Fréttir

Vegvísir um nýtingu lífrænna efna til áburðargjafar í landbúnaði og landgræðslu

Matvælaráðuneytið vinnur nú að gerð vegvísis um nýtingu lífrænna efna til áburðargjafar í landbúnaði og landgræðslu. Vegvísirinn tekur mið af loftlagsstefnu stjórnvalda og stefnu um hringrásarhagkerfið og er ætlað að varða veginn að því hvernig settu markmiði um sjálfbæra nýtingu lífrænna efna til áburðar verði náð í skrefum árið 2040 eða fyrr.

Verkefnið felst meðal annars í því að setja fram beinskeytta og trúverðuga áætlun sem inniheldur m.a.: mat á núverandi ástandi, greiningu á tækifærum og forgangsröðun þeirra, sem og framsetningu sviðsmynda. Matvælaráðuneytið ber ábyrgð á gerð vegvísisins, en hefur sér til halds og trausts ráðið Verkfræðistofuna Eflu til að aðstoða við verkið, auk þess sem stofnanir Ráðuneytisins og hagaðilar sitja í stýrinefnd, þ.e. Matís, RML, Landgræðslan og MAST.

Fjórða október sl. var haldinn vinnufundur í verkefninu þar sem 35 hagaðilar úr hinum ýmsu atvinnugreinum fengu tækifæri til að kynna sér gerð vegvísisins og koma með innlegg í vinnuna. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Matís og fóru þar fram góðar umræður sem án efa munu koma að gagni við gerð vegvísisins, sem til stendur að verði birtur fyrir lok árs.

IS