Sjálfbærni og eldi

Tengiliður

Birgir Örn Smárason

Fagstjóri

birgir@matis.is

Faghópurinn vinnur markvisst að því að auka sjálfbærni og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu til eflingar íslenskra afurða og atvinnulífs.

Áherslur hópsins snúa að því að rannsaka hvernig við getum aukið framboð matvæla og eflt matvælaframleiðslu án þess að ganga á auðlindir með ósjálfbærum hætti, hvernig við getum nýtt aukaafurðir til verðmætasköpunar innan hringrásahagkerfis lífauðlinda, rannsóknir á umhverfisáhrifum matvæla ásamt ýmiskonar þjónustu og rannsóknum í fiskeldi.

Faghópurinn kemur að vinnu við nýsköpunar- og rannsóknarverkefni sem og ráðgjöf og þjónustu til viðskiptavina varðandi sjálfbæra matvælaframleiðslu. Mörg verkefni snúa að greiningu á umhverfisáhrifum og/eða kolefnisspori af framleiðslu, vöru eða þjónustu þar sem notast er við aðferðafræði á borð við lífsferilsgreiningu (LCA). Hópurinn hefur komið að vinnu við þróun staðla innan alþjóðlega staðlaráðsins (ISO) um hvernig skal greina kolefnisspor sjávarafurða. Einnig er lögð áherlsa á nýtingu auðlinda innan hringrásarhagkerfisins (circular economy), aðlögun og lágmörkun loftslagsbreytinga sem og vistkerfanálgun (ecosystem approach).

Faghópurinn hefur einnig yfir að ráða góðri aðstöðu og öflugu liði sérfræðinga á sviði fiskeldisrannsókna, þá sér í lagi hvað varðar fóðurrannsóknir. Þessi hluti starfsemi Matís hefur verið í mikilli sókn á undanförnum árum samhliða vaxandi fiskeldi, sem gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að því að tryggja fæðuöryggi heimsins, sem og verðmætasköpun og byggðaþróun hér á landi.
Matís er eftirsóttur samstarfsaðili þegar kemur að slíkum rannsóknum og nýsköpun í tengslum við fiskeldisfóður, enda hefur fyrirtækið innviði sem nauðsynlegir eru við rannsóknir og þróun á því sviði. Má þar nefna þrjú fiskeldiskerfi með hringrás (RAS) fyrir ólíkar tegundir (t.d lax, bleikju, regnbogasilung, beitarfisk og hvítrækju), örveru-, efnafræði- og líftækni rannsóknastofur þar sem unnt er að mæla flest allt sem máli skiptir sem viðkemur fiskeldisfóðri og líffræðilegum þáttum.

IS