Fréttir

Rafrænar upplýsingar um matvöru til neytenda

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Ýmsir telja að rafrænar merkingar muni leysa hefðbundin strikamerki af hólmi á næstu árum. Matís hefur sl. ár tekið þátt í þróunarverkefni sem miðar að því að merkja fiskiker með rafrænum hætti. Slíkar merkingar munu gefa aukna möguleika á hagnýtingu rekjanleika og m.a. gera fyrirtækjum kleift að senda rafrænar upplýsingar til kaupenda um það hvar afurðin er veidd, hvar hún hefur verið verkuð og hvaða leið hún hefur farið á markað.

Kröfur framleiðenda og neytenda um aukið upplýsingaflæði og betri merkingar á matvælum eru sífellt aukast. Segja má að þróun á rafrænum merkingum fyrir fiskiker sé angi af þeirri þróun. Sem dæmi má nefna að talið er að með rafrænum merkingum verði jafnvel mögulegt fyrir ísskápa framtíðarinnar að taka á móti upplýsingum og miðla til neytenda, hvort sem það eru upplýsingar um síðasta söludag á matvöru, um innihald ofnæmisvaldandi efna eða hvaða meðlæti eigi við með íslenskum þorski. Þá eru bundnar vonir við að ísskápar framtíðarinnar geti átt þráðlaus samskipti við gagnagrunna matvælaframleiðenda, sem t.d. munu geta varað neytendur við ef upp koma matarsýkingar sem tengst geta þeim matvælum sem eru í ískápnum.

Nú þegar er hafin tilraunaframleiðsla á ísskápum framtíðarinnar, til dæmis hjá Innovation Lab í Danmörku. Segir fyrirtækið að ísskáparnir verði komnir í almenna sölu eftir 5-10 ár.

Þróun á rafrænum merkingum fyrir fiskiker, sem er styrkt af AVS sjóðnum, er unnið í samstarfi við FISK Seafood, Sæplast og Maritech. Niðurstöður verkefnisins eru væntanlegar á næstu vikum.