Fréttir

Doktorsvörn í matvæla-og næringarfræðideild HÍ

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Doktorsvörn fer fram við Matvæla-og næringarfræðideild Háskóla Íslands, föstudaginn 8. maí kl. 13. Þá ver Hólmfríður Sveinsdóttir næringarfræðingur doktorsritgerð sína “Rannsóknir á breytileika próteintjáningar í þorsklirfum með aldri og sem viðbrögð við umhverfisþáttum”.

Andmælendur eru Dr. Albert Imsland, prófessor við Háskólann í Bergen í Noregi og Dr. Phillip Cash, rannsóknaprófessor við Háskólann í Aberdeen í Skotlandi. Leiðbeinandi í verkefninu var Dr. Ágústa Guðmundsdóttir. Dr. Inga Þórsdóttir, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal, Háskóla Íslands.

Ágrip af rannsókn
Rannsóknir sýna að unnt er að auka heilbrigði fisklirfa með ýmsum umhverfisþáttum eins og próteinmeltu og bætibakteríum. Í doktorsverkefninu voru próteinmengjagreiningar notaðar til að fylgjast með breytingum á próteinmengi þorsklirfa með auknum þroska og sem viðbrögð við próteinmeltu- og bætibakteríumeðhöndlun. Áhersla var lögð á greiningu meltingarensímsins trypsíns auk próteina sem tengja má við þroska og ósérhæft ónæmissvar. Niðurstöður rannsóknanna eru kynntar í 5 vísindagreinum og einum bókarkafla. Í ljós kom að trypsín er í lágmarki við upphaf fæðunáms en þá má ætla að mikil þörf sé á meltingu próteina.

Umtalsverðar breytingar urðu á magni og afbrigðum fjölda próteina í próteinmengi lirfanna með auknum þroska og sýndu keratín afbrigði mestar aldursháðar breytingar. Helstu prótein, sem greind voru í minna magni í próteinmengi þorsklirfa eftir meðhöndlun með bætibakteríum má tengja við ósérvirkt ónæmissvar. Meirihluti þeirra próteina sem greindust í auknu magni eftir meðhöndlun þorsklirfa með próteinmeltu má tengja við orkubúskap þeirra. Tvö trypsín afbrigði fundust í próteinmengi þorsklirfa. Enginn munur var á magni þessara tveggja trypsín afbrigða í þorsklirfum eftir meðhöndlun þeirra með bætibakteríum eða próteinmeltu.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður doktorsverkefnisins eru fyrsta skrefið í uppbyggingu á gagnabanka fyrir próteinmengi þorsklirfa. Þær hafa að geyma mikilvægar upplýsingar um breytileika próteina í próteinmengi þorsklirfa með auknum þroska og sem viðbrögð við breytingum á umhverfisþáttum. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við Raunvísindastofnun Háskólans. Aðrir samstarfsaðilar voru Háskólinn á Hólum, Hafrannsóknastofnun og Háskólinn í Aberdeen í Skotlandi. Leiðbeinandi doktorsverkefnisins var Dr. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor en auk hennar sátu í doktorsnefnd þau Dr. Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og aðjunkt við Læknadeild, Dr. Helgi Thorarensen, prófessor við Háskólann á Hólum og Dr. Oddur Þ. Vilhelmsson, dósent við Háskólann á Akureyri. Styrktaraðilar verkefnisins voru Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands, Rannís, AVS rannsóknarsjóðurinn, Rannsóknanámssjóður og Rannsóknarsjóður Háskóla Íslands.

Um doktorsefnið
Hólmfríður Sveinsdóttir er fædd þann 8. febrúar 1972 á Sauðárkróki. Hólmfríður lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðibraut Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra árið 1993. Árið 1995 hóf Hólmfríður nám í næringarfræði við Justus-Liebig háskólann í Giessen í Þýskalandi og lauk dipl. oec. troph gráðu í næringarfræði sem samsvarar meistaragráðu í næringarfræði árið 2001. Meistaraverkefni Hólmfríðar fjallaði um H+-ATPasa í maísplöntum. Hólmfríður er með löggildingu sem næringarfræðingur.

Hólmfríður hóf doktorsnám við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands árið 2002. Hún er dóttir hjónanna Sveins Rúnars Sigfússonar, verslunarmans og Heiðrúnar Friðriksdóttur, læknaritara. Hólmfríður er gift Stefáni Friðrikssyni dýralækni og saman eiga þau þrjú börn, Friðrik Þór, Herjólf Hrafn og Heiðrúnu Erlu.

Þess má svo geta í lokin að Hólmfríður mun hefja störf hjá Matís á Sauðárkróki í næstu viku. Er þetta enn eitt dæmið hvernig Matís stuðlar að því, með starfsemi sinni úti á landi, að þekking skili sér í heimabyggð.