Fréttir

Minni notkun próteins í fóðri – aukin arðsemi í þorskeldi?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega lauk verkefninu Próteinþörf þorsks þar sem leitað var leiða til að draga úr kostnaði við þorskeldi og gera þessa ungu atvinnugrein þ.a.l. arðbærari. Fóðurkostnaður er 40-60% af heildarframleiðslukostnaði í eldinu og því beindist athyglin að því hvort og hvernig hægt væri að minnka hann. Í nýrri Rf skýrslu er greint frá niðurstöðum þessarar rannsóknar.

Mikið hefur verið fjallað um meint bágborið ástand villtra fiskistofna að undanförnu og í tímaritinu Science birtist nýlega skýrsla þar sem spáð var hruni allra fiskistofna heims fyrir miðja þessa öld.  Reyndar voru ekki allir tilbúnir að taka undir þessa bölsýnu spá, þeirra á meðal forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.

Burtséð frá þessum deilum er því spáð að fiskeldi, ekki síst eldi sjávartegunda eins og þorsks muni vaxa gríðarlega á næstu árum og áratugum.  Íslendingar hafa fylgst vel með þessari þróun, líkt og margar þjóðir við N-Atlantshaf og þorskeldi er nú þegar hafið á nokkrum stöðum hér á landi. 

Sem fyrr segir er fóðurkostnaður á milli 40-60% af heildarframleiðslukostnaði í eldinu og til að hægt sé að auka arðsemi í þessari atvinnugrein er ljóst að þar er vænlegast að finna leiðir til að draga úr kostnaði.  Prótein er dýrasta næringarefnið í fóðri fyrir fisk og þ.a.l. mjög mikilvægt að lámarka innihald þess þannig að það fari fyrst og fremst til uppbyggingar á vöðum en ekki til orkunotkunar, þar sem ódýrari næringarefni, svo sem fita, geta komið að svipuðum notum.

Í nýrri Rf skýrslu Protein requirements of farmed cod er m.a. greint frá rannsókn þar sem markmiðið var að finna kjörpróteininnihald fyrir tvo stærðarflokka af þorski, annars vegar 30-100g og hins vegar 300-500g þorsk.  Á meðal þess sem rannsóknirnar sýndu var  að þörf stærri þorsksins (300-500g) fyrir prótein var minni en það sem venjulega er notað í verksmiðjuframleiddu fóðri í dag.  Þarna er því hugsanlega að finna eina leið til að draga úr fóðurkostnaði án þess það komi niður á gæðum þorsksins.

Próteinþörf þorsks sem var tveggja ára verkefni, sem AVS sjóðnum styrkti. Verkefnið var hluti af stærra verkefni, Feed for Atlantic cod, sem styrkt var af Norræna Iðnþróunarsjóðnum okt 2003 – 2006. Íslenskir þátttakendur í verkefninu voru Rf, Fóðurverksmiðjan Laxá, Hólaskóli, SR mjöl, Háskólinn á Akureyri og Brim fiskeldi.