Fréttir

Minni notkun próteins í fóðri – aukin arðsemi í þorskeldi?

Nýlega lauk verkefninu Próteinþörf þorsks þar sem leitað var leiða til að draga úr kostnaði við þorskeldi og gera þessa ungu atvinnugrein þ.a.l. arðbærari. Fóðurkostnaður er 40-60% af heildarframleiðslukostnaði í eldinu og því beindist athyglin að því hvort og hvernig hægt væri að minnka hann. Í nýrri Rf skýrslu er greint frá niðurstöðum þessarar rannsóknar.

Mikið hefur verið fjallað um meint bágborið ástand villtra fiskistofna að undanförnu og í tímaritinu Science birtist nýlega skýrsla þar sem spáð var hruni allra fiskistofna heims fyrir miðja þessa öld.  Reyndar voru ekki allir tilbúnir að taka undir þessa bölsýnu spá, þeirra á meðal forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.

Burtséð frá þessum deilum er því spáð að fiskeldi, ekki síst eldi sjávartegunda eins og þorsks muni vaxa gríðarlega á næstu árum og áratugum.  Íslendingar hafa fylgst vel með þessari þróun, líkt og margar þjóðir við N-Atlantshaf og þorskeldi er nú þegar hafið á nokkrum stöðum hér á landi. 

Sem fyrr segir er fóðurkostnaður á milli 40-60% af heildarframleiðslukostnaði í eldinu og til að hægt sé að auka arðsemi í þessari atvinnugrein er ljóst að þar er vænlegast að finna leiðir til að draga úr kostnaði.  Prótein er dýrasta næringarefnið í fóðri fyrir fisk og þ.a.l. mjög mikilvægt að lámarka innihald þess þannig að það fari fyrst og fremst til uppbyggingar á vöðum en ekki til orkunotkunar, þar sem ódýrari næringarefni, svo sem fita, geta komið að svipuðum notum.

Í nýrri Rf skýrslu Protein requirements of farmed cod er m.a. greint frá rannsókn þar sem markmiðið var að finna kjörpróteininnihald fyrir tvo stærðarflokka af þorski, annars vegar 30-100g og hins vegar 300-500g þorsk.  Á meðal þess sem rannsóknirnar sýndu var  að þörf stærri þorsksins (300-500g) fyrir prótein var minni en það sem venjulega er notað í verksmiðjuframleiddu fóðri í dag.  Þarna er því hugsanlega að finna eina leið til að draga úr fóðurkostnaði án þess það komi niður á gæðum þorsksins.

Próteinþörf þorsks sem var tveggja ára verkefni, sem AVS sjóðnum styrkti. Verkefnið var hluti af stærra verkefni, Feed for Atlantic cod, sem styrkt var af Norræna Iðnþróunarsjóðnum okt 2003 – 2006. Íslenskir þátttakendur í verkefninu voru Rf, Fóðurverksmiðjan Laxá, Hólaskóli, SR mjöl, Háskólinn á Akureyri og Brim fiskeldi.

Fréttir

Vísindamaður á Rf hlaut heiðursverðlaun á alþjóðlegri ráðstefnu

Dr. Guðrún Ólafsdóttir, matvælafræðingur á Rf, hlaut á dögunum heiðursverðlaun sem kennd eru við Earl P. McFee. Verðlaunin voru afhent á hátíðardagskrá í tengslum við ráðstefnuna TAFT 2006, sem fram fór í Quebec City í Kanada dagana 29. okt. til 1. nóv.

Að ráðstefnunni stóðu WEFTA (West European Fish Technologists Association), sem eru samtök vísindamanna á sviði fiskiðnaðarrannsókna í V-Evrópu og AFTC (Atlantic Fisheries Technologists Conference), sem eru sambærileg samtök vísindamanna á austurströnd N-Ameríku og Kanada.

Gamall draumur margra vísindamanna rættist árið 2003 þegar haldin var hér á Íslandi ráðstefnan TAFT 2003 (Trans Atlantic Fisheries Technology Conference) þar sem margir af fremstu vísindamönnum Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada á sviði rannsókna á sjávarfangi og nýtingu þess komu saman í fyrsta skipti og báru saman bækur sínar. Rf sá um skipulagningu ráðstefnunnar 2003 og svo vel þótti takast til að þá þegar var byrjað að ræða um aðra TAFT ráðstefnu, sem haldin yrði Vestanhafs 2006 og varð Quebec City í Kanada fyrir valinu.

Verðlaunin eru kennd við Earl P. McFee, en hann var brautryðjandi um miðja síðustu öld varðandi brauðaðar afurðir úr frystum fiskblokkum og notkun í fiskborgara hjá McDonalds. AFTC samtökin stofnuðu The Earl P. McFee verðlaunin árið 1971 í þeim tilgangi að veita viðurkenningu þeim sem taldir væru verðskulda sérstakan heiður fyrir störf sín á sviði rannsókna og tækniþróunar í tengslum við vinnslu á fiski og sjávarafurðum og fyrir að stuðla að samskiptum vísindamanna, iðnaðar og stjórnvalda. Áherslan í dag er að styrkja frekar samvinnu AFTC og WEFTA og stefna að sameiginlegum ráðstefnum og rannsóknarsamvinnu á sviði sjávarfangs.

Margir heimsþekktir vísindamenn á þessu sviði hafa hlotið verðlaunin á undanförnum áratugum og nokkrir þeirra voru viðstaddir á TAFT 2006, má þar t.d. nefna Herb Hultin (University of Massachusetts, Amherst), Tom Gill (Dalhousie University, Halifax), Michael Morrissey (Oregon State University), Chong Lee (University of Rhode Island), Tyre C. Lanier og David Green (North Carolina State University), og Luc Leclerc (Aquatic Products Technology Centre, Ministère de l’Agriculture, des Pêcheries et de l’Alimentation, Québec, Canada), sem jafnframt var skipuleggjandi ráðstefnunnar ásamt Pierre Blier (Québec University, Rimouski). Torger Börresen hjá dönsku fiskrannsóknastofnunni DIFRES, sem hlaut verðlaunin 2003 afhenti verðlaunin að þessu sinni, en þau voru auk viðurkenningarinnar, lítil stytta gerð af kanadískum listamanni af inúítaættum.

McFee Verðlaunagripur

Fréttir

Unnið að gæðamálum fiskihafna á Sri lanka

Eins og greint var frá hér á vefnum fyrr á árinu, fóru tveir starfsmenn Rf til Sri Lanka í maí s.l. á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) til að gera úttekt á gæðamálum fiskihafna þar í landi og var tilgangurinn að útbúa námskeið til að koma þessum málum í betra horf. Í fréttabréfi ÞÞSÍ er greint frá því að nýlega hafi fyrsta námskeiðið verið haldið þar ytra.

Í frétt á Rf-vefnum þ. 5.júlí var sagt frá för þeirra Birnu Guðbjörnsdóttur og Sveins V. Árnasonar til Sri Lanka í maí, sem farin var til að kynnast aðstæðum og gera úttekt á þeim úrbótum sem mest lægi á að gera í gæðamálum hafna og fiskvinnslu á Sri Lanka. Afraksturinn af þeirri ferð var síðan námskeiðið sem nýlega var haldið ytra.

Að sögn Árna Helgasonar, umdæmisstjóra ÞSSÍ á Sri Lanka, er gæðarýrnun mikið vandamál í fiskiðnaði á Sri Lanka, en talið er að 30-40% af afla spillist frá því fiskur er veiddur þar til hann er kominn á borð neytenda. “Verðmætatap og minnkað næringargildi er mikið af þessum sökum,” segir Árni, í viðtali á vef ÞSSÍ.

Námskeiðið, sem Rf tók þátt í að útbúa, samanstendur af 16 fyrirlestrum um ýmsa þætti gæðamála fiskafurða og skipulag góðrar meðferðar á fiski á hafnarsvæðum. Námsefnið var gefið út á ensku, sinhala og tamíl, sem eru tungumálin sem töluð er á Sri lanka. Þá voru veggspjöld gerð á sinhala og tamíl og verða þau hengd upp á hafnarsvæðum og löndunarstöðvum til að kynna og minna á mikilvægi góðrar meðferðar á fiski.

Sjá nánar um námskeiðið á vef Hafrannsóknastofnunar Srl Lanka (NARA).

Fréttir

Erindi Sjafnar á Málþingi í morgun

Í morgun var haldið málþing Stofnunar stjórnsýslufræða við H.Í. og Félags forstöðumanna ríkisstofnana þar sem rætt var um kosti og galla hlutafélagaformsins í opinberri starfsemi og það borið saman við hefðbundið form opinbers rekstrar. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf og verðandi forstjóri Matís ohf var á meðal þeirra sem fluttu erindi á málþinginu.

Málþingið var haldið á Grand hótel Reykjavík og þau sem fluttu erindi voru Arnar Þór Másson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu og aðjúnkt við stjórnmálafræðiskor HÍ, Páll Magnússon útvarpsstjóri og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf og verðandi forstjóri Matís ohf.

Erindi Sjafnar bar yfirskriftina Hlutafélagavæðing opinberrar starfsemi kostir og gallar og hægt er að skoða glærur úr erindinu með því að smella hér.

Fréttir

Þjónustusvið Rf fær góða umsögn SWEDAC

Í gær fór fram árleg úttekt sænsku löggildingarstofunnar SWEDAC vegna faggildingar á þjónustumælingum á Rf. Þetta var í 10 skiptið sem slík úttekt er gerð á Rf og jafnframt í síðasta sinn því Rf sameinast tveimur öðrum stofnunum í Matís ohf um næstu áramót.

Að sögn Heiðu Pálmadóttur, deildarstjóra Þjónustusviðs Rf, hafa reglugerðir ESB kveðið á um það frá árinu 1994 að allar mælingar skuli framkvæmdar á faggildum prófunarstofum. Í árlegum heimsóknum fer SWEDAC (Styrelsen för ackreditering och tekninsk kontrol) m.a. yfir allt gæðakerfið til að sannreyna hvort það standist kröfur um faggildingu.  

Eftir áramót, þegar nýja fyrirtækið Matís ohf tekur til starfa verður að sækja um að nýju um faggildingu, enda verða þá sameinaðar tvær faggildar einingar.

Margareta Ottosson var yfirmatsmaður að þessu sinni og sá um úttekt á efnamælingum og Ann-Charlotte Steneryd tók út örverumælingar.

Þær stöllur voru ánægðar með starfsemina á Rf og veittu starfsfólki einnig gagnlegar upplýsingar  um það sem betur mætti fara, en það eru einmitt slíkar ábendingar sem hafa hjálpað starfsfólki Þjónustusviðs Rf til að vera í fremstu röð á sínu sviði á síðustu árum.

Fréttir

Fjallað um kosti fiskneyslu í leiðara New York Times

Í leiðara bandaríska stórblaðsins NYT í gær var fjallað um mat tveggja virtra stofnanna þar í landi um kosti og galla þess að borða fisk. Er skemmst frá því að segja að báðar stofnanir komast að því að kostirnir séu margfaldir á við hugsanlega áhættu.

Stofnanirnar sem um ræðir eru annars vegar Institute of Medicine of the National Academy of Sciences (IMNAS) og hins vegar Harvard School of Public Health (HSPH). Að mati þeirra vega kostir fiskneyslu miklu þyngra fyrir flesta en hugsanleg áhætta af völdum mengunar og örvera. Meira að segja “viðkvæmir” neytendur s.s. þungaðar konur og ung börn græði á aukinni fiskneyslu, ef þeir sneiði hjá varasömum tegundum.

Að mati sérfræðingahóps IMNAS felast jákvæð áhrif fiskneyslu m.a. í því að í fiski sé að finna hágæðaprótein, mörg vítamín og steinefni. Þeir benda á að þungaðar konur geti með fiskneyslu hugsanlega haft jákvæð áhrif á sjón og þróun heila barna sinna, en vara jafnframt við því að þessi hópur og ung börn borði stóra ránfiska eins og hákarl og sverðfisk.

Í leiðarnanum segir að sérfræðingar frá HSPH taki jafnvel enn dýpra í árina og fullyrði að jafnvel hófleg fiskneysla geti minnkað líkur á dauða af völdum kransæðastíflu um allt að 36%.  Leiðarahöfundur NYT tekur reyndar fram að talsverð óvissa ríki um hvort aukin fiskneysla geti komið í veg fyrir kransæðastíflur hjá þeim sem hafa fengið slíkt áður og að jafnframt sé óvíst hvort fiskneysla dragi úr líkum á sykursýki, ýmsum tegundum krabbameina og Alzheimersjúkdómi, líkt og sumar rannsóknir hafa áður bent til.

Leiðara NYT hvetur í lokin til þess að merkingar á sjávarafurðum verði bættar þannig að neytendur eigi auðveldara með að átta sig á því hvað fisktegundir þeir séu að kaupa í stórmörkuðum og hjá fisksölum.

Lesa leiðara NYT

Fréttir

Neytendakönnun á Rf byrjar vel

Eins og glöggir gestir Rf – síðunnar hafa væntanlega tekið eftir var nýlega óskað eftir fólki til að taka þátt í neytendakönnunum á þorski hér á Rf. Fyrri hluti könnunarinnar hófst í dag og munu alls um 100 manns taka þátt í henni í dag.

Þátttakendum er skipt í sex hópa og kom fyrsti hópurinn kl. 10 í morgun og sá síðasti mun koma kl. 8 í kvöld. Hver hópur mun smakka þrjú mismunandi sýni af þorski og svara spurningum í kjölfarið um þorsksýnin og síðan um fiskneyslu almennt.

Síðari hluti könnunarinnar felst í því að fólk fær afhentan þorsk sem það á að matreiða heima hjá sér, alls 6 sinnum yfir 6 vikna tímabil (alla þriðjudaga) frá 17. október til 21. nóvember. Hér var einkum óskað eftir þátttöku fjölskyldna, þar sem a.m.k tveir væru 18 ára eða eldri. 

Fólk lét ekki kuldann úti aftra sér frá því að koma niður á Skúlagötu 4 í morgun fá sér þorsk í morgunmat.

Fréttir

Lækkun þrifakostnaðar í fiskvinnslu

Nýlega lauk verkefni hér á Rf þar sem kannað var hvort mögulegt sé að nota minna af þvottaefnum við venjubundin þrif á fiskvinnslubúnaði, en með sama árangri. Lækkun á styrk þvottaefna getur þýtt fjárhagslega hagræðingu fyrir fiskvinnslufyrirtækin og ekki síst umhverfisvænni vinnubrögð.

Til að komast að þessu var sett upp tilraunaröð þar sem kannaðir voru nokkrir þættir í almennu þrifaferli en þeir voru: Gerð yfirborða (ryðfrítt stál og plast), hitastig skolvatns (8 eða 28°C), tvær gerðir þvottaefna og styrkur þvottaefna (2% og 4,5%).

Til að meta þessa þætti var notast við nýuppsetta þvottastöð á Rf sem gerir kleift að staðla þrifin betur en áður þekktist. Bakteríur úr sínu náttúrulega umhverfi (hökkuðum þorski) voru notaðar til að mynda bakteríuþekju á stál- og plastyfirborði. Bakteríutalningar voru notaðar til að meta áhrif þáttanna í þvottaferlinu. Niðurstöðurnar sýndu að á stályfirborði er mögulegt að nota lægri styrk þvottaefna en mælt er með og samt náð sambærilegum árangri (Mynd 1). Eins og sjá má þá ná þessir þvottaferlar að eyða öllum bakteríum á yfirborðinu, óháð hitastigi skolvatns og styrk þvottaefnis.

Hins vegar, þegar um plastyfirborð var að ræða, voru niðurstöðurnar ekki eins afdráttarlausar og þar var að jafnaði erfiðara að útrýma bakteríunum.

 AVS súlurit
Mynd 1. Dæmi um niðurstöður eftir þvottaferil á stályfirborði. 

Önnur hlið á þessu verkefni var greining á náttúrulegri bakteríuflóru í bakteríuþekjunni og samanburður á aðferðum sem byggjast á ræktun (Mynd 2) og aðferðum sem byggjast á mögnun erfðaefnisins með sameindalíffræðilegum aðferðum. Sýni voru tekin af stál- og plastyfirborðum úr hefðbundnum þvottaferlum fiskvinnsluhúsa.  Nokkuð sambærilegar niðurstöður fengust með hvorri aðferðinni fyrir sig.

 Bakteríur á járnagar
 Mynd 2. Bakteríuflóra ræktuð á járnagar.

Verkefnið var fjármagnað af AVS og af sjávarútvegsráðuneytinu.

Út er komin skýrsla í verkefninu sem nefnist Better washing practises in fish processing plants (Rf skýrsla 26 – 06) Lesa

Einnig er stefnt að því að birta niðurstöður verkefnisins í ritrýndu vísindariti.

Fréttir

Haustvertíð á Rf – margar nýjar skýrslur komnar út

Segja má að hálfgerð haustvertíð hafi verið í útgáfu skýrslna á Rf, en á síðustu tveimur vikum hefur verið lokið við níu Rf skýrslur, sem er óvenju mikið á svo stuttum tíma. Flestar þessara skýrslna eru opnar og aðgengilegar á vef Rf.

Í gamla daga var talað um að haustvertíð hæfist 29. sept. og stæði fram til jóla og þessi haustyrkja á Rf hófst einmitt um það leyti, en hvort þessi vertíð stendur fram að jólum verður tíminn að leiða í ljós. Ein skýring á þessari grósku í útgáfu gæti verið sú að um áramótin mun Rf sameinast tveimur öðrum stofnunum í fyrirtækinu Matís ohf og því er nú lagt allt kapp á að ljúka þeim verkefnum sem bundin eru Rf fyrir þann tíma.

Af þessum níu skýrslum sem nýkomnar eru út eru, sem fyrr segir, flestar opnar, en aðrar eru trúnaðarskýrslur, a.m.k. tímabundið. Ýmsar athyglisverðar niðurstöður eru birtar í skýrslunum og má þar nefna úttekt á möguleikum þess að vinna kolmunna í miklu verðmætari afurðir en nú er gert (skýrsla 25-06), í annarri er lýst tilraunum til þess að mæla yfirborðspennu Pseudomonas putida og Listeria monocytogenes, til þess að geta skýrt hvers vegna þessar bakteríur eru svo algengar í matvælaiðnaði (skýrsla 24-06), en um var að ræða sameiginlegt verkefni Rf og Iðntæknistofnunar.

Árið 2003 hófst, að frumkvæði sjávarútvegsráðuneytisins, vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum, bæði afurðum sem ætlaðar eru til manneldis sem og afurðum til lýsis- og mjöliðnaðar. Tilgangurinn með vöktuninni er að meta ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. magns aðskotaefna. Þriðja skýrslan úr þessu verkefni er nú komin út og nær hún yfir árið 2005 (skýrsla 22-06).

Vaxandi umræða er nú víða um hvaða reglur skuli gilda um merkingar á matvælum og er skemmst að minnast umræðu um erfðabreytt matvæli.  Fiskur og sjávarafurðir eru ekki undanskilin þessari umræðu og í skýrslu 21-06 er reynt að varpa ljósi á hvort viðbætt fiskprótein í fiskafurðir séu merkingarskyld.  Ennfremur var leitað upplýsinga um aðferðir sem nota má til að mæla viðbætt efni, s.s. fosfat, vatn og fiskprótein, í fiskafurðum.

Loks má nefna skýrslu þar sem fjallað er um flokkun örvera og tilraunir með notkun bætibaktería í fiskeldi, sem er e.k. forvarnarverkefni með það að markmiði að nota umhverfisvænar aðferðir til að auka afkomu lúðu- og þorsklirfa í eldi (18-06).

Þessar og aðrar opnar Rf skýrslur má finna með því að smella hér.

Fréttir

Rf óskar eftir þátttakendum í neytendakönnun á þorski

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) er að leita að fólki til að taka þátt í neytendakönnunum á þorski. Kannanirnar verða gerðar um miðjan október og standa fram í nóvember næstkomandi.

Um er að ræða tvær kannanir:

1) könnun sem fer fram á Rf fimmtudaginn 19. október og er þá óskað eftir fólki, 18 ára og eldri, til að koma til okkar á Skúlagötu 4 þann dag og smakka fisk Opna eyðublað

2) könnun þar sem fólk fær fisk með sér heim til matreiðslu alls 6 sinnum yfir 6 vikna tímabil (alla þriðjudaga) frá 17. október til 21. nóvember. Hér erum við að leita að fjölskyldum, þar sem a.m.k 2 eru 18 ára eða eldri. Opna eyðublað

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni eru vinsamlega beðnir um að smella á viðkomandi slóð hér fyrir ofan og fylla út það skjal eyðublað sem tilheyrir þeirri könnun sem þeir hafa áhuga á að taka þátt í og senda á:  fisk@rf.is  (ATH! aðeins er hægt að vera þátttakandi í einni könnun)

Þátttakendur fá þakklætisvott fyrir þátttökuna

Frekari upplýsingar í síma: 530 8665 / 530 8666 / 530 8667

IS