Fréttir

Lækkun þrifakostnaðar í fiskvinnslu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega lauk verkefni hér á Rf þar sem kannað var hvort mögulegt sé að nota minna af þvottaefnum við venjubundin þrif á fiskvinnslubúnaði, en með sama árangri. Lækkun á styrk þvottaefna getur þýtt fjárhagslega hagræðingu fyrir fiskvinnslufyrirtækin og ekki síst umhverfisvænni vinnubrögð.

Til að komast að þessu var sett upp tilraunaröð þar sem kannaðir voru nokkrir þættir í almennu þrifaferli en þeir voru: Gerð yfirborða (ryðfrítt stál og plast), hitastig skolvatns (8 eða 28°C), tvær gerðir þvottaefna og styrkur þvottaefna (2% og 4,5%).

Til að meta þessa þætti var notast við nýuppsetta þvottastöð á Rf sem gerir kleift að staðla þrifin betur en áður þekktist. Bakteríur úr sínu náttúrulega umhverfi (hökkuðum þorski) voru notaðar til að mynda bakteríuþekju á stál- og plastyfirborði. Bakteríutalningar voru notaðar til að meta áhrif þáttanna í þvottaferlinu. Niðurstöðurnar sýndu að á stályfirborði er mögulegt að nota lægri styrk þvottaefna en mælt er með og samt náð sambærilegum árangri (Mynd 1). Eins og sjá má þá ná þessir þvottaferlar að eyða öllum bakteríum á yfirborðinu, óháð hitastigi skolvatns og styrk þvottaefnis.

Hins vegar, þegar um plastyfirborð var að ræða, voru niðurstöðurnar ekki eins afdráttarlausar og þar var að jafnaði erfiðara að útrýma bakteríunum.

 AVS súlurit
Mynd 1. Dæmi um niðurstöður eftir þvottaferil á stályfirborði. 

Önnur hlið á þessu verkefni var greining á náttúrulegri bakteríuflóru í bakteríuþekjunni og samanburður á aðferðum sem byggjast á ræktun (Mynd 2) og aðferðum sem byggjast á mögnun erfðaefnisins með sameindalíffræðilegum aðferðum. Sýni voru tekin af stál- og plastyfirborðum úr hefðbundnum þvottaferlum fiskvinnsluhúsa.  Nokkuð sambærilegar niðurstöður fengust með hvorri aðferðinni fyrir sig.

 Bakteríur á járnagar
 Mynd 2. Bakteríuflóra ræktuð á járnagar.

Verkefnið var fjármagnað af AVS og af sjávarútvegsráðuneytinu.

Út er komin skýrsla í verkefninu sem nefnist Better washing practises in fish processing plants (Rf skýrsla 26 – 06) Lesa

Einnig er stefnt að því að birta niðurstöður verkefnisins í ritrýndu vísindariti.

IS