Matís hefur í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki á meðal fyrirtækja í sjávarútvegi. Að hluta til má segja það saman varðandi landbúnaðinn þá sérstaklega undanfarið þegar kemur að smáframleiðslu matvæla, og eru matarsmiðjur Matís mikilvægur hlekkur í því.
Hlutverk Matís í rannsóknum og nýsköpun innan sjávarútvegsins er síst að minnka enda framþróun í greininni mikil og fyrirtæki og einstaklingar innan sjávarútvegsins að gera vel í að fullnýta allt sem veitt er og fá sem best verð fyrir allt sem fer á markað með því að bjóða upp á fyrsta flokks hráefni og afurðir úr hafinu umhverfis Ísland.
En það eru mun færri sem vita um velgengi Matís í alþjóðlegu rannsókna- og nýsköpunarstarfi. Á þeim vettvangi hefur Matís sýnt getu og hæfileika til að vera öflugur þátttakandi í rannsóknaverkefnum og hefur í mörgum tilfella stjórnað eða leitt áfram stór alþjóðleg verkefni, einkum verkefni sem hafa snúið að fiski og fiskveiðum. Dæmi um slík verkefni eru EcoFishMan, MareFrame, DiscardLess og PrimeFish.
Frá verkefnafundi MareFrame verkefnisins í Rúmeníu.
Heilmikill ávinningur er af þessum verkefnum hvað Matís og Íslendinga alla varðar en auk umtalsverðra fjármuna sem skila sér í aukinni atvinnuþátttöku rannsóknaaðila á Íslandi, skapast þekking í þessum verkefnum sem skilar sér beint inn í íslenskt rannsókna- og atvinnulíf.
Nánari upplýsingar um verkefnaþátttöku Matís má finna á einblöðungnum International Cooperation & Research Projects og á www.horizon2020.is.