Í september á þessu ári var haldinn fundur í verkefninu SusKelpFood í Bergen í Noregi. Verkefnið snýst um að þróa nýstárlegar lausnir í framleiðslu á öruggum, næringarríkum og bragðgóðum hráefnum úr þara í matvæli.
Meðal Þess sem þróað er í verkefninu eru nýjar aðferðir í vinnslu, svo sem þurrkun og gerjun, á beltisþara (Saccharina latissima) og marínkjarna (Alaria esculenta) til að minnka orkunotkun í framleiðslunni og auka gæði á lokaafurðum. Allir þættir virðiskeðjunar verða rannsakaðir frá frumframleiðslu til matvara, tilbúnum til neyslu. Matvælafyrirtækið Orkla sem m.a. framleiðir TORO vörurnar er þátttakandi í verkefninu og mun þróa nýjar vörur fyrir matvörumarkað sem innihalda þara.
Verkefnið er styrkt af Norska rannsóknarráðinu en hlutverk Matís í verkefninu er að gera mælingar á lyktarefnum í hráefnunum og skynmat á þeim, en skynmat er notað til að lýsa útliti, lykt, bragði og áferð matvara.
Farið var yfir stöðu verkefnisins á fundinum en Matís kynnti niðurstöður úr mælingum með rafnefi og raftungu sem framkvæmdar voru í Ísrael og gefa vísbendingar um bragð og lykt hráefnanna án þess að þau séu smökkuð. Niðurstöður úr þeim mælingum, ásamt skynmati, gefa til kynna að framleiðsluaðferðir geti haft mikil áhrif á lykt og bragð þarans.
Frekari upplýsingar um SusKelpFood verkefnið má finna á verkefnasíðu þess hér:
Sjálfbær innihaldsefni úr ræktuðum þara fyrir matvælaiðnaðinn