og einnig í húsi Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8, fimmtudaginn 12. febrúar kl. 8:15. Dagskráin byrjar stundvíslega kl. 9:00.

Dagskrá þingsins má finna á heimasíðunni http://www.bondi.is/  og verður hún uppfærð reglulega.

Fréttir

Frétt í Ægi – Af hverju borðar ungt fólk ekki meira af fiski?

Niðurstöður sem aflað var fyrir meistaraprófsritgerð Gunnþórunnar Einarsdóttur, starfsmanns Matís, á fiskneyslu ungs fólks voru fyrir stuttu birtar í tímaritinu Ægi.

Niðurstöður rannsóknar Gunnþórunnar sýndu í heild sinni að fiskneysla er undir viðmiðum og að þekking á fiski sé ekki góð. Virðist því vera þörf á aðgerðum til að fá ungt fólk til að borða meiri fisk.

Greinina í Ægi má í heild sinni sjá hér.

Fréttir

Mikill áhugi á námskeiðum Matís

Margeir Gissurarson, verkefnastjóri hjá Matís, hélt námskeið á Ísafirði nú fyrir stuttu. Námskeiðið snéri að rækjuvinnslum og var m.a. fjallað um hitun matvæla, skynmat og HACCP.

Námskeiðið fór fram við Fræðslusetur Vestfjarða dagana 15. og 16. jan. sl. Mikil og góð þátttaka var á námskeiðini og var mikil ánægja á meðal þáttakenda með hvernig til tókst.

Frekari upplýsingar um þetta námskeið og fleiri námskeið sem Matís býður upp á má finna á fræðsluvef Matís.

Fréttir

Marningskerfi

3X Technology á Ísafirði fékk á sl. ári styrk frá AVS sjóðnum til að þróa nýjan búnað til að vinna marning úr aukaafurðum. Megin áherslan er lögð á að ná fiskholdi af hryggjum án þess að marningurinn mengist blóði.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Matís ohf og Hraðfystihúsið Gunnvör hf og er markmið verkefnisins að vinna marning úr aukaafurðum svo sem hryggjum og öðrum afskurði sem til fellur við bolfiskvinnslu. Hannaður verður vélbúnaður sem tekur mið af því að hámarka bæði gæði og nýtingu hráefnisins.

Náðst hefur að framleiða ljósan marning með staðlað vatnsinnihald með því að þvo marningin í sérhannaðri þvottatromlu og til þess að minnka vatnsinnihaldið þá er marningurinn keyrður í gegnum marningspressu þar sem umfram vatnsmagn er pressað úr marningnum.

Á myndinni má sjá nýja tækið frá 3X Technology á ísafirði en það samanstendur af þvottatromlu og marningspressu. Verkefninu lýkur á þessu ári.

Fréttir

Matís leitar eftir starfskrafti

Matís ohf. óskar eftir að ráða matráð til að sjá um salatbar og súpu í hádeginu í starfstöð sinni að Gylfaflöt 5 í Grafarvogi. Auglýsing þess efnis birtist í Morgunblaðinu um helgina.

Um er að ræða 40% stöðu og vinnutíminn er frá 11 til 14.

Frekari upplýsingar:
Ragnar Jóhannsson í síma 422 5106 eða ragnar.johannsson@matis.is
Sigríður Hjörleifsdóttir í síma 422 5113 eða sigridur.hjorleifsdottir@matis.is

Umsóknir sendist á Jón H. Arnarson, mannauðsstjóra Matís, á póstfangið jon.h.arnarson@matis.is.

Smelltu hér til þess að sjá aulgýst störf hjá Matís og til þess að fylla út almenna atvinnuumsókn.

IS