Lífefni í íslenskri náttúru eru margvísleg og oft gædd einstökum eiginleikum sem nýta má til að auka virði afurða og efla lýðheilsu.
Lífefnahópur Matís vinnur að margvíslegum rannsókna- og vöruþróunarverkefnum á lífefnum sem nýta má meðal annars í matvæli, fæðubótarefni og snyrtivörur. Áhersla hefur verið lögð á prótein, peptíð, lípíð, sykrur og lífvirk efni og að finna, einangra og skilgreina náttúruleg lífvirk efni sem hafa heilsubætandi áhrif. Markmiðið er að stuðla að nýsköpun, þróa markaðshæfar vörur og styðja við sjálfbæra nýtingu auðlinda til sjávar og sveita. Þessi vinna fer fram í nánu samstarfi við frumkvöðla og fyrirtæki, ásamt rannsóknastofnunum og háskólum innanlands sem utan.
Ferlið frá hugmynd að nýtingu lífefna og lífvirkra efna í markaðshæfa vöru getur verið mismunandi en markmiðið er ávallt að tryggja öryggi og gæði afurðanna og að tilætluð virkni og eiginleikar séu til staðar. Liður í starfi faghópsins er að bjóða margvíslega þjónustu við vöruþróun nýrra afurða.
- Lífvirknimælingar
- Vinnslueiginleikar
- Örverumælingar
- Efnasamsetning
- Stöðuleikaprófanir
- Vörumat
- Skynmat
- Íhlutandi rannsóknir
- Neytendarannsóknir – upplifun, viðhorf, næring og heilsa
Rannsóknir á próteinum hafa verið stundaðar á Matís um árabil. Í próteinrannsóknum okkar eru m.a. ensím notuð til niðurbrots próteina í þeim tilgangi að bæta vinnslueiginleika þeirra og lífvirkni. Vinnslueiginleikar próteina eru meðal annars vatnsleysanleiki, vatnsheldni, olíubinding, froðueiginleikar og ýrueiginleikar. Dæmi um lífvirknieiginleika eru blóðþrýstingslækkandi áhrif peptíða.
Matís hefur lagt áherslu á rannsóknir á stórþörungum og unnið að hagnýtingu þeirra. Meðal annars hefur verið unnið að þróun heilsusamlegra bragðefna úr þörungum í matvæli með það að markmiði að bæta lýðheilsu og að þróun andoxunarefna og nýtingu þeirra í snyrtivörur og fæðubótarefni.
Mælingar á bragði og lykt eru mikilvægir gæðaþættir í matvælaiðnaði. Matís býður ýmis konar bragð- og lyktarefnarannsóknir sem skipta máli fyrir bragðgæði matvæla, geymslu- og framleiðsluaðferðir. Í þessum mælingum eru notaðir þjálfaðir skynmatsdómar til að meta skynræna eiginleika á borð við lykt og bragð en einnig tæki á borð við gasgreinamæli til að kortleggja magn og tegund þeirra efna sem mestu máli skipta í lykt. Rannsóknir á viðhorfum neytenda er einnig stór liður í okkar rannsóknum. Viðhorf til ýmissa innihaldsefna geta skipt miklu máli og því mikilvægt að rannsaka viðhorf til notkunar og áhrifa þeirra innihaldsefna sem við vinnum með.
Dæmi um verkefni sem eru í gangi hjá faghópnum:
- Krakkar Kokka
- Gæði og hollusta íslensks grænmetis í samanburði við innflutt grænmeti
- Uppfærsla upplýsingaveitna um íslenskt svínakjöt
- Þróun íslenskrar haframjólkur
- Saltfiskur til framtíðar
- Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis
- Hliðarhráefni úr fiskvinnslu til manneldis
- Marine Innovation using Novel Enzymes for Waste Reduction and Valorisation of Algal Biomass