Fréttir

Þjónustusvið Rf fær góða umsögn SWEDAC

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í gær fór fram árleg úttekt sænsku löggildingarstofunnar SWEDAC vegna faggildingar á þjónustumælingum á Rf. Þetta var í 10 skiptið sem slík úttekt er gerð á Rf og jafnframt í síðasta sinn því Rf sameinast tveimur öðrum stofnunum í Matís ohf um næstu áramót.

Að sögn Heiðu Pálmadóttur, deildarstjóra Þjónustusviðs Rf, hafa reglugerðir ESB kveðið á um það frá árinu 1994 að allar mælingar skuli framkvæmdar á faggildum prófunarstofum. Í árlegum heimsóknum fer SWEDAC (Styrelsen för ackreditering och tekninsk kontrol) m.a. yfir allt gæðakerfið til að sannreyna hvort það standist kröfur um faggildingu.  

Eftir áramót, þegar nýja fyrirtækið Matís ohf tekur til starfa verður að sækja um að nýju um faggildingu, enda verða þá sameinaðar tvær faggildar einingar.

Margareta Ottosson var yfirmatsmaður að þessu sinni og sá um úttekt á efnamælingum og Ann-Charlotte Steneryd tók út örverumælingar.

Þær stöllur voru ánægðar með starfsemina á Rf og veittu starfsfólki einnig gagnlegar upplýsingar  um það sem betur mætti fara, en það eru einmitt slíkar ábendingar sem hafa hjálpað starfsfólki Þjónustusviðs Rf til að vera í fremstu röð á sínu sviði á síðustu árum.