Fréttir

Áhrif umhverfishita og biðtíma hráefnis við flakavinnslu

Í nýrri grein koma fram niðurstöður sem styrkja rökin fyrir mikilvægi vandaðra og agaðra vinnubragða við framleiðslu á fiskflökum. Þó allt kapp sé lagt á að vanda vel til verka við vinnslu fisks í flök, kann það að koma fyrir að fiskur rati ekki eins hratt í gegnum vinnsluna og ráð er fyrir gert eða að fiskur fari um rými sem er hlýrra en best væri á kosið.

Lenging vinnslutíma og óæskileg hækkun á hitastigi í fiskflökum getur leitt til umtalsverðs þyngdartaps afurða og haft samsvarandi áhrif á verðmæti þeirra.  Rannsóknin er nýr afrakstur af löngu og farsælu samstarfi Matís og Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem og fyrirtæki sem þjónusta íslenskan sjávarútveg.  

Nýlega hefur verið samþykkt til birtingar í Journal of Food Engineering grein um áhrif umhverfishita og biðtíma hráefnis við vinnslu ufsa- og karfaflaka. Greinin er aðgengileg á netinu og kemur út í maí hefti ritsins Journal of Food Engineering. Greinin byggir á rannsókn sem kínverskur nemandi við Sjávarútvegsskóla háskóla sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP), Mu Gang, vann undir handleiðslu íslenskra leiðbeinenda meðan á námsdvöl hans stóð hér á landi. Leiðbeinendur Mu Gang voru dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir hjá Marel, Ásbjörn Jónsson og Arnljótur Bjarki Bergsson hjá Matís og var rannsóknin unnin hjá Matís.

Niðurstöður rannsóknarinnar styrkja rökin fyrir mikilvægi vandaðra og agaðra vinnubragða við vinnslu á fiskflökum. Markviss kæling gegnir lykilhlutverki við varðveislu gæða. Eins mikilvægt og það er að lágmarka hnjask sem fiskurinn verður fyrir frá veiðum að neyslu er jafnframt mikilvægt að draga úr töfum sem kunna að verða í vinnsluferlinu. Eins og komið hefur fram á öðrum vettvangi skiptir blóðgun, blæðing (blóðtæming), þvottur og kæling miklu máli um borð í fiskiskipum, sama máli gildir um skilvirkni og viðhald lágs hitastigs við flakavinnslu. 

Þó allt kapp sé ætíð lagt á að vanda vel til verka við vinnslu fisks í flök, kann það að koma fyrir að fiskur rati ekki eins hratt í gegnum vinnsluna og ráð er fyrir gert eða að fiskur fari um rými sem er hlýrra en best væri á kosið. Til að líkja eftir mögulegum frávikum frá verklagsreglum var fiskur geymdur við 9°C, 16°C og 21°C og voru flök tekin til skoðunar á hálfrar klukkustundar fresti. Sá fiskur sem lengst var geymdur var geymdur í 3 klukkustundir. Hvort tveggja voru skoðuð stór (634 g) og lítil (289 g) ufsaflök sem og karfaflök (105 g).

Niðurstöður rannsókninnar sýna vel afleiðingar þess ef vikið er frá upplögðu verklagi þ.e. að viðhalda lágu hitastigi í gegnum vinnsluferlið, jafnvel þó frávikið sé skammvinnt. Hár umhverfishiti og tafir við vinnslu leiða til rýrnunar á þyngd og verðmætum afurða. Því er mikilvægt að forðast flöskuhálsa sem leiða til uppsöfnunar fisks í vinnslurásum, sér í lagi við lítt kældar aðstæður. Auk þess er bent á að mikilvægi sé að hitastig afurða við pökkun sé sem næst geymsluhitastigi. 

Þekkingin sem skapaðist með rannsókninni er enn einn ávöxtur af löngu og farsælu samstarfi Matís og Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem og fyrirtæki sem þjónusta íslenskan sjávarútveg, s.s. Marel. Mikil þekking skapast í háskólasamfélaginu og hafa vísindamenn unnið í víðtæku samstarfi að þróun og innleiðingu hennar hjá öflugum ábyrgum sjávarútvegsfyrirtækjum. Samstarf um hagnýtingu þekkingar hefur gert íslenskum fiskiðnaði kleift að taka stórstígum framförum svo eftir hefur verið tekið víða um veröld. Það hefur gert íslenskan sjávarútveg að þeim þekkingariðnaði sem hann er í dag og býr í haginn fyrir þróun hans til framtíðar.

Fréttir

Marlýsi

Tækniþróunarsjóður Rannís hefur nú styrkt samstarfsverkefni Margildis, Matís, Háskólans á Akureyri, Síldarvinnslunnar, Mjólkursamsölunnar og KPMG sem ber heitið Marlýsi.

Í þessu verkefni er stefnt að því að besta nýja vinnsluaðferð á lýsi til manneldis úr uppsjávartegundunum loðnu, síld og makríl. Margildi er sprotafyrirtæki sem hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að fullhreinsa lýsi úr áðurnefndum uppsjávartegundum. Fram til þessa hefur ekki verið unnt að kaldhreinsa fyrrnefnt lýsi til manneldis á skilvirkan og hagkvæman hátt vegna mikils magns mettaðra og langra einómettaðra fitusýra. Margildi hefur þegar sótt um einkaleyfi fyrir hraðkaldhreinsitæknina.

Þróaðar verða vinnsluaðferðir fyrir lýsið sem gerir það hæft til notkunar sem fæðubótarefni í hylkjum eða flöskum, en einnig sem íblöndunarefni í matvæli. En lýsið frá Margildi er að koma afar vel út sem íblöndunarefni í matvæli vegna náttúrlegs stöðuleika lýsisins. 

Hrálýsi úr loðnu, síld og makríl, sem er unnið í fiskmjöls- og lýsisverksmiðjum er í dag eingöngu selt sem íblöndunarefni í dýrafóður samhliða fiskmjöli. Góð þekking er til staðar á framleiðslu hrálýsis á Íslandi í fiskmjöls- og lýsisverksmiðjum og eru þær vel tækjum búnar. Fimm af ellefu verksmiðjum hafa fengið manneldisvottun frá Matvælastofnun (MAST) á sína starfsemi að hluta eða öllu leyti og fleiri stefna í sömu átt. Manneldisvottun er ein af frumforsendum þess að hægt sé að framleiða lýsi úr uppsjávarfiski til manneldis. Bæði útvegsfyrirtækin í þessu verkefni, þ.e. Síldarvinnslan og HB Grandi, búa yfir manneldisvottuðum verksmiðjum og verður unnið áfram með afurðir frá þeim. 

Í janúar á þessu ári samþykkti bæjarráð Fjarðabyggðar undirritun viljayfirlýsingar við Margildi þar sem lýst er velvilja og stuðningi í garð mögulegrar verksmiðju fyrirtækisins í sveitarfélaginu. Við erum þakklátir fyrir stuðninginn og áhugann, sem við höfum svo sem fundið víða en hann hefur verið mjög mikill úr Fjarðabyggð eins og þessi viljayfirlýsing ber með sér,“ segir Snorri Hreggviðsson, framkvæmdastjóri Margildis.

Gangi þetta verkefni eftir munu skapast forsendur til að reisa og reka hérlendis sérhæfða lýsisverksmiðju sem byggir á niðurstöðum verkefnisins. Með tilkomu verksmiðju Marlýsis verður arðvænlegri stoðum skotið undir fiskmjöls- og lýsisiðnaðinn og hann getur þróast að hluta úr hrávöruframleiðslu til fóðurgerðar yfir í framleiðslu fullunninnar vöru til manneldis. 

Nánari upplýsingar veitir Valur N. Gunnlaugsson hjá Matís.

Fréttir

Efna- og eðlisfræðilegir eiginleikar hringorma í Atlantshafsþorski

Snorri Karl Birgisson fer með fyrirlestur til meistaraprófs í matvælafræði við Háskóla Íslands og fer fyrirlestur Snorra fram hjá Matís að Vínlandsleið 12, fundarsal nr. 312, þriðjudaginn 7. febrúar nk. frá kl. 15-16 en verkefnið var unnið á Matís.

Fyrr um daginn, í Eirbergi við Eiríksgötu, stofu 103C, fer einnig fram fyrirlestur til meistaraprófs en þá greinir Helga Guðrún Friðþjófsdóttir frá verkefninu sínu: “Fæðuval ungra Íslendinga með geðrofssjúkdóma og þróun líkamsþyngdar þeirra á 12 mánaða tímabili.”

Um verkefni Snorra

“Hringormar – Efna- og eðlisfræðilegir eiginleikar hringorma í atlantshafsþorski”
“Physicochemical properties of nematodes found in the Atlantic cod (Gadus morhua)”.

Megin markmið verkefnisins var að rannsaka eðlis- og efnaeiginleika hringorma sem finnast í Atlantshafs þorski. Hringormar voru flokkaðir eftir lengd og staðsetningu í þorskflaki og rannsakaðir með myndbandsupptökum í fiskvinnslu. Efnaeiginleikar hringorma voru rannsakaðir með því að mæla efnasamsetningu þeirra. Ásamt efnasamsetningu voru ýmis stein- og snefilefni mæld. Að auki var amínósýrusamsetning hringorma mæld. Til að skoða heildarmyndina voru efnisþættir bornir saman við efnainnihald þorskflakahluta.

Eðliseiginleikar hringorma voru rannsakaðir með því að skoða áhrif þeirra á vinnslu þar sem áhersla var lögð á vinnsluafköst og hringormafjölda í flakahlutum. Hringormar voru einnig tegundagreindir eftir flakahlutum. Þol hringorma gagnvart frystingu var rannsakað, með þvi að koma lifandi hringormum milli tveggja þorsksmarningslaga og fryst við mismunandi hitastig og tíma. Að lokum var þykkt hringormahams rannsakað með stærðargreiningu á þverskurðarsniði hringorms.

Greining á hringormum leiddi í ljós að hringormar höfðu ekki mikil áhrif á vinnsluafköst en höfðu í stað áhrif á nýtingu. Hringormarhópar mældust með líka efnasamsetningu, en þegar kom að samanburði við þorskflakahluta þá höfðu hringormar hærra magn af kolvetnum og fitu. Hringormar voru einnig með hærri steinefnagildi í kopar(Cu), kalki(Ca) og járni(Pb) ef miðað var við þroskflökin. Hringormar mældust með minna af snefilefnum miðað við þorskflök. Hringormar og þorskflök voru með svipuð hlutföll í níu amínósýrum, og innhéldu báðir hópar töluvert magn af lífsnauðsynlegum amínósýrum. Frysting á lifandi hringormum sýndi fram á að þol hringorma lækki með lækkuðu hitastigi og auknum tíma við það hitastig.

Það var ljóst í upphafi að þetta verkefni myndi ekki svara öllum spurningum er snúa að fiskvinnslunni í dag varðandi hringorma og kostnað samfara þeim. Heldur er vonast um að niðurstöður verkefnisins séu eitt nytsamleg skref í þeirri vinnu sem liggur fyrir að vinna áfram með.

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Matís.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor og yfirverkfræðingur Matís og Magnea G.Karlsdóttir verkefnastjóri hjá Matís.
Prófdómari: Dr. Kristín A. Þórarinsdóttir matvælafræðingur hjá Marel.

Um verkefni Helgu Guðrúnar Friðþjófsdóttur

“The diet of young Icelanders with psychotic disorders and weight development over 12 months period”
“Fæðuval ungra Íslendinga með geðrofssjúkdóma og þróun líkamsþyngdar þeirra á 12 mánaða tímabili”

7.febrúar kl.13:30-14:30, Eirberg við Eiríksgötu, st. 103C

Verkefnið var unnið á Rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala í samstarfi við Laugarásinn meðferðargeðdeild, Landspítala.

Leiðbeinendur: Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor og Ólöf Guðný Geirsdóttir dósent
Prófdómari: Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor

Fréttir

Nemendur í líftækni við Háskólann á Akureyri í verklegu námi hjá Matís

Fjölmargir nemendur voru í dag í líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki til þess að taka verklega hluta sameindaerfðafræðikúrs við Háskólann á Akureyri, en kúrsinn er hluti af líftækninámi við skólann.

Guðrún Kristín Eiríksdóttir starfsmaður Matís á Sauðárkróki sendi okkur nokkrar myndir frá deginum. Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Matís.

Fréttir

Nemendur í líftækni við Háskólann á Akureyri í verklegu námi hjá Matís

Fjölmargir nemendur voru í dag í líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki til þess að taka verklega hluta sameindaerfðafræðikúrs við Háskólann á Akureyri, en kúrsinn er hluti af líftækninámi við skólann.

Guðrún Kristín Eiríksdóttir starfsmaður Matís á Sauðárkróki sendi okkur nokkrar myndir frá deginum. Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Matís.

20170131_13243620170131_104828

Fréttir

Hefur þú áhuga á að taka þátt í rannsókn? Áhrif blöðruþangs á bólguþætti

Matís og rannsóknarstofa í Öldrunarfræðum, Landakoti 5L, óska eftir þátttakendum í rannsókn sem hlotið hefur samþykki Vísindasiðanefndar.

Þátttakendur þurfa að vera fullorðnir einstaklingar, 40 ára og eldri með líkamsþyngdarstuðul (BMI) ≥ 27 kg/m2(sjá töflu með útreiknuðum líkamsþyngdarstuðli hér að neðan) og mittisummál ≥ 88cm hjá konum og ≥ 102 cm hjá körlum. Þátttakendur sem stunda hreyfingu meira en 30 mín/dag eru útilokaðir frá þátttöku sem og þungaðar konur eða konur með barn á brjósti. Einstaklingar sem hafa samband og hafa áhuga að taka þátt í rannsókninni þurfa að draga úr neyslu á matvælum sem innihalda omega-3 og forðast lýsi í 2 vikur áður en íhlutun hefst og  meðan á þátttöku stendur.

  • Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif blöðruþangs á bólguþætti hjá of þungum, fullorðnum einstaklingum, ásamt því að kanna hvort blöðruþang hafi áhrif á aðrar lífeðlisfræðilegar breytur (blóðsykur og blóðfitur)
  • Þátttakendum verður af handahófi skipt upp í tvo hópa sem fá annað hvort :
    a)  Blöðruþangsduft (3 hylki = 1200 mg/dag) í 10 vikur  b) Lyfleysu duft (3 hylki/dag) í 10 vikur.
  • Þátttaka í rannsókninni felst í því að mæta í byrjun og lok tímabils í líkamsmælingar og lífssýnatöku, ásamt því að svara almennum spurningarlista um mataræði og heilsufar við upphaf rannsóknar. Framkvæmdar verða mælingar á líkamssamsetningu, mittisummáli, hæð og þyngd. Helstu mælingar í blóði eru bólguþættir, blóðsykur og fitur í blóði.
  • Blöðruþang (Fucus vesiculosus) er ríkt af joði, ómeltanlegri sterkju, salti og lífvirkum efnum. Blöðruþangs duft verður til þegar ákveðin lífvirk efni eru dregin út úr blöðruþanginu og einangruð. Þessi lífvirku efni eru sett í hylki úr gelatíni til að auðvelda inntöku. Notkun á blöðruþangi til manneldis er þekkt og rannsóknir á lífvirkum efnum í blöðruþangi benda til þess að duft úr blöðruþangi gæti haft jákvæð áhrif á lífeðlisfræðilegar breytur (bólguþætti og blóðsykur).
  • Ekki er greitt fyrir þátttöku.

Áhugasamir sem uppfylla ofangreind skilyrði eru beðnir um að hafa
samband við Anítu Sif Elídóttur í síma 844-7131 eða senda tölvupóst á anitas@landspitali.is


Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Alfons Ramel, Prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands (alfonsra@hi.issími: 543-9875).  Aníta Sif Elídóttir er næringarfræðingur og starfsmaður á Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og hjálpar við framkvæmd rannsóknarinnar.

Tafla 1 – Lágmarksþyngd sem þarf til að uppfylla skilyrði um líkamsþyngdarstuðul ≥ 27 kg/m2

Hæð (m)Þyngd (kg)
1,6069
1,6271
1,6473
1,6674
1,6876
1,7078
1,7280
1,7482
1,7684
1,7886
1,8087
1,8289
1,8491
1,8693
1,8895
1,9097
1,92100
1,94102
1,96104
1,98106
2,00108

Líkamsþyngdar stuðull er reiknaður út frá hæð og þyngd samkvæmt formúlunni þyngd/hæð2 (kg/m2).

Þeir sem hafa samband við rannsakendur eru eingöngu að lýsa yfir áhuga á frekari upplýsingum en ekki skuldbinda sig til þátttöku.

Fréttir

Matís á framadögum 2017

Framadagar 2017 verða haldnir þann 9. febrúar í Háskólanum í Reykjavík á milli kl 10-16.

Matís tekur þátt og mun kynna möguleg sumarstörf og nemendaverkefni á Framadögum.

Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Framadaga.

Fréttir

Roð nýtt í verðmætar afurðir

Matís hefur ásamt sprotafyrirtækinu Codland unnið að verkefnum þar sem markmiðið er að nýta roð í verðmætar afurðir.

Í verkefninu Lífvirk efni úr roði sem styrkt er af Tækniþróunarsjóði Rannís er markmiðið að kanna hvort efni sem finnast í roði hafi lífvirkni, svo sem blóðþrýstinglækkandi eiginleika eða geta komið í veg fyrir kölkun á brjóskfrumum. Verkefnið hófst árið 2015 og er til tveggja ára.

Kollagen er að verða sífellt vinsælla sem virka efnið í ýmsum neysluvörum en rannsóknir benda til að tengsl séu á milli reglulegar neyslu efnisins og jákvæðra áhrifa á húð og liði.  Heimsmarkaður fyrir fæðubótarefni sem innihalda kollagen er stór og þá aðallega unnið úr svínum. Áætlanir gera ráð fyrir aukinni eftirspurn fyrir kollagenpeptíðum sem unnið eru úr villtum fiski  og er því hér um tilvalið tækifæri að ræða fyrir íslenska framleiðslu.

Verkefnið Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu sem styrkt er af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni er unnið í samstarfi við norska fyrirtækið Biomega, danska tækniháskólann (DTU) og Biosustain einnig í Danmörku ásamt Matís og Codland. Í því verkefni er markmiðið meðal annars að þróa ný ensím til að vinna kollagen úr aukahráefni frá hvítum villtum fiski svo sem þorski og feitum fiski eins og laxi.

Nánari upplýsingar veitir Margrét Geirsdóttir hjá Matís.

Frá fundi í verkefninu „Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu“ í Noregi í október 2016. Peter Kamp Busk DTU, Hemanshu Mundhada Biosustain, Margrét Geirsdóttir Matís, Alex Toftgård Nielsen Biosustain, Davíð Tómas Davíðsson Codland, Lene Lange DTU og Jan Arne Vevatne Biomega.

Tómas Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Codland og Oddur Már Gunnarsson Matís undirrita samstarfssamning milli fyrirtækjanna.

Hluti þeirra starfsmanna og nema sem komið hafa að vinnu við kollagenverkefnin á fundi á Sauðárkróki í Maí 2016. Frá vinstri til hægri:  Dagný Björk Aðalsteinsdóttir MS nemi HÍ, Maxime Clays frá Belgíu, Yonathan Souid frá Frakklandi, miðjuröð: Margrét Geirsdóttir Matís, Eva Kuttner Matís Sauðárkróki, Thomas Degrange Frakklandi, fremsta röð Hilma Eiðsdóttir Bakken, Margrét Eva Ásgeirsdóttir og Guðrún Kristín Eiríksdóttir Matís Sauðárkróki, Rodrigo Melgosa frá Spáni.

Hráefni – Þorskroð

Gelatín úr roði

Peptíð úr kollageni úr roði – leynist þar lífvirkni?

Fréttir

Íslenska geitin kynnt starfsmönnum Matís

Sif Matthíasdóttir, Hrísakoti, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands og Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háafelli í Hvítársíðu, kynntu geitabúskap og geitaafurðir á Vínlandsleið. Starfsmenn fengu stutta kynningu um geitur og var boðið að smakka geitaafurðir, en þær Sif og Jóhanna voru mættar til að funda við Matís um hugsanlegt samstarf.

Geitur hafa fylgt Íslendingum frá landnámi eins og sést á örnefnum víða um land. Um miðja 20. öld lá við að stofninn þurrkaðist út en síðan hefur verið reynt að viðhalda honum. Árið 2014 taldi íslenski geitastofninn um 987 dýr (skv. www.bondi.is).

Geitur búa yfir verðmætum afurðum sem hægt er að vinna svo sem mjólk, þel, kjöt og skinn. Þá hefur verið hægt að fá krem og sápur sem unnið er úr geitaafurðum og jurtum á Háafelli.

Geitur eru ekki rúnar líkt og kindur, og kemba þarf ullina af þeim með sérstökum kambi. Jóhanna bar hálsklút sem hún benti á að væri unninn úr mjúkri og hlýrri kasmírull af íslenskri geit sem er þekkt fyrir fjölbreytilegt litamynstur. Þar sem íslenska geitin hefur verið einangruð hérlendis í um 1100 ár, er ullin í hávegum höfð því hún er talin líkjast einna mest ull af svonefndum kasmírgeitum.


Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á
Háafelli í Hvítársíðu og Sif Matthíasdóttir, Hrísakoti, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands.

Fréttir

Farsælt samstarf Matís og HÍ árið 2016

Háskóli Íslands og Matís hafa átt í góðu samstarfi um langt skeið og var árið 2016 engin undantekning. Í samræmi við starfssemi Matís þá snýr þessi samvinna mest að verkfræði, matvæla- og næringarfræði, lífefnafræði, líffræði og skyldum greinum og er sérstaklega vert að minnast á samstarfið um meistaranámið í matvælafræði.

Matvælafræði átti undir högg að sækja undir lok síðasta áratugar og færri nemendur sem bæði sóttu námið í grunnnámi og meistaranámi og sem útskrifuðust úr náminu en oftast áður. Með sameiginlegu átaki tókst HÍ og Matís að auka áhuga á náminu svo um munaði enda er nám í matvælafræði hagnýtt nám sem býður upp á fjöldann allan af tækifærum að námi loknu. Tengingin við matvælaframleiðslufyrirtæki er líka sterk, þá sérstaklega í meistaranáminu, og er stór hluti nemenda sem útskrifast hafa sl. fjögur ár sem fengið hafa vinnu strax að námi loknu.

Viltu kynna þér nám í matvælafræði?

Infografia_matvaelafraedi_HI_og_Matis_allar_gradur_vefur
Infografia_matvaelafraedi_HI_og_Matis_meistaranamid_vefur
IS