Fréttir

Vefnámskeið Matís öllum aðgengileg

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Matís heldur úti sérstökum námskeiðsvef þar sem margvíslegt fræðsluefni er aðgengilegt. Um er að ræða vefsvæði sem hýsir 7 námskeið en hvert og eitt tekur á ákveðnum þáttum sem mikilvægt er fyrir smáframleiðendur matvæla að kynna sér. Efni námskeiðanna er sett fram á lifandi og hagnýtan hátt og getur þar af leiðandi einnig gagnast áhugafólki um matvælaframleiðslu eða forvitnum frumkvöðlum.

Smáframleiðsla matvæla hér á landi er þó nokkur og mun líklega fara vaxandi á næstu árum. Leyfisveitendur og eftirlitsaðilar krefjast þess í mun ríkari mæli að framleiðendur hafi faglega þekkingu og reynslu til að geta framleitt öruggar og góðar vörur. Með námsefni og leiðbeiningum námskeiðanna er þeim sem ætla að hefja smáframleiðslu matvæla, gert kleift að sækja sér þekkingu sem nýtist til dæmis við alls kyns hráefnismeðhöndlun, geymslu og merkingar matvæla, umsókn um starfsleyfi, innra eftirlit og gerð gæðahandbókar.

Umfjöllunarefni námskeiðanna eru eftirfarandi:

  • Leyfismál, gæðahandbók, innra eftirlit og stofnun fyrirtækja – Leiðbeiningar til að hefja smáframleiðslu matvæla, dreifingu og sölu.
  • Örverur á kjöti – Námsefni og leiðbeiningar sem miða að því skýra mikilvægi réttrar vinnslu og meðhöndlunar matvæla svo þau valdi engum skaða.
  • Slátrun og kjötmat – Kjötmatið, þ.e. flokkun skrokka eftir kyni, aldri, holdfyllingu og fitu, gegnir veigamiklu hlutverki sem undirstaða verðlagningar og viðskipta með kjöt og til upplýsingar fyrir búfjárræktina.
  • Söltun og reyking – Bragðeiginleikar og tæknilegur tilgangur söltunar og reykingar matvæla.
  • Umbúðamerkingar matvæla og pökkun – Öllum matvælum, sem ætluð eru fyrir lokaneytendur eða stóreldhús, skulu fylgja matvælaupplýsingar í samræmi reglugerð. Einnig getur verið gott að pakka vörum í umbúðir og þá er mikilvægt að kunna til verka.
  • Hráverkun og pylsugerð – Námsefni um unnar kjötvörur, s.s. mat sem hefur verið breytt úr sínu náttúrulega ástandi á einhvern hátt, aðallega af öryggisástæðum, til að bæta bragðgæði eða auka þægindi við neyslu.
  • Sögun, úrbeining og marinering – Efni um mismunandi skiptingar á heilum skrokk í einstaka parta auk marineringar og vísindanna á bakvið hana.

Fræðsluefnið á námskeiðunum er unnið úr ýmsum gögnum s.s. þeim lögum og reglugerðum sem fjalla um matvæli, úr fyrri rannsóknum og því náms- og kynningarefni sem útbúið hefur verið hjá Matís og Matvælastofnun.

Við kaup á námskeiði opnast námsefnið og kaupandi hefur aðgang að því í 30 daga.

Matís er stærsta rannsóknafyrirtæki landsins á sviði matvælarannsókna og starfsfólk Matís hefur áralanga reynslu af rannsóknum á matvælum. Rík áhersla er lögð á að miðla þekkingunni til matvælaiðnaðar á Íslandi og vefnámskeið eru ein leið til þess.

IS