Fréttir

Fjallað um kosti fiskneyslu í leiðara New York Times

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í leiðara bandaríska stórblaðsins NYT í gær var fjallað um mat tveggja virtra stofnanna þar í landi um kosti og galla þess að borða fisk. Er skemmst frá því að segja að báðar stofnanir komast að því að kostirnir séu margfaldir á við hugsanlega áhættu.

Stofnanirnar sem um ræðir eru annars vegar Institute of Medicine of the National Academy of Sciences (IMNAS) og hins vegar Harvard School of Public Health (HSPH). Að mati þeirra vega kostir fiskneyslu miklu þyngra fyrir flesta en hugsanleg áhætta af völdum mengunar og örvera. Meira að segja “viðkvæmir” neytendur s.s. þungaðar konur og ung börn græði á aukinni fiskneyslu, ef þeir sneiði hjá varasömum tegundum.

Að mati sérfræðingahóps IMNAS felast jákvæð áhrif fiskneyslu m.a. í því að í fiski sé að finna hágæðaprótein, mörg vítamín og steinefni. Þeir benda á að þungaðar konur geti með fiskneyslu hugsanlega haft jákvæð áhrif á sjón og þróun heila barna sinna, en vara jafnframt við því að þessi hópur og ung börn borði stóra ránfiska eins og hákarl og sverðfisk.

Í leiðarnanum segir að sérfræðingar frá HSPH taki jafnvel enn dýpra í árina og fullyrði að jafnvel hófleg fiskneysla geti minnkað líkur á dauða af völdum kransæðastíflu um allt að 36%.  Leiðarahöfundur NYT tekur reyndar fram að talsverð óvissa ríki um hvort aukin fiskneysla geti komið í veg fyrir kransæðastíflur hjá þeim sem hafa fengið slíkt áður og að jafnframt sé óvíst hvort fiskneysla dragi úr líkum á sykursýki, ýmsum tegundum krabbameina og Alzheimersjúkdómi, líkt og sumar rannsóknir hafa áður bent til.

Leiðara NYT hvetur í lokin til þess að merkingar á sjávarafurðum verði bættar þannig að neytendur eigi auðveldara með að átta sig á því hvað fisktegundir þeir séu að kaupa í stórmörkuðum og hjá fisksölum.

Lesa leiðara NYT