Fréttir

Vísindamaður á Rf hlaut heiðursverðlaun á alþjóðlegri ráðstefnu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Dr. Guðrún Ólafsdóttir, matvælafræðingur á Rf, hlaut á dögunum heiðursverðlaun sem kennd eru við Earl P. McFee. Verðlaunin voru afhent á hátíðardagskrá í tengslum við ráðstefnuna TAFT 2006, sem fram fór í Quebec City í Kanada dagana 29. okt. til 1. nóv.

Að ráðstefnunni stóðu WEFTA (West European Fish Technologists Association), sem eru samtök vísindamanna á sviði fiskiðnaðarrannsókna í V-Evrópu og AFTC (Atlantic Fisheries Technologists Conference), sem eru sambærileg samtök vísindamanna á austurströnd N-Ameríku og Kanada.

Gamall draumur margra vísindamanna rættist árið 2003 þegar haldin var hér á Íslandi ráðstefnan TAFT 2003 (Trans Atlantic Fisheries Technology Conference) þar sem margir af fremstu vísindamönnum Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada á sviði rannsókna á sjávarfangi og nýtingu þess komu saman í fyrsta skipti og báru saman bækur sínar. Rf sá um skipulagningu ráðstefnunnar 2003 og svo vel þótti takast til að þá þegar var byrjað að ræða um aðra TAFT ráðstefnu, sem haldin yrði Vestanhafs 2006 og varð Quebec City í Kanada fyrir valinu.

Verðlaunin eru kennd við Earl P. McFee, en hann var brautryðjandi um miðja síðustu öld varðandi brauðaðar afurðir úr frystum fiskblokkum og notkun í fiskborgara hjá McDonalds. AFTC samtökin stofnuðu The Earl P. McFee verðlaunin árið 1971 í þeim tilgangi að veita viðurkenningu þeim sem taldir væru verðskulda sérstakan heiður fyrir störf sín á sviði rannsókna og tækniþróunar í tengslum við vinnslu á fiski og sjávarafurðum og fyrir að stuðla að samskiptum vísindamanna, iðnaðar og stjórnvalda. Áherslan í dag er að styrkja frekar samvinnu AFTC og WEFTA og stefna að sameiginlegum ráðstefnum og rannsóknarsamvinnu á sviði sjávarfangs.

Margir heimsþekktir vísindamenn á þessu sviði hafa hlotið verðlaunin á undanförnum áratugum og nokkrir þeirra voru viðstaddir á TAFT 2006, má þar t.d. nefna Herb Hultin (University of Massachusetts, Amherst), Tom Gill (Dalhousie University, Halifax), Michael Morrissey (Oregon State University), Chong Lee (University of Rhode Island), Tyre C. Lanier og David Green (North Carolina State University), og Luc Leclerc (Aquatic Products Technology Centre, Ministère de l’Agriculture, des Pêcheries et de l’Alimentation, Québec, Canada), sem jafnframt var skipuleggjandi ráðstefnunnar ásamt Pierre Blier (Québec University, Rimouski). Torger Börresen hjá dönsku fiskrannsóknastofnunni DIFRES, sem hlaut verðlaunin 2003 afhenti verðlaunin að þessu sinni, en þau voru auk viðurkenningarinnar, lítil stytta gerð af kanadískum listamanni af inúítaættum.

McFee Verðlaunagripur
IS