Fréttir

Matís með veggspjöld á Fræðaþingi 2007

Fræðaþing landbúnaðarins verður haldið dagana 15. -16. febrúar 2007 í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar og í Ráðstefnusölum Hótel Sögu. Nokkrir sérfræðingar Matís eiga veggspjöld á Fræðaþinginu að þessu sinni.

Um er að ræða fjögur veggspjöld og eru þau eftirfarandi í stafrófsröð:

Áhrif háþrýstings á vöxt Listeria og myndbyggingu reykts lax. Höfundar eru þau Hannes Hafsteinsson, Birna Guðbjörnsdóttir og Ásbjörn Jónsson. Hannes og Ásbjörn eru starfsmenn Matís, en Birna starfaði áður hjá Rf.

Áhrif kælingar á meyrni í lambakjöti. Höfundar eru þeir Ásbjörn Jónsson, Óli Þór Hilmarsson og Valur Norðri Gunnlaugsson. Þeir eru allir starfsmenn Matís en störfuðu áður á MATRA-Matvælarannsóknum Keldnaholti.  Þess má geta að nýlega kom út skýrsla á Matís sem ber sama heiti.  Lesa skýrslu

Háþrýstingur í kjötvinnslum.  Höfundar eru Hannes Hafsteinsson, Ásbjörn Jónsson, Óli Þór Hilmarsson.

Joð í landbúnaðarafurðum.  Höfundar eru þeir Ólafur Reykdal, Óli Þór Hilmarsson og Guðjón Atli Auðunsson. Ólafur starfar nú hjá Matís en var áður hjá MATRA, en Guðjón er starfsmaður Iðntæknistofnunar, en starfaði þar áður lengi á Rf.

Meira um Fræðaþing 2007

Fréttir

Humarhótel Matís á Höfn vekur athygli

Hægt er að fá allt að því þrisvar sinnum hærra verð fyrir lifandi humar heldur humar sem er seldur frystur, að því er fram kom í þættinum Krossgötur á Rás 1.

Þar er fjallað um svokallað humarhótel á Höfn, sem er á vegum Matís. Á humarhótelinu er humri haldið lifandi í ákveðinn tíma frá því að hann er veiddur svo hægt sé að selja hann þegar eftirspurn er meiri.

Hægt er að hlýða á umfjöllun um humarhótelið hér.

Fréttir

Arðvænleg verkefni hjá Matís

Áhersla verður lögð á arðvænleg rannsóknarverkefni í samvinnu við atvinnulífið, að því er fram kemur í viðtali Markaðarins við Sjöfn Sigurgísladóttur, forstjóra Matís ohf. Þar kemur fram að áherslur séu að nokkur leyti aðrar en þær sem einkenndur stofnanirnar sem runnu inn í félagið.

Þá kemur fram að spennandi ár sé framundan hjá Matís og fjöldi álitlegra verkefna á sviði matvælarannsókna. Má þar nefna verkefni sem talið er að geti aukið verðmæti fiskflaka hér um rúma þrjá milljarða króna á ári með því að fullnýta fiskprótín sem hingað til hefur verið selt sem dýrafóður, segir í Markaðnum.

Fréttir

Notkun NMR- tækni og segulómun í matvælarannsóknum: Ráðstefna 2008

Í september 2008 verður haldin ráðstefna hér á landi um notkun NMR (Nuclear Magnetic Resonance) tækni og segulómun (Magnetic Resonance Imaging) í matvælarannsóknum. Matís og Háskóli Íslands munu sjá um undirbúning ráðstefnunnar hér á landi.

Ráðstefnan ber yfirskriftina The 9th International Congress on the Applications of Magnetic Resonance in Food Science en slíkar ráðstefnur hafa verið haldnar á tveggja ára fresti í Evrópu síðan 1992.Til að undirbúa ráðstefnuna og kynna sér aðstæður hér á landi komu hingað í vikunni tveir virtir vísindamenn frá Englandi. Þetta voru Professor Peter Belton frá University of East Anglia og Professor Graham Webb frá the Royal Society of Chemistry.

Professor Belton flutti stuttan fyrirlestur í morgun fyrir starfsfólk Matís í Reykjavík og kynnti rannsóknir sínar, en hann mun vera einn fremsti vísindamaður heims um notkun NMR tækni og segulómunar í matvælarannsóknum.

Að sögn Maríu Guðjónsdóttur, sem skipulagði heimsókn tvímenninganna til Íslands, líst þeim vel á aðstæður til ráðstefnuhalds hér á landi, en ráðstefnan verður haldin í húsnæði Endurmenntunarstofnunar H.Í. á næsta ári. Þess má geta að Maríu var boðið að taka þátt í 8. ráðstefnunni, sem haldin var í Nottingham í Englandi á síðasta ári.

Skoða glærur úr erindi Professor Belton. (pdf-skjal)

Fréttir

Grein eftir sérfræðing Matís þýdd á persnesku

Einn helsti sérfræðingur landsins um nýtingu aukaafurða úr sjávarfangi er án vafa Sigurjón Arason verkfræðingur og deildarstjóri Vinnsludeildar Matís. Nýlega birtist grein um þetta efni eftir hann á persnesku á vefnum Iranfisheries.net

Forsaga málsins er sú að jafnframt störfum sínum sem vísindamaður á Matís er Sigurjón kennari, m.a. dósent við Matvæla- og næringarfræðiskor H.Í. og einnig kennir hann við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna ( FTP-UNU). Það er einmitt einn nemandi síðarnefnda skólans, Gholam Reza Shaviklo, sem þýddi greinina.

Greinin sem ber titilinn “Utilization of Fish Byproducts in Iceland” birtist fyrst í ráðstefnuritinu Advances in Seafood Byproducts 2002 Conference Proceedings. Alaska Sea Grant College Program, University of Alaska Fairbanks, Fairbanks, 43-62.

Gholam Reza Shaviklo er nemandi skólans skólaárið 2006-07 en alls hafa fimm nemendur frá Íran stundað nám við skólann frá stofnun hans árið 1998 en heildarfjöldi nemenda er 126 frá 23 löndum.

Fréttir

Nemendur MA og VMA þátttakendur í Matísverkefni

Á síðasta ári hófst verkefni sem ætlað er að stuðla að aukinni neyslu sjávarafurða, einkum meðal ungs fólks.  Nýlega tóku nemendur í Menntaskólanum á Akureyri og Verkmenntaskóla Akureyrar þátt í neytendakönnun, sem er hluti af verkefninu. 

Nýlegar kannanir benda til að fiskneysla hér á landi hafi minnkað töluvert á undanförnum árum og mest hjá yngri aldurshópum. Brýnt þykir að sporna við þessari þróun, bæði út frá heilbrigðissjónarmiðum, enda fiskur almennt talinn meinhollur, en ekki síður út frá efnahagsforsendum.

Þó svo mikið sé flutt út af fiski frá Íslandi má ekki gleyma því að markaður innanlands er mikilvægur fyrir íslensk sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki. Ungt fólk í dag er mikilvægur neytendahópur framtíðarinnar og því er mikilvægt að huga að aðgerðum til að snúa þessari þróun við, með markvissri fræðslu, auglýsingum og markaðsetningu. 

Markmið verkefnisins, sem nefnist Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða er einmitt að stuðla að aukinni neyslu sjávarafurða með neyslukönnunum og kynningarátaki. Sem fyrr segir hófst verkefnið á Rf á síðasta ári og er áætlað að því ljúki árið 2008.  Vinna í þeim verkefnum sem unnin voru hjá Rf og öðrum stofnunum sem sameinuðust um áramótin mun halda áfram undir merki Matís.

Grein um verkefnið í Ægi (pdf)

Fréttir

Fyrsta skýrsla Matís fjallar um áhrif kælihraða á gæði lambakjöts

Fyrsta skýrslan sem gefin er út á vegum Matís ohf fjallar um rannsóknir á því hvernig kælihraði hefur áhrif á gæði lambakjöts. Þar kemur m.a. fram að undanfarin ár hefur vélkæling í kjötsal sláturhúsa aukist verulega og kæling í kjöti er því hraðari en áður tíðkaðist, sem stundum vill koma niður á gæðum kjötsins.

Skýrslan nefnist Áhrif kælingar á meyrni í lambakjöti og í henni kemur fram að hraði kælingar hefur mikil áhrif á gæði kjöts og kælingin verði að fylgja dauðastirðnunarferlinu á þann hátt að kjötgæði verði sem mest. Of hröð kæling eða frysting lambakjöts stuttu eftir slátrun getur orsakað kæliherpingu í kjötinu og afleiðingin verði stífara (seigara) kjöt. Að sögn Ásbjörns Jónssonar, eins höfundar skýrslunnar, nást betri gæði ef beðið er með að frysta kjötið þar til dauðastirðnunarferlinu er að fullu lokið.

Meginmarkmið með verkefninu var að rannsaka áferðareiginleika (meyrni) í lambakjöti við mismunandi kælihitastig og -tíma í kjötsal sláturhúsa. Gerðar voru mælingar á hitastigi í dilkaskrokkum í kjötsal sláturhúsa við mismunandi lofthita. Sýni voru tekin úr hryggvöðva dilkaskrokka eftir mislanga viðveru í kjötsal, og þau fryst. Áferðarmælingar voru síðan framkvæmdar á sýnunum til að meta áhrif kælingar á vöðvann. Rannsóknin sýndi að kjöt sem var geymt í kjötsal og var fryst samdægurs (eftir 4-5 klst.) var stífara en kjöt sem fékk lengri kælitíma í kjötsal eftir slátrun.

Þeir sem unnu að verkefninu voru, auk Ásbjörns, Óli Þór Hilmarsson og Valur Norðri Gunnlaugsson. Þeirstörfuðu allir hjá Matra, en hófu störf hjá Matís ohf um síðustu áramót. Verkefnið var styrkt af Framkvæmdarnefnd búvörusamninga.

Lesa skýrslu

Fréttir

Saltfiskur tilbúinn í pottinn og á pönnuna

Nýlega kom út skýrsla á Rf úr verkefninu Þíddur saltfiskur í neytendapakkningum, þar sem m.a. voru rannsakaðir þættir eins og hvernig hægt væri að hámarka geymsluþol útvatnaðra þorskflaka.

Eins og margir vita hefur saltfiskur verið ein af mikilvægustu útflutningsvörum Íslendinga frá því snemma á 19. öld og enn í dag nemur útflutningur saltaðra sjávarafurða um 15-20% af útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða. Margir neytendur í dag telja sig hvorki hafa tíma né áhuga á að eyða of miklum tíma í matseld og því hefur eftirspurn eftir ferskum, tilbúnum eða fljótelduðum matvælum aukist verulega. Slíkar matvörur eru hins vegar mun viðkvæmari en saltaðar eða frystar og hafa mun styttra geymsluþol.

Til að saltfiskur haldi markaðshlutdeild sinni áfram er nauðsynlegt að hægt sé að bjóða upp á hann útvatnaðan og tilbúinn til suðu/steikingar. Til að það sé hægt þarf að tryggja að hann hafi nægilega langt geymsluþol sem kælivara.

Í nýju skýrslunni, sem ber titilinn Þídd, útvötnuð þorskflök í neytendapakkningum var athyglinni m.a. beint að með því að kanna nánar samspil gassamsetningar, kalíum sorbatstyrks og sítrónusýrustyrks með tilliti til þátta eins og örveru- og efnabreytinga, bragðs, lyktar, áferðar, útlits og drips.

Einnig voru í verkefninu gerðar geymsluþolstilraunir á útvötnuðum, þíddum, saltfiskflökum eftir mislanga frystigeymslu og gæði slíkra flaka borin saman við ófryst flök. Þá voru áhrif mismunandi hráefnisgæða á geymsluþol pakkaðra afurða könnuð svo og vaxtarmöguleikar nokkurra sýkla og bendiörvera í gaspökkuðum, útvötnuðum flökum.

Höfundar skýrslunnar Hannes Magnússon, Kolbrún Sveinsdóttir, Ása Þorkelsdóttir, Emilía Martinsdóttir, en þau starfa öll á Rannsóknasviði Rf.

Fréttir

Fyrirtæki í Ástralíu notar rannsóknir frá Rf til að auglýsa vörur sínar

Fyrirtæki í Ástralíu hefur stuðst við niðurstöður úr vísindagrein frá Rf til að auglýsa tæki sem það framleiðir. Aðalhöfundur greinarinnar, sem birtist nýlega á vísindaritinu Journal of Microbiological Methods er Eyjólfur Reynisson, líffræðingur á Rannsóknasviði Rf.

Ástralska fyrirtækið nefnist Corbett Research og framleiðir tæki, tól og hvarfefni fyrir rauntíma PCR. Þeir framleiða m.a. Rotorgene3000 sem er rauntíma PCR tæki en það var notað við rannsóknina sem Rf birti á árinu. Í rannsókninni kom fram að með þeirra tæki hefði næmni greiningaraðferðarinnar verið hæst í samanburði við tvö önnur kerfi sem einnig voru prófuð.

Greinin sem hér um ræðir nefnist Evaluation of probe chemistries and platforms to improve the detection limit of real-time PCR og er Eyjólfur Reynisson aðalhöfundur hennar. Aðrir höfundar eru M.H. Josefsen, M. Krause og J. Hoorfar.

Þeir sem hafa áhuga á að lesa greinina geta farið á Cv-síðu Eyjólfs.

Fréttir

Minni notkun próteins í fóðri – aukin arðsemi í þorskeldi?

Nýlega lauk verkefninu Próteinþörf þorsks þar sem leitað var leiða til að draga úr kostnaði við þorskeldi og gera þessa ungu atvinnugrein þ.a.l. arðbærari. Fóðurkostnaður er 40-60% af heildarframleiðslukostnaði í eldinu og því beindist athyglin að því hvort og hvernig hægt væri að minnka hann. Í nýrri Rf skýrslu er greint frá niðurstöðum þessarar rannsóknar.

Mikið hefur verið fjallað um meint bágborið ástand villtra fiskistofna að undanförnu og í tímaritinu Science birtist nýlega skýrsla þar sem spáð var hruni allra fiskistofna heims fyrir miðja þessa öld.  Reyndar voru ekki allir tilbúnir að taka undir þessa bölsýnu spá, þeirra á meðal forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.

Burtséð frá þessum deilum er því spáð að fiskeldi, ekki síst eldi sjávartegunda eins og þorsks muni vaxa gríðarlega á næstu árum og áratugum.  Íslendingar hafa fylgst vel með þessari þróun, líkt og margar þjóðir við N-Atlantshaf og þorskeldi er nú þegar hafið á nokkrum stöðum hér á landi. 

Sem fyrr segir er fóðurkostnaður á milli 40-60% af heildarframleiðslukostnaði í eldinu og til að hægt sé að auka arðsemi í þessari atvinnugrein er ljóst að þar er vænlegast að finna leiðir til að draga úr kostnaði.  Prótein er dýrasta næringarefnið í fóðri fyrir fisk og þ.a.l. mjög mikilvægt að lámarka innihald þess þannig að það fari fyrst og fremst til uppbyggingar á vöðum en ekki til orkunotkunar, þar sem ódýrari næringarefni, svo sem fita, geta komið að svipuðum notum.

Í nýrri Rf skýrslu Protein requirements of farmed cod er m.a. greint frá rannsókn þar sem markmiðið var að finna kjörpróteininnihald fyrir tvo stærðarflokka af þorski, annars vegar 30-100g og hins vegar 300-500g þorsk.  Á meðal þess sem rannsóknirnar sýndu var  að þörf stærri þorsksins (300-500g) fyrir prótein var minni en það sem venjulega er notað í verksmiðjuframleiddu fóðri í dag.  Þarna er því hugsanlega að finna eina leið til að draga úr fóðurkostnaði án þess það komi niður á gæðum þorsksins.

Próteinþörf þorsks sem var tveggja ára verkefni, sem AVS sjóðnum styrkti. Verkefnið var hluti af stærra verkefni, Feed for Atlantic cod, sem styrkt var af Norræna Iðnþróunarsjóðnum okt 2003 – 2006. Íslenskir þátttakendur í verkefninu voru Rf, Fóðurverksmiðjan Laxá, Hólaskóli, SR mjöl, Háskólinn á Akureyri og Brim fiskeldi.

IS