Fréttir

Haustvertíð á Rf – margar nýjar skýrslur komnar út

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Segja má að hálfgerð haustvertíð hafi verið í útgáfu skýrslna á Rf, en á síðustu tveimur vikum hefur verið lokið við níu Rf skýrslur, sem er óvenju mikið á svo stuttum tíma. Flestar þessara skýrslna eru opnar og aðgengilegar á vef Rf.

Í gamla daga var talað um að haustvertíð hæfist 29. sept. og stæði fram til jóla og þessi haustyrkja á Rf hófst einmitt um það leyti, en hvort þessi vertíð stendur fram að jólum verður tíminn að leiða í ljós. Ein skýring á þessari grósku í útgáfu gæti verið sú að um áramótin mun Rf sameinast tveimur öðrum stofnunum í fyrirtækinu Matís ohf og því er nú lagt allt kapp á að ljúka þeim verkefnum sem bundin eru Rf fyrir þann tíma.

Af þessum níu skýrslum sem nýkomnar eru út eru, sem fyrr segir, flestar opnar, en aðrar eru trúnaðarskýrslur, a.m.k. tímabundið. Ýmsar athyglisverðar niðurstöður eru birtar í skýrslunum og má þar nefna úttekt á möguleikum þess að vinna kolmunna í miklu verðmætari afurðir en nú er gert (skýrsla 25-06), í annarri er lýst tilraunum til þess að mæla yfirborðspennu Pseudomonas putida og Listeria monocytogenes, til þess að geta skýrt hvers vegna þessar bakteríur eru svo algengar í matvælaiðnaði (skýrsla 24-06), en um var að ræða sameiginlegt verkefni Rf og Iðntæknistofnunar.

Árið 2003 hófst, að frumkvæði sjávarútvegsráðuneytisins, vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum, bæði afurðum sem ætlaðar eru til manneldis sem og afurðum til lýsis- og mjöliðnaðar. Tilgangurinn með vöktuninni er að meta ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. magns aðskotaefna. Þriðja skýrslan úr þessu verkefni er nú komin út og nær hún yfir árið 2005 (skýrsla 22-06).

Vaxandi umræða er nú víða um hvaða reglur skuli gilda um merkingar á matvælum og er skemmst að minnast umræðu um erfðabreytt matvæli.  Fiskur og sjávarafurðir eru ekki undanskilin þessari umræðu og í skýrslu 21-06 er reynt að varpa ljósi á hvort viðbætt fiskprótein í fiskafurðir séu merkingarskyld.  Ennfremur var leitað upplýsinga um aðferðir sem nota má til að mæla viðbætt efni, s.s. fosfat, vatn og fiskprótein, í fiskafurðum.

Loks má nefna skýrslu þar sem fjallað er um flokkun örvera og tilraunir með notkun bætibaktería í fiskeldi, sem er e.k. forvarnarverkefni með það að markmiði að nota umhverfisvænar aðferðir til að auka afkomu lúðu- og þorsklirfa í eldi (18-06).

Þessar og aðrar opnar Rf skýrslur má finna með því að smella hér.

IS