Fræðsla fyrir elstu bekki grunnskóla um loftslags- og umhverfismál, áhrif loftslagbreytinga á hafið og lífríki þess, sjávarútveg og samfélög.
Markmið fræðsluverkefnisins Grænir Frumkvöðlar Framtíðar (GFF) er fyrst og fremst að vekja áhuga og efla þekkingu íslenskra grunnskólanemenda á loftslags- og umhverfismálum, nýsköpun og sjálfbærri auðlindanýtingu í þeim tilgangi að virkja þau til baráttunnar gegn loftslagsvánni og hvetja þau til grænnar nýsköpunar. Þetta verður gert með því að veita áhugaverða og nýstárlega fræðslu og virkja þau í hugmyndavinnu og nýsköpun í samvinnu við jafnaldra sína víðsvegar um landið og fyrirtæki í heimabyggð, þar sem sérstök áhersla verður lögð á hafið og áhrif loftslagsbreytinga á lífríki þess og auðlindir. Ein helsta afurð verkefnisins verður námsefni GFF sem verður öllum aðgengilegt að verkefninu loknu í gegnum heimasíðu verkefnisins. Það hefur að geyma um 40 leiki, verkefni og tilraunir sem miða að því að fræða nemendur um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á hafið, auðlindanýtingu sjávar, sjávarútveg og samfélög
Þrír grunnskólar á landsbyggðinni, í bæjarfélögum sem reiða sig að miklu leyti á sjávarútveg voru valdir til þátttöku í verkefninu: Árskóli á Sauðárkróki, Nesskóli í Neskaupstað og Grunnskóli Bolungarvíkur. Kennarar munu þar prufukeyra námsefni GFF og að fræðslunni lokinni munu nemendur heimsækja sjávarútvegsfyrirtæki í heimabyggð og fá innsýn inn í starfsemina, sem og þær umhverfis- og loftslagsáskoranir sem fyrirtækin standa frammi fyrir. Grunnskóla MAKEeathon mun svo eiga sér stað undir regnhlíf Young Climathon (Climate KIC), aðlagað að íslenskum grunnskólanemendum í samvinnu við Cambridge University. Þar mun hver skóli vinna að lausn á skilgreindri umhverfis- og/eða loftslagstengdri áskorun í samstarfi við Fab Lab smiðjur í heimbyggð og útbúa frumgerð og kynningarmyndband.
Fylgist með á www.graenirfrumkvodlar.com og á instagram reikningi verkefnisins: gff_matis