Efnamælingar

Tengiliður

Natasa Desnica

Fagstjóri

natasa@matis.is

Eitt hlutverka Matís er að bæta öryggi, gæði og heilnæmi matvæla með rannsóknum og þróunarvinnu.

Gerðar eru rannsóknir á áhrifum æskilegra og óæskilegra efna í matvælum og fóðri hjá Matís. Áhersla er lögð á að fylgjast með og safna gögnum um ástand íslenskra matvæla með tilliti til næringarefna og mengandi efna, m.a. til þess að íslenskir matvælaframleiðendur, útflytjendur og neytendur geti metið ástand og stöðu íslenskrar framleiðslu miðað við önnur lönd. Gögnin nýtast ennfremur við áhættumat og í markaðskynningum á íslenskum matvælum.

Einnig er unnið að rannsóknum á samsetningu hráefnis og afurða í matvælavinnslu og fóðurgerð og þeim breytingum á gæðum þeirra og öryggi sem verða við vinnslu og geymslu, t.d. næringargildi, myndun eða upptöku óæskilegra efna.

Matís annast einnig vöktun á óæskilegum efnum í sjávarfangi og vinnur að samstarfsverkefni um vöktun á lífríki hafsins umhverfis Ísland á vegum Umhverfis- og auðlindaráðuneytis til þess að uppfylla skuldbindingar Íslands varðandi OSPAR og AMAP samningana. Efnarannsóknir og vöktun taka einnig til annarra matvæla sem framleidd eru hérlendis og/eða flutt inn til landsins t.d. grænmetis og ávaxta.

Sérfræðiþekking starfsmanna Matís nær m.a. yfir:

  • Rannsóknir og mælingar á ólífrænum snefilefnum (t.d. þungmálmum s.s. kvikasilfri, blýi, kadmíum)
  • Lífrænum snefilefnum (varnarefnum, PCB-efnum, díoxín, brómeruðum efnum o.fl.)
  • Umhverfisefnafræði
  • Áhættumati
  • Áhættukynningu
IS