Fréttir

Áríðandi orðsending til þátttakenda í neyslukönnun!

Eins og margir „góðkunningjar“ Matís vita, þá er nú í gangi könnun á viðhorfum til heilsufullyrðinga á matvælum þar sem um 2500 manns taka þátt. Vegna biluar í hugbúnaði er vefsíða, sem þátttakendur eiga að fara á til að svara spurningum, tímabundið óvirk, en vonast er til að vefsíðan verði komin í lag á næstu 1-2 dögum.

Um könnunina.
Sams konar könnun er gerð samtímis hjá neytendum á öllum Norðurlöndunum og er tilgangurinn að kanna hug neytenda til heilsufullyrðinga og hvernig þeir skilja mismunandi heilsufullyrðingar. Niðurstöður könnunarinnar munu verða kynntar hagsmunaaðilum í öllum löndunum, sem og matvælafyrirtækjum, neytendasamtökum og yfirvöldum.

Á döfinni er Evrópureglugerð um heilsufullyrðingar í matvælum og munu niðurstöður könnunarinnar verða nýttar til að hafa áhrif á innihald hennar.
Færst hefur í vöxt að matvæli sé merkt með svonefndum heilsufullyrðingum. Það geta verið fullyrðingar um næringarinnihaldi matvæla t.d. fitusnautt, kólesterólfrítt, hitaeiningasnautt og um áhrif neyslu einstakra matvæla á heilsu neytenda t.d. lækkar kólesteról, verndar tannheilsu o.s.frv.

Þátttakendur ATH! Vinsamlega sýnið þolinmæði og missið ekki móðinn vegna þessarar bilunar – Reynið aftur eftir 1-2 daga!

Fréttir

Síauknar kröfur gerðar um sjálfbærni

Síauknar kröfur eru um að seljendur sjávarafurða byggi veiðar á sjálfbærni, segir í grein Óla Kristjáns Ármannssonar í nýjasta Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins. Þar er rætt við Svein Margeirsson, deildarstjóra hjá Matís, sem segir að sjálfbærni kunna að vera aðgöngumiða að dýrari verslunarkeðjum erlendis. Þetta skipti ekki síst máli fyrir sjávarútveg þegar mögulegur samdráttur í þorskveiðum standi fyrir dyrum.

Ráðstefna um sjálfbærni í sjávar­útvegi fer fram á Sauðár­króki þann 14. júní. Hún er hluti af vestnorrænu verkefni sem nefnist „Sustainable Food Information“ og hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegs­fyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni í veiðum, vinnslu og sölu. Matvælarannsóknir Íslands (Matís) annast skipulagningu ráðstefnunnar, segir í grein Markaðarsins.

Sjalfbaerni

„Þar á bæ segja menn sjálfbærni vera orðið einkar mikilvægt hugtak í sjávarútvegi í ljósi sívaxandi krafna seljenda, verslanakeðja og neytenda um að ekki sé gengið á auðlindir hafsins og að mengun við veiðar, vinnslu og flutning á sjávarafurðum sé haldið í lágmarki. Til þess að sýna fram á sjálfbærnina þarf hins vegar að vera hægt að rekja ferlið sem á sér stað í matvælaiðnaðinum,“ segir í grein Markaðarins.

Íslendingar standa framarlega

Sveinn Margeirsson, deildarstjóri á sviði sem kallast ný tækni og markaðir hjá Matís ohf., segir margt gott hafa verið unnið í þeim efnum hér á landi. „Við stöndum í raun frábærlega í rekjanleika hér,“ segir hann, en með því að hægt sé að rekja ferlið fást nákvæmar upplýsingar um vöruna. Seljendur sem búa yfir „gæðaafurð“ eru sagðir geta aðgreint sig betur frá öðrum á markaði.“

Fiskborð

Þá segir Sveinn: „Þetta snýst í fyrsta lagi um að neytandinn geti vitað hvaðan varan kemur, en það er sá þáttur sem flestir þekkja, og í öðru lagi um að hægt sé að rekja nákvæmlega hvaða leið varan fór. Ef tekið er dæmi um lambakjöt lægi leiðin frá bónda til neytanda í gegnum slátrun, kjötvinnslu, dreifingu og verslun.“ Sveinn segir Íslendinga almennt standa framarlega í matvælaiðnaði hvað rekjanleika varðar „og mjög framarlega í sjávarútvegi á alþjóðlega vísu“.

Fréttir

Matís svarar kalli Tesco um koldíoxíðmerkingar

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) vinnur að verkefni sem munu nýtast íslenskum útflytjendum við að koma til móts við kröfur Tesco um koldíoxíðmerkingar matvæla.

Tesco, sem er ein stærsta verslanakeðja Bretlands, hyggst koldíoxíðmerkja allar vörur sem seldar eru í verslunum keðjunnar í þeim tilgangi að gera neytendum kleift að afla sér upplýsinga um hversu mikil koldíoxíðlosun hafi fylgt framleiðslu vörunnar, flutningi hennar í verslunina og sölu. Um er að ræða áætlun Tesco er miðar að því að bregðast við loftslagsbreytingum.

Fiskur2

Sveinn Margeirsson, deildarstjóri hjá Matís, segir umræðu um koldíoxíðmerkingu matvæla vera hluta af umræðu um sjálfbæra þróun. ,,Matís stýrir vestnorrænu verkefni sem nefnist “Sustainable Food Information” sem hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegsfyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni í veiðum, vinnslu og sölu. Þátttakendur í verkefninu munu funda hér á landi þann 14. júní næstkomandi með íslenskum og færeyskum sjávarútvegsfyrirtækjum, þar sem umfjöllunarefnið eru þau sóknarfæri sem felast í sjálfbærri þróun fyrir íslenskan sjávarútveg.”

Sjálfbær þróun mikilvæg fyrir íslenskan matvælaiðnað

matur

“Seljendur og neytendur gera kröfu um að hægt sé að sýna fram á að framleiðsla sjávarafurða sé með þeim hætti að ekki sé gengið á fiskistofna eða að mikil losun koldíoxíðs (CO2) fylgi framleiðslunni. Áætlun Tesco er einfaldlega eitt dæmi af mörgum sem sýnir hver þróunin er í þessum málum. Það er mín skoðun að sjálfbær þróun verði eitt af lykilmálunum fyrir íslenskan matvælaiðnað í framtíðinni, enda eru fleiri verkefni á þessu sviði í burðarliðnum hjá okkur.”

Sveinn segir að í þessu sambandi skipti miklu máli að geta sýnt fram á hvernig varan hefur farið í gegnum virðiskeðjuna því annars sé ekki hægt að segja til um hversu mikið “lífsferill” vörunnar hafi aukið magn koldíoxíðs í andrúmslofti.

“Það er ekki nóg að einblína á einn hlekk í virðiskeðjunni. Í Bretlandi er í dag talsverð umræða um losun koldíoxíðs vegna flutnings lífrænt ræktaðra ávaxta frá fjarlægum heimshornum. Eru umhverfisleg áhrif slíkra matvæla jákvæð eða neikvæð? Ein leiðin til að bera saman matvæli hvað þetta varðar er svokölluð vistferilgreining (LCA). Til þess að geta beitt henni er nauðsynlegt að geta rakið leið vörunnar í gegnum virðiskeðjuna, en þar standa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vel að vígi. Einn af hagnýtingarmöguleikum þessarar sterku stöðu er að geta sýnt fram á hver losun koldíoxíðs er í tengslum við framleiðslu afurðanna.”

Fréttir

Mikill áhugi á vinnufundi um sjálfbærni

Mikill áhugi er fyrir alþjóðlegum vinnufundi um sjálfbærni í sjávarútvegi, sem fram fer á Sauðárkróki þann 14. júní næstkomandi. Um 20 manns frá fyrirtækjum í Færeyjum eru væntanlegir til landsins í tengslum við vinnufundinn. Vinnufundurinn er hluti af vestnorrænu verkefni sem nefnist “Sustainable Food Information” sem hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegsfyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni í veiðum, vinnslu og sölu.

Neytendur erlendis gera sívaxandi kröfur um að seljendur sjávarafurða byggi veiðar sínar á sjálfbærni; að ekki sé gengið á auðlindir hafsins og að mengun við veiðar, vinnslu og flutning sjávarafurða sé haldið í lágmarki. Vörur sem byggja á sjálfbærni skipta því miklu máli fyrir framleiðendur til framtíðar því þær eru aðgöngumiði að hágæða- eða dýrum verslunarkeðjum erlendis.

sjalfbaerni

Þá er mikil áhersla lögð á rekjanleika í umræðu um sjálfbærni í fiskiðnaði. Með rekjanleika fást nákvæmar upplýsingar um vöruna og geta seljendur sem búa yfir gæ ðaafurð aðgreint sig betur frá öðrum á markaði. Rekjanleiki er þar af leiðandi mikilvægur hlekkur í umhverfismerkingum sjávarafurða.

Nánar um vinnufundinn hér.

Fréttir

Lyktað af misgömlum fiski – Matís á Hátíð hafsins

Fjölmenni hefur lagt leið sína á Hátíð hafsins á miðbakknum í Reykjavík um helgina. Þar kynna fyrirtæki og stofnanir starfsemi og þjónustu sína fyrir gestum. Meðal þess sem í boði er á miðbakkanum er svokallað skynmat hjá Matís (Matvælarannsóknir Íslands) þar sem gestum gefst tækifæri á því að giska á lykt úr lyktarglösum og skoða mismunandi gamlan fisk, annars vegar nýjan og svo hins vegar nokkurra daga gamlan, með tilliti til ferskleika, áferðar og lyktar.

Skynmat er nauðsynlegur þáttur í gæðaeftirliti matvæla. Í skynmati eru skynfæri mannsins, þ.e. sjón-, lyktar-, bragð-, heyrnar- og snertiskyn notuð til að meta gæði matvæla. Skynmat er ekki eingöngu notað á matvæli heldur einnig í tenglsum við þróun á ilmvötnum, hreinlætisvörum og í bílaiðnaði svo dæmi séu tekin.

Hatid_hafsins_2

Hátíð hafsins lýkur síðdegis í dag, sunnudag.

Mynd: Gestir skoða misgamlan fisk á bás Matís á Hátíð hafsins.

Fréttir

Starfsmenn Lýsis hf í skynmati hjá Matís

Fyrir nokkrum dögum var lítill hópur starfsmanna frá Lýsi hf. á námskeiði í skynmati á Matís. Markmið námskeiðsins var að þjálfa starfsmennina í aðferðum við að gæðameta lýsi.

Á námskeiðinu var m.a. fjallað um skynmat, grunnbragðefni og skynmatsaðferðir og einnig fékk starfsfólkið verklega þjálfun í notkun aðferða við mat á þráalykt og -bragði af lýsi.
Skynmat er kerfisbundið mat á lykt, bragði, útliti og áferð matvæla.

Skynmat er nauðsynlegur þáttur í gæðaeftirliti. Í skynmati eru skynfæri mannsins, þ.e. sjón-, lyktar-, bragð-, heyrnar- og snertiskyn notuð til að meta gæði matvæla. Skynmat í íslenskum matvælaiðnaði hefur um langt skeið verið stundað á skipulagðan hátt, einkum sem þáttur í gæðaeftirliti.

Matís hefur í mörg ár aðstoðað fyrirtæki við að koma sér upp skynmati, veitt ráðgjöf í skynmati og framkvæmt geymsluþolsrannsóknir í þeim tilfellum þar sem skynmat er mjög veigamikill þáttur.

Starfsfólk Lýsis í skynmati hjá Matís

Þeim fyrirtækjum sem áhuga hafa á að nýta sér þessa þjónust Matís er bent á að hafa samband við Emilíu Marteinsdóttur í síma: 422 5032 eða í netfangið emilia.martinsdottir@matis.is

Fréttir

Fundur í EuroFIR verkefninu

Ísland er aðili að evrópsku öndvegisneti (Network of Excellence) um efnainnihald matvæla og leiðir til að miðla upplýsingunum með gagnagrunnum og interetinu. Verkefnið gengur undir heitinu EuroFIR og heyrir undir 6. rammaáætlun ESB. Matís stýrir íslenska hluta verkefnisins og nú stendur yfir tveggja daga fundur í verkefninu, sem haldinn er í húsakynnum Matís á Skúlagötu 4. Á fundinum er fjallað um lífvirk efni í matvælum, en unnið er að sérstökum evrópskum gagnagrunni um þessi efni.

Hannes Hafsteinsson, verkefnastjóri á Matís, sér um þennan þátt verkefnisins og stendur fyrir fundinum.

Fundur á Matís í EuroFIR-verkefninu 25. maí 2007

Verkefið EuroFIR (European Food Information Resource Network) hófst 2005 og lýkur árið 2009 og þátttakendur eru 40 stofnanir frá 21 Evrópulandi, en yfirumsjón verkefnisins er hjá Institute of Food Research í Norwich í Bretlandi. Markmið verkefnisins er að byggja heilsteyptan og aðgengilegan gagnagrunn um innihaldsefni evrópskra matvæla, m.t.t. næringargildis þeirra og nýlegra lífvirkra efna sem kunna að hafa heilsubætandi áhrif.

EuroFIR fundur 25. maí 2007
Matvælarannsóknir Keldnaholti (Matra) var upphaflega íslenski þátttakandinn og hefur Matís nú tekið við þessu hlutverki. Byggt var upp samstarfsnet hér á landi vegna verkefnisins með þátttöku Rf (nú Matís), Rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands, Lýðheilsustöðvar, Umhverfisstofnunar og Hugsjár ehf. Ólafur Reykdal, Matís, er verkefnisstjóri íslenska hlutans.

Nokkur af markmiðum EuroFIR verkefnisins eru:

Samræming evrópskra gagnagrunna um efnainnihald matvæla.
Netvæðing gagna.
Aukin gæði gagnanna og Evrópa verði í forystu í heiminum á þessu sviði.

Mikilvægi verkefnisins fyrir Íslendinga felst meðal annars í eftirfarandi þáttum:

Verkefnið styrkir Íslendinga faglega með beinum samanburði við það sem er gert erlendis.
Auknar kröfur verða gerðar til gagna um efnainnihald matvæla og það kemur notendum til góða (neytendum, atvinnuvegum, rannsóknafólki, skólum o.fl.). Vinna við matarhefðir og lífvirk efni getur varpað ljósi á sérstöðu íslenskra matvæla. Tengsl við erlenda vísindamenn og stofnanir er mikilvæg.
Verkefnið er gott dæmi um það að innlendir aðilar verða að leggja saman krafta sína til að þátttaka í stórum erlendum verkefnum gangi upp.

Ísland tekur þátt í vinnu við sex undirverkefni EuroFIR verkefnisins:

1.      Þróun, samhæfing og netvæðing gagnagrunna um efnainnihald matvæla.

2.      Aðferðir til að meta samsetningu unninna matvæla.

3.      Samsetning og framleiðsla hefðbundinna matvæla

4.      Mat á gögnum um lífvirk efni.

Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) var lykilatriði þegar unnið var að því að komast inn í verkefnið. Uppbygging gagnagrunnsins hófst hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins 1987 en hann nú vistaður hjá Matís.

Nánari upplýsingar um EuroFIR- verkefnið veita Ólafur Reykdal og Hannes Hafsteinsson.Vefsíða EuroFIR

Fréttir

Nýjar aðferðir í saltfiskverkun efla markaðsstöðu

Saltfiskverkun hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Slík verkun byggðist áður á einfaldri stæðusöltun en nýjar aðferðir við verkun hafa skilað framleiðendum allt að því 15% aukningu í heildarnýtingu, segir í grein Krístinar Þórarinsdóttur og Sigurjóns Arasonar hjá Matís (Matvælarannsóknir Íslands).

Það var aldamótaárið 1800 sem Íslendingar sendu í fyrsta skipti út saltfiskfarm á eigin vegum. Upp frá því jókst saltfiskverkun Íslendinga smátt og smátt og í upphafi 21. aldarinnar er saltfiskur ennþá mikilvæg útflutningsvara þó að nýjar og breyttar geymsluaðferðir hafi litið dagsins ljós í millitíðinni.

Saltfiskur á markaði á Spáni.

Í því sambandi má nefna að heildarverðmæti saltfisks var 17,3 milljarðar eða um 16,5% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2006. Blautverkaður saltfiskur úr þorski skilaði mestu útflutningsverðmæti, sem nam 11,4 milljörðum króna. Framleiðsluverðmæti saltaðra og hertra afurða um jókst um 17,5% og magn um 1,4%.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.

Fréttir

Sjálfbær sjávarútvegur

Vinnufundur íslenskra og færeyskra aðila um sjálfbærni í sjávarútvegi fer fram á Sauðárkróki þann 14. júní. Fundurinn er hluti af vestnorrænu verkefni sem nefnist „Sustainable Food Information“ sem hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegsfyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni í veiðum, vinnslu og sölu.

Matvælarannsóknir Íslands (Matís) annast skipulagningu fundarins, sem er eingöngu ætluð aðilum í sjávarútvegi.

Sjálfbærni er orðið einkar mikilvægt hugtak í sjávarútvegi í ljósi sívaxandi krafna seljenda, verslunarkeðja og neytenda um að ekki sé gengið á auðlindir hafsins. Þá er mikil áhersla lögð á rekjanleika í umræðu um sjálfbærni í fiskiðnaði. Með rekjanleika fást nákvæmar upplýsingar um vöruna og geta seljendur sem búa yfir gæðaafurð aðgreint sig betur frá öðrum á markaði.

Rekjanleiki er þar af leiðandi mikilvægur hlekkur í umhverfismerkingum
sjávarafurða. Nánar um ráðstefnuna hér.

IMG_0391

Vinnufundurinn fer fram í Verinu Vísindagörðum á Sauðárkróki.

Fréttir

Nýjar rannsóknir sýna enn og aftur fram á öryggi íslensks fisks

Í nýrri Matísskýrslu, sem nefnist Verðmæti og öryggi íslenskra sjávarafurða. Áhættusamsetning og áhætturöðun er fjallað um grunnvinnu að áhættumati fyrir þorsk, rækju, karfa, ýsu, grálúðu, síld, ufsa og kúfisk. Þessar tegundir voru kortlagðar m.t.t. hugsanlegrar áhættu varðandi neyslu þeirra og fékkst þannig fram áhættusamsetning þeirra og hálf-magnbundið áhættumat framkvæmt á þeim.

Við áhættumatið var notað reiknilíkan sem þróað hefur verið í Ástralíu og nefnist Risk Ranger. Við áhættumatið voru notuð gögn um neysluvenjur (skammtastærðir, tíðni o. fl.), og einnig tíðni og orsakir fæðuborinna sjúkdóma. Þannig var reiknuð út áhætta tengd neyslu þessara sjávarafurða, miðað við ákveðnar forsendur.

Áreiðanleiki áhættumats er háð þeim gögnum og upplýsingum sem notuð eru við framkvæmd þess. Samkvæmt fyrirliggjandi mæligögnum og gefnum forsendum raðast ofangreindar sjávarafurðir í lægsta áhættuflokk (stig <32) – sem þýðir lítil áhætta, miðað við heilbrigða einstaklinga.

Á alþjóðlegum matvælamörkuðum hafa íslenskar sjávarafurðir á sér gott orðspor hvað varðar heilnæmi og öryggi. Þar sem áhyggjur vegna öryggis matvæla hafa aukist víða um heim á undanförnum árum er hins vegar nauðsynlegt fyrir Íslendinga að viðhalda þessu góða orðspori með vönduðum rannsóknum.

Lesa skýrslu

IS