Hringrásarhagkerfi kjötframleiðslu

Heiti verkefnis: Hringrásarhagkerfi kjötframleiðslu

Samstarfsaðilar: Kjarnafæði/Norðlenska

Rannsóknasjóður: Matvælasjóður

Upphafsár: 2022

Þjónustuflokkur:

kjot

Tengiliður

Sæmundur Elíasson

Verkefnastjóri

saemundur.eliasson@matis.is

Verkefnið snýst um nýtingu hliðarafurða úr kjötframleiðslu og er samstarf Matís og Kjarnafæði/Norðlenska. Hliðarafurðir frá sláturhúsum og kjötvinnslu eru vannýtt hráefni á Íslandi og liggja því mikil tækifæri í aukinni nýtingu og verðmætasköpun.

Markmið verkefnisins er að bæta framleiðslu og meðhöndlun hráefnis með því að greina sóknarfæri í nýtingu hliðarafurða úr slátrun. Út frá niðurstöðum greiningar sem þegar hefur átt sér stað á hliðarafurðum hjá Kjarnafæði/Norðlenska er lagt upp með að rannsaka tvo meginkosti í verkefninu; annars vegar að kanna möguleika á nýtingu og vinnslu dýrablóðs og hins vegar nýtingu almenns sláturúrgangs sem hráefni til gæludýrafóðurframleiðslu. Einnig verður framkvæmd lífsferilsgreining á núverandi ferlum og þeim nýju ferlum sem greindir verða. Nýnæmi verkefnisins snýr að notkun þekktra lausna til að bæta innlenda nýtingu og framleiðslu og þróa afurðir sem eru nýjar á Íslandi.

Afurðir verkefnisins eru m.a. kortlagning á magni og eiginleikum hliðarafurða, förgunarleiðum og kostnaði, greining á umhverfisáhrifum, greining á vinnslumöguleikum og tilraunaframleiðsla á nýjum vörum úr blóði og öðrum hliðarafurðum. Út frá niðurstöðum verður hægt að taka ákvarðanir um vinnsluferla blóðs, næstu skref í nýtingu hliðarafurða frá sláturhúsum á Íslandi og meta hvort og hvaða leiðir eru vænlegar til að fara áfram með þessa þróun.