Fréttir

Rannsóknarúrræði bætt í Tansaníu

Nýtt og glæsilegt rannsóknarskip hefur verið afhent stjórnvöldum í Tansaníu. Það mun nýtast við rannsóknir á fiskistofnum í Tanganyikavatni, en fiskur þaðan er ein megin fæðuuppsprettan í landinu sem og í nágrannalöndunum Búrundí, Kongó og Zambíu.

Nýlega afhentu starfsmenn Matís stjórnvöldum í Tansaníu vel útbúið rannsóknarskip fyrir Tanganyikavatn í Tansaníu. Með afhendingu skipsins lýkur formlega tveggja ára þróunarsamvinnuverkefni Matís í Tansaníu sem meðal annars miðaði að því að þróa vinnsluaðferðir á fiski og bæta rannsóknarúrræði og skilning á lífríki í vatninu.  Fjöldi fólks byggir lífsviðurværi sitt af veiði í vatninu enda annað stærsta ferskvatn í heimi, þó aðferðir við veiðar og vinnslu séu frumstæðar.

Stuðlar að sjálfbærri þróun

„Með aukinni þekkingu á efnasamsetningu vatnsins og lífríki er hægt að stuðla að sjálfbærri þróun fiskistofna og efla samþættingu veiða. Skipið mun því koma vel að notum við rannsóknir og mat á stofnstærðum fiska og til að skilja efnafræðilega þróun í vatninu,“ segir Margeir Gissurarson, verkefnastjóri  hjá Matís.  

Tanganyikavatn er á landamærum Búrundí, Kongó, Tansaníu ogZambíu og er mikilvæg fiskveiðiauðlind með einstakt líffræðilegt vistkerfi.  Vatnið er um 32 þúsund ferkílómetrar að stærð eða um þriðjungur af flatarmáli Íslands.

Matís tekur reglulega þátt í þróunarsamvinnuverkefnum víða um heim. Í þessu samstarfi er til að mynda stuðlað að uppbyggingu þekkingar í matvælaiðnaði í þróunarlöndum við Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og annarra er vinna að þróunarsamvinnu.


 
 
 Skipið sem var gert upp Nýja skipið er útbúið nákvæmum tækjum

Fréttir

Nýleg samantektarskýrsla afhjúpar eiturefni í umhverfinu

Nýleg yfirlitsskýrsla um per- og  polyflúoreruð alkanefni (PFC) leiddi í ljós að talsvert vantar af eðlisefnafræðilegum gögnum um stóran hluta þessara efna. En vísbendingar er um að þau geti valdið alvarlegum eituráhrifum og skaðað heilsu manna og dýra.

Markmið verkefnisins var að afla frekari upplýsinga um hvernig PFC efni eru notuð og losuð á Norðurlöndunum og á Norðurheimsskautssvæðinu. Samantektarskýrslan var unnin af Matís í samstarfi við hóp sérfræðinga á Norðurlöndunum, fyrir KLIF (Norwegian Climate and Pollution Agency) og Norræna efnafræðihópinn (NKG) sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina (Nordic Council of Ministers).

Hafa áhrif á æxlun

PFC efni eru mjög stór og flókinn hópur af lífrænum efnum sem hafa fjölbreytta virkni. Þau hafa verið framleidd í um 50 ár með efnasmíðum en þau myndast ekki af náttúrunnar hendi. Þau eru víða notuð í iðnaði og inn á heimilum. Notkun þeirra hefur hingað til verið talin örugg og því verið töluverð. Hinsvegar fóru áhyggjur vísindamanna að vakna þegar víðtæk útbreiðsla efnanna uppgötvaðist í umhverfinu (m.a. í ísbjörnum), sérstaklega í ljósi þess að rannsóknir benda til  þess að PFC efni geti t.d. haft áhrif á æxlun og að þau brotni sérstaklega hægt niður í náttúrunni.

Í kjölfar þessara uppgötvana hefur athygli ESB nú beinst að því að skoða notkun þessara efna og flokkun. OECD hefur skráð samtals 853 mismunandi flúorefnasambönd og fleiri eiga eftir að bætast í hópinn. Þessi tala gefur til kynna að fjöldi flúoreraðara efna eru notuð í dag, á sama tíma og lítið er vitað um uppsprettur efnanna og enn minna um dreifingu þeirra og umhverfisáhrif.

Verkefnavinnunni var skipti í þrjá aðalþætti. Í fyrsta lagi greiningu á helstu per- og polyflúoreruðu efnunum og notkun þeirra í ýmsum atvinnugreinum á norrænum markaði. Í öðru lagi greiningu á mögulegri losun og áhrifum í norrænu umhverfi og í þriðja lagi samantekt á þekkingu á eituráhrifum forgangsefna í þessari könnun. Bæði voru skoðuð áhrif á menn og dýr.

Fáar vísindarannsóknir um PFC efni

Niðurstöðurnar bera það með sér að töluverður upplýsingaskortur er um flest PFC efna á norrænum markaði. Í afar fáum tilfellum liggja fyrir nákvæmar markaðsupplýsingar um efnasamsetningu, magn, framleiðslu og notkun þeirra. En samkvæmt núverandi löggjöf er ekki skylt að birta upplýsingar um tiltekin PFC efni. Þessar eyður eru til komnar vegna vanþekkingar og viðskiptaleyndamála. Einungis fáeinar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar um flest PFC efni í norrænu umhverfi og litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar um áhrif efnanna á menn. Hinsvegar hafa eiturverkunarrannsóknir á dýrum sýnt að einstök PFC efni geta haft neikvæð áhrif á eðlilega þróun, æxlun og ónæmiskerfi með því að minnka líkamsþyngd, valda lifrareitrun og hafa áhrif á innkirtla kerfið, þ.á.m. kyn- og skjaldkirtilshormón.

Þegar eituráhrifa gætir vegna PFC efna er sjaldnast einu efni um að kenna, heldur er yfirleitt um blöndu af ýmsum PFC efnum að ræða í bland við aðra umhverfisþætti. Í framtíðar rannsóknum á PFC efnum þarf því að leggja áherslu á áhrif blöndunar PFC efna og afleiður þeirra. Auk þess sem þörf er á viðmiðunarefni til greiningar, gögn um eiturefnafræði og upplýsingar um tilvist þeirra í mönnum og umhverfi. 

Rannsóknarskýrslan var birt sem Tema Nord skýrsla og má nálgast hana á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Fréttir

Íslenskt sjávarsalt bætir nýtingu saltfisks

Íslendingar hafa lengi verið þekktir fyrir saltfiskframleiðslu sína, en hún hefur verið ein af undirstöðum íslensks efnahags, þrátt fyrir að saltið sé að mestu innflutt. Nýleg rannsókn bendir þó til þess að sé íslenskt salt notað til verkunarinnar, eykst nýtni vörunnar.

Söltun hefur verið ein helsta geymslu aðferð Íslendinga, ásamt þurrkun og súrsun um aldir. Hérlendis var þó oft erfitt að nýta söltunina þar sem talsverður skortur var á salti á Íslandi allt fram á 17. öld, þar sem hér var ekki nægileg þekking til staðar á vinnslu salts úr sjó. Hér er heldur ekki nægileg sól til sólþurrkunnar salts eins og þekkist víða erlendis. Því þurfti að flytja saltið inn og varð saltfiskverkun vinsæl hér á landi, eftir því sem aðgengi að salti jókst. Útflutningur á saltfisk hófst svo í kringum 1800 og fljótlega urðu Íslendingar meðal stærstu saltfiskframleiðanda í heimi og hefur hann síðan verið ein okkar mikilvægasta útflutningasvara og lengi vel undirstaða íslensk efnahags.

Neysla saltfisks byggir á gamalli hefð og er neyslan sérstaklega mikil í Suður-Evrópu og Rómönsku-Ameríku. Því er saltfiskverkun enn mikilvægur hluti af bolfiskvinnslu, þrátt fyrir að nútímatækni bjóði upp á aðrar geymsluaðferðir eins og kælingu eða frystingu. Ástæða þess eru þau sérstöku bragðeinkenni sem saltfiskur hefur og myndast við verkun hans þar sem lykt, útlit og áferð breytist.

Saltfiskur hefur mikið geymsluþol og byggir það helst á því að saltið dregur úr hlutfalli vatns í fiskvöðvanum sem hindrar vöxt örvera. Við saltfiskverkun er lykilatriði að nota hágæða matvælasalt, til að tryggja gæði vörunnar. Á Íslandi hafa verið gerðar tilraunir til að vinna salt innanlands og nýverið var unnin rannsókn hér hjá Matís í samstarfi við fyrirtækið Agnir ehf. og Orku- og tækniskóla Keilis, sem miðaði að því að nýta jarðsjó á Reykjanesi til að framleiða salt, sem meðal annars mætti nota við saltfisk framleiðslu. Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóð í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóðs Íslands.Aðferð var þróuð til að framleiða salt með með jarðhita á Reykjanesi. Þessi framleiðslu aðferð hentaði vel til að stýra efnasamsetningu saltsins, sem er einkar mikilvægt til að tryggja rétta verkun. Saltið sem unnið var úr jarðsjó var borið saman við innflutt salt frá Miðjarðarhafi við framleiðslu á söltuðum þorskflökum. Niðurstöður leiddu í ljós að hærri nýting fékkst í saltfiskverkun með salti unnu úr jarðsjó, ásamt því að verkunin tók styttri tíma þar sem upptaka salts í þorskvöðva var meiri í samanburði við innflutta saltið. Salt unnið úr jarðsjó var því algjörlega sambærilegt innfluttu salti að gæðum. Það sannast því enn og aftur að hér á Íslandi höfum við einstakar náttúruauðlindir sem við getum nýtt á sjálfbæran hátt, hreinleiki þeirra og gæði gera það einnig að verkum að þessar vörur eru fullkomlega samkeppnishæfar og eftirsóttar.

Skýrslur

Rækja – pæklun út frá eiginleikum

Útgefið:

01/07/2013

Höfundar:

Arnljótur B. Bergsson, Ásbjörn Jónsson, Gunnar Þórðarson, Lárus Þorvaldsson, María Guðjónsdóttir, Minh Van Nguyen, Sigurjón Arason

Styrkt af:

AVS Rannsóknasjóður í sjávarútvegi

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Rækja – pæklun út frá eiginleikum

Umfang innfluttrar frosinnar rækju krefst þess að vel sé vandað til við uppþíðingu hráefnsins eins er pæklun rækju einkar mikilvæg fyrir vinnslu þeirrar vöru sem framleidd er úr hráefninu. Unnið var að því að besta verklag við uppþíðingu og forpæklun rækju m.t.t. hráefniseiginleika.   Hráefniseiginleikar voru kortlagðir með hefðbundum vottuðum mæli‐aðferðum sem og lágsviðs kjarnsmunamælingum og aukin heldur með nær innrauðri litrófsgreiningu.   Fylgst var með breytingum í rækju sem áttu sér stað við pæklun rækju. Vinnsluaðstæður voru kortlagðar með varamalíkönum. Áhrif af notkun fosfats sem tæknilegs hjálparefnis voru könnuð. Rétt hlutföll rækju og pækils, sem og hitastig pækils, eru forsendur þess að stöðugleiki ríki við forpæklun þannig að tilætlaður árangur náist. Með réttri beitingu eykur fosfat afköst við vinnslu rækju en fylgir ekki rækju í umbúðir neytendavöru. Vanstilt pæklun dregur úr nýtingu.

The volume of imported frozen shrimp demands optimal processes for defreezing the raw material. Brining is most important for the processing of the product that is produced from the raw material. Efforts were made to optimize defreezing and brining of shrimp depending on raw material quality attributes.   Quality attributes of shrimp were mapped by accrecated methods as well as NMR and NIR measurments.   Changes in shrimp were observed during the brining process. Processing conditions were charted with thermo‐models. Effect of usages of phosphate as technological adjuvants was observed. Porpotions of shrimp and brine, as well as temperature of brine are presumptions of stability during brining for expected results to be achieved. With correct application, phosphate increases processing performance and does not accompany shimp into packaged consumer product. Uncontroled brining reduces product/raw material yield.

Skoða skýrslu

Fréttir

Lífshættulegur faraldur á vesturlöndum

Hvernig á að bregðast við lífsstílstengdum sjúkdómum? – Viðtal við Svein Margeirsson forstjóra Matís.

Í dag er talið að rúmlega 2 milljarðar einstaklinga í heiminum þurfi að kljást við afleiðingar ofþyngdar og offitu á sama tíma og tæplega milljarður manna er vannærður. Langstærstur hluti þeirra sem kljást við offitu búa á vesturlöndum, en þar eru lífsstíls tengdir sjúkdómar nú helsta ógnin á meðan malaría og HIV er helsti áhættu þátturinn á vannærðari svæðum heims. Ógn lífsstílssjúkdóma er raunveruleg og hefur vaxið mikið síðastliðinn  áratug.  Í dag er talið að 86% dauðsfalla í Evrópu megi rekja til þeirra.[1] En hvað er til ráða? þarf að efla lyfjaiðnaðinn eða má finna aðrar lausnir?

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís telur að til þess að snúa þróuninni við þurfi hugarfarsbreytingu almennings og samstillt átak á sviði rannsókna og nýsköpunar í matvæla- og líftækniiðnaði. Hann segir lýðheilsu vera viðfangsefni morgundagsins, ef stemma eigi stigu við lífsstílssjúkdómum sem eru raunverulegur faraldur á Vesturlöndum. En eitt af megin hlutverkum Matís er einmitt að stuðla að bættri lýðheilsu.

Hvernig er hægt að bregðast við ástandinu?

„Í baráttunni við sjúkdóma á borð við skyrbjúg, berkla og mislinga spilaði menntun og upplýsing lykilhlutverk sem og rannsóknir. Það sama á við um lífstílssjúkdómana.  Við ættum  horfa til menntunar og rannsókna, í takti við atvinnulífið.  Með rannsóknum vísindamanna, í samstarfi við lyfja-og matvælafyrirtæki má ná umtalsverðum árangri. En til að það sé raunhæft þarf að leita nýrra leiða og forgangsraða rétt og vel má vera að meiri árangur fyrir heildina náist með því að rannsaka, þróa og mennta, til að koma í veg fyrir lífstílssjúkdómana í stað þess að takast á við þá í risavöxnu og sífellt stækkandi heilbrigðiskerfi. Og í raun ættu allir mennta-, fjármála- og nýsköpunarráðherrar hins vestræna heims spyrja sig hvor leiðin sé fýsilegri og skili meiru til samfélagsins til langtíma litið.“

Hvað hefur Matís lagt á vogaskálarnar? 

„Við lítum svo á að öflugt atvinnulíf, í formi stofnana og fyrirtækja sé forsenda velferðar og lífsgæða. Sjálfbær nýting auðlinda er önnur forsenda og til þess að hægt sé að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt þarf mikla þekkingu. Því haldast „þekkingariðnaðurinn“ og „hráefnaiðnaðurinn“ hönd í hönd en eru ekki andstæður eins og stundum er lagt upp með.

„Þess vegna höfum við lagt mikla áherslu á auknar tengingar við menntastofnanir og segja má að Matís hafi orðið vel ágengt í þeirri brúarsmíð sem þarf að verða milli menntastofnana, rannsóknarfyrirtækja og atvinnulífsins. Reynslan sýnir hversu miklu sú brú getur skilað til aukinnar verðmætasköpunar. Auk þess þá fer matvælaframleiðsla á Íslandi að stórum hluta fram utan höfuðborgarsvæðisins og frá stofnun Matís hefur verið lögð áhersla á rekstur starfsstöðva út um land allt til að fylgja eftir áherslum og tækifærum á hverju svæði fyrir sig, í samvinnu við heimamenn, sem hefur gefið góða raun.“ 

Hvernig sér Matís fyrir sér að hægt verði að breyta neyslu mynstri fólks?

„Við getum án efa horft til Noregs og lært af því hvernig þeir hafa þróað rannsóknar- og þróunarprógramm sem gengur út á að nýta og undirbyggja styrkleika Norðmanna; sjávarútveg, á sama tíma og horft er til framtíðar og sjónum beint að því hvernig norskur sjávarútvegur getur stuðlað að því að leysa úr þeirri áskorun sem lífstílssjúkdómar eru. Norðmenn meta hlutina svo að framtíðarneytendur matvæla muni horfa til heilsufarslegra áhrifa þeirra, ekki síður en til þess að fá magafylli. Fiskeri og Havbruksfonden, sem í raun er risavaxin markáætlun Norðmanna í sjávarútvegi, undir stjórn greinarinnar þar í landi er drifkraftur þessa átaks, í góðu samstarfi við rannsóknastofnanir, háskóla, norska sjávarútvegsráðuneytið og norska heilbrigðisráðuneytið.“

 „Hér á landi vantar töluvert upp á að við nýtum okkur sjávarafurðir til neyslu og til þess að það verði þarf að breyta orðræðunni um sjávarútveg í samfélaginu sem um þessar mundir snýst aðallega um kvóta og veiðileyfagjald, en ekki ávinninginn af neyslu sjávarafurða. Í dag borðar ungt fólk, á aldrinum 17-26 ára að meðaltali rúm 30-40 g af fiski á dag, sem samsvarar um það bil einum munnbita, sem er merkilegt í ljósi þess hvað við vitum mikið um heilnæmi sjávarfangs og áhrif lífstílssjúkdóma á heilbrigðiskerfið.[2] Aukin neysla sjávarfangs er vitaskuld einungis eitt dæmi um aðgerð sem gæti stuðlað að bættri lýðheilsu.“

„Það felast mikil tækifæri í því að virkja alla virðiskeðju menntunar, rannsókna, þróunar og nýsköpunar á þessu sviði.  Við eigum markvisst að takast á við hin stóru viðfangsefni á sviði lýðheilsu, með rannsóknir og þróun í vopnabúrinu.  Annars er hætt við að heilbrigðiskerfið ráði ekki við vandamálið, sem sligi þjóðfélagið.  Við eigum að geta gert betur en það.“


[1] Hannes Hrafnkelsson: „Langvinnir lífsstílssjúkdómar – mesta ógn nútímans við heilbrigði“, Læknablaðið 5. tbl, 99. árg 2013.

[2] Gunnþórunn Einarsdóttir, „Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða“, Ritgerð til MA prófs frá Háskóla Íslands 2008. Sjá: http://www.avs.is/media/avs/Vidhorf_og_fiskneysla.pdf

Fréttir

Matís í Færeyjum

Sigurjóni Arason hélt erindi við opnun Granskarasetursins

Nýlega hóf Granskarasetrið í Færeyjum starfsemi sína.  Matís hefur lengi átt í góðu samstarfi við frændur okkar í Færeyjum og við opnun Granskarasetursins var Sigurjóni Arasyni, yfirverkfræðingi Matís, boðið að halda erindi um starfsemi Matís og möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu. 

Hér er stutt frétt af vef Fróðskaparseturs Færeyja um heimsókn Sigurjóns.  Um að gera fyrir alla að rifja færeyskuna aðeins upp!

Skýrslur

Bætt nýting grásleppuafurða / Production development of lumpfish

Útgefið:

27/06/2013

Höfundar:

Gunnar Þórðarson (Matís), Skjöldur Pálmason (Fiskvinnslan Oddi), Ólafur Reykdal (Matís)

Styrkt af:

AVS V 11 020‐11

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Bætt nýting grásleppuafurða / Production development of lumpfish

Með reglugerð sjávarútvegs‐  og landbúnaðarráðuneytisins, Nr 1083/2010, var gert skylt að koma með allan grásleppuafla að landi eftir 2011. Það þurfti því að bregðast hratt við og finna markaði fyrir grásleppuna sjálfa, en aðeins hrognin höfðu verið hirt og restinni fleygt í sjóinn. Mikið frumkvöðlaframtak hafði átti sér stað í nokkur ár og er rétt að nefna Landssamband smábátaeigenda og útflutningsfyrirtækið Triton í því samhengi, sem í sameiningu byggðu upp markað fyrir grásleppu á Kínamarkað, með hvelju og öllu saman. Rétt er að taka fram að hrognin eru um 30% af þyngd grásleppu en hveljan með haus og hala um 55% og þar af eru flökin aðeins 14% af heildarþyngd hennar. Til mikils var að vinna og ljóst að mikil verðmæti liggja í þessari vannýttu fisktegund og mikil tækifæri myndu skapast í mörgum sjávarbyggðum við framleiðslu og útflutning á grásleppu. Jafnframt auknum tekjum fyrir sjómenn og útgerð ásamt því að slæging grásleppunnar færðist nú að mestu í land, en það skapaði mikla vinnu hjá aðilum í framleiðslu. Slæging fyrir Kínamarkað er ólík hefðbundinni aðferð og kallar á flóknari handbrögð en það gerir kröfur um betri vinnuaðstæður sem ekki eru fyrir hendi um borð í litlum fiskibátum.   Litlar upplýsingar voru til um efna‐  og næringarinnihald grásleppu en slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar við markaðssetningu afurða. Unnin var ítarleg skýrsla um efnið og notast við hráefni víða af landinu. Geymsluþolsrannsóknir voru gerðar á frosinni grásleppu. Haldin var ráðstefna á Patreksfirði þar sem hagsmunaaðilum í veiðum, vinnslu og útflutningi grásleppu var boðið til samræðu um hagsmunamál greinarinnar.

A new regulation from Minister of Fisheries and Agriculture, No. 1083/2010, require returning all lumpfish fished in Iceland, after 2011. A quick action had to be taken to find markets for lumpfish itself, but only the roes which have been processed but the rest of the fish have been discarded into the sea. With entrepreneurial activity for some years now new markets have been developed in China, by the National Association of Small Boat Owners in Iceland in cooperation with the export company Triton. It should be noted that the roes are only about 30% of the total weight of lumpfish, with head and tail about 70% of its total weight.   There was much to be done to save value in the lumpfish business and great opportunities for small communities relying on this business and find a market for the lumpfish product and create extra value for stakeholders. Furthermore, increased income for fishermen and fishing communities by creating valuable work by processing the fish at shore. Gutting and trimming the lumpfish for the China market is different from the traditional approach and calls for more sophisticated self‐ administration, but it requires better working conditions that do not exist on board small fishing boats. Very little information on chemical composition and nutrient value has been available for lumpfish products. In‐depth report on this subject was prepared, using samples from different regions in Iceland.   Self‐life experiments were prepared by this project. A work shop was held in Patreksfjordur in May 2013, with stakeholders from the lumpfish business participating.

Skoða skýrslu

Fréttir

Aukin vinnsla skilar verðmætum

Á síðustu árum hefur mikill metnaður verið lagður í fullnýtingu fisks hér á landi sem hefur stuðlað að mikilli verðmætasköpun og sem dæmi má nefna að árið 2012 var hvert veitt tonn af ýsu um þriðjungi verðmætara en það var árið 2008.

Á síðustu árum hefur mikill metnaður verið lagður í fullnýtingu fisks hér á landi, sem hefur skilað góðum árangri, ef miðað er við aðrar fiskveiðiþjóðir. Norðmenn sem gjarnan eru álitnir okkar helstu „keppinautar“  eru meðal þeirra sem horfa nú til Íslands í viðleitni sinni til að auka aflaverðmæti. Munurinn á aflanýtingu Íslendinga og Norðmanna er umtalsverður. Á Íslandi fást t.d. 570 kg af afurðum úr 1 tonni af þorsk en sama magn skilar Norðmönnum aðeins 410 kg af afurðum. Munurinn nemur 16% eða 160 kg á hvert tonn sem  þýðir að virðisaukning Norðmanna út frá heildarafla þeirra í Barentshafi árið 2013 gæti numið rúmlega 1 milljarði NOK eða 21 milljarði ISK. ef þeir tileinkuðu sér aðferðir Íslendinga.[1]

En á sama tíma og Íslendingar geta glaðst yfir því hve vel hefur tekist til er það  staðreynd að hér má gera enn betur og það er enn talsvert svigrúm fyrir enn  frekari nýtingu og nýsköpun. Þá er umhugsunarvert hversu stór hluti aflans fer óunninn úr landi en segja má að milljarða verðmæti leki úr landi í formi óunnins eða lítt unnins afla á ári hverju. En auðveldlega mætti auka útflutningsverðmæti sjávarafurða með meiri vinnslu í landi.

Ýsan verður verðmætari

Á fundi fyrir nokkrum misserum kom fram að árið 2008 hafi um  2,2 milljarða verðmæti tapast eingöngu vegna þess að ýsa hafi verið seld úr landi óunnin, en heildarverðmæt slægðar ýsu var þá um  4,6 milljarðar. Úr þessu sama magni mátti framleiða 11.000 tonn af roð- og beinlausum flökum og 1.730 tonn af þurrkuðum hausum, en samtals verðmæti slíkra afurða var um 6,8 milljarðar. Þannig hefði mátt auka virði aflans um 33%  ef ýsan hefði verið unnin hér á landi. Sem betur fer eykst vinnslan hér heima ár frá ári sem hefur skilað sér í atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun.

Frá árinu 2008 hefur ýsuaflinn dregist umtalsvert saman og árið 2012 var hann 47.700 tn. eða tæpur helmingur þess sem hann var árið 2008 þegar hann var 102.400 tn. Þrátt fyrir þennan mikla aflasamdrátt þá hafa útflutningsverðmæti ýsuafurða í íslenskum krónum aðeins dregist saman um 23%. Ef veiddu magni er deilt á heildarútflutningsverðmætin og notað gengi evrunnar þá kemur í ljós að hvert veitt tonn af ýsu er um þriðjungi verðmætara árið 2012 en 2008 í evrum.  Þetta bendir tvímælalaust til þess að aukin vinnsla verðmætari afurða hefur átt sér stað og leiða má líkum að því að hægt sé að gera enn betur með aukinn vinnslu og bættri nýtingu.

Nám í matvælafræði eykur nýsköpun

Matís hefur staðið að ýmsum rannsóknum sem stuðla að bættri meðferð og betri nýtingu aflans og skilar það sér tvímælalaust í auknum möguleikum í framleiðslu verðmætari afurða en áður. Fyrirtækið hefur einnig tekið þátt í að þróa vinnsluferla fyrir vörur á borð við þurrkaða þorskhausa og niðursoðna lifur. Auk þess að hafa  verið með í verkefnum sem stuðla að bættri hönnun  fiskvinnslutækja með það að markmiði að hámarka nýtingu, auka afköst og bæta gæði. Matís hefur einnig átt í góðu samstarfi við Háskóla Íslands og kom að stofnun meistaranáms í Matvælafræði sem er liður í því að auka faglega þekkingu á vinnslu og meðhöndlun matvæla auk þess sem virt samstarf í frjóu umhverfi gefur af sér hugmyndir og öfluga nýsköpun. Svo vel hefur Matís tekist til í samstarfi sínum með háskólanemendum að íslenskir nemendur í matvælafræði og tengdum greinum eru orðnir eftirsóttir hjá stórfyrirtækjum eins og fram kom í frétt hér á síðunni fyrir skömmu. Sjá frétt.

Einkunnarorð Matís, Okkar rannsóknir – allra hagur, eiga því einkar vel við í þessu samhengi, enda hafa rannsóknir fyrirtækisins nú þegar skilað þjóðarbúinu arði. Þó er ljóst að stjórnvöld þurfa að tryggja aukna fjármuni til matvælarannsókna, þar liggur án efa fjárfesting til frambúðar, ef við getum aukið aflaverðmæti okkar með því einu að auka við vinnsluna hér heima með nýsköpun og vöruþróun á afurðum okkar sem gæti á sama tíma leitt til atvinnusköpunar fyrir fjölda fólks.

„Barentshaf: Þorskkvótinn aukinn í milljón tonn-250 þúsund tonna aukning“

Fréttir

SAFE minnir á mikilvægi matvælaöryggis

SAFE Consortium gefur út stefnumarkandi skýrslu um rannsóknaráherslur og mikilvægi matvælaöryggis. Skýrslan var afhent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en hún ítrekar mikilvægi þess að matvælaöryggismál séu sett í forgrunn allra matvælarannsókna. 

Þann 4. júní síðastliðinn gaf SAFE Consortium, sem er samstarfsvettvangur Evrópskra rannsóknarstofna á sviði matvælaöryggis, út stefnumarkandi skýrslu um rannsóknaráherslur og mikilvægi matvælaöryggis. Skýrslan var afhent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en hún ítrekar mikilvægi þess að matvælaöryggismál séu sett í forgrunn allra matvælarannsókna.

Matís hefur verið öflugur þáttakandi í  SAFE samstarfinu undanfarin ár ekki síst vegna þess að Oddur Már Gunnarsson sviðstjóri viðskiptaþróunarsviðs hjá Matís hefur gengt lykilhlutverki í starfsemi SAFE. Hann var formaður samtakana frá 2010 til 2012 og hefur undanfarið ár verið aðalritari SAFE. Samhliða hefur Matís tekið yfir rekstur skrifstofu SAFE en það er liður í endurskipulagningu á starfsemi samtakana.

Matvælaöryggi er grunnstoð matvælaiðnaðarins

Um tilurð skýrslunnar segir Oddur: ,,Matvælaöryggi í Evrópu hefur verið í góðum málum og fá vandamál hafa komið upp á síðustu árum, því hafa menn svolítið sofnað á verðinum og fjármagn til málaflokksins hefur minkað og þar með viðbúnaðurinn. Í rammaáætlun Evrópusambandsins er matvælaöryggi orðið samofið öðrum þáttum á borð við fæðuöryggi, sjálfbærni og fleira í þeim dúr. En matvælaöryggi þarf að vera grunnurinn sem við byggjum á. Öll nýsköpun í matvælaiðnaði þarf að byggja á matvælaöryggi og því þarf það að vera nefnt sérstaklega sem grundvöllur fyrir öllum matvælaiðnaði. Það er lítill tilgangur að hafa nóg af mat ef hann er ekki öruggur – öryggið er lykilþáttur.“

Þá hefur Oddur tekið þátt í að marka nýja stefnu SAFE sem byggir á því að færa samtökin frá því að sinna nær eingöngu fræðslu yfir að vera stefnumarkandi fyrir aðra sem koma að þessum málaflokki og búa svo um að matvælaöryggi sé á oddinum allstaðar. Hann segir samtökin hafi þurft að finna  leiðir til að hagræða í rekstri en á sama tíma halda uppi markvissum störfum. Gerð skýrslunnar er hluti af þessu og telur Oddur að SAFE hafi markað sér nýja stöðu með útgáfu hennar. ,,SAFE var mögulega orðið svolítið þreytt vörumerki, þú þarft alltaf að endurnýja það sem þú ert að gera í takt við tímann, til að það skili árangri.“

Hann segir skýrsluna hafa fengið góðar viðtökur af framkvæmdastjórninni í Brussel, þar sem vakin er athygli á þeim hættum sem eru við sjóndeildarhringinn og hvernig byggja megi á núverandi reynslu til að tryggja öryggi neytenda. „Menn voru almennt sammála um að það sem stæði í skýrslunni væri gott og mér fannst erindi hennar ná í gegn. Þeir tóku undir allt sem við sögðum og við vonumst til að það skili sér í framtíðar rannsóknum Evrópusambandsins.“

Langtímarannsóknir gefa yfirsýn

Oddur segir að rannsóknir Matís séu afar mikilvægar fyrir SAFE enda fyrirtækið afar virt í evrópsku vísindasamstarfi. „Það gefur líka mikilvæga yfirsýn að fá skýrslur og rannsóknir frá öllum hornum  Evrópu sem byggja á langtímarannsóknum.  Þær gera okkur kleyft að leita eftir sameiginlegri reynslu og hjálpa samtökunum að koma auga á hætturnar sem eru til staðar. Ennþá er lítið vitað um ýmsa þætti sem snúa að matvælaöryggi, til dæmis áhrifa efnamengunar á matvæli og samhengi aukins ofnæmis og aukaefna í matvælum.“

Oddur segir að samstarf við SAFE sé gott bakland og tryggi Matís góð sambönd innan Evrópu. „Innan samtakana starfa 13 stofnanir og aflið sem felst í fjöldanum verður ekki dregið í efa. Þátttaka í starfi SAFE gefur okkur rödd innan Evrópusambandsins og þannig getum við haft áhrif á það hvaða rannsóknir verða settar í forgrunn þar á næstu árum.“

Fréttir

Íslendingar stuðla að virðisaukningu í Bangladesh

Rækju og fisksamband Bangladesh (BSFF) óskaði fyrr á þessu ári eftir aðstoð frá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna og Matís við að finna leiðir til að minnka hráefnistap, við fiskveiðar, slátrun og flutning á markað sem og við að auka nýtingu á aukaafurðum sem falla til við vinnslu.

Rækju og fisksamband Bangladesh (BSFF) óskaði fyrr á þessu ári eftir aðstoð frá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna og Matís við að finna leiðir til að að minnka hráefnistap, við fiskveiðar, slátrun og flutning á markað sem og við að auka nýtingu á aukaafurðum sem falla til við vinnslu. Ástæða samvinnunnar er m.a. sú að nokkrir nemendur frá Bangladesh hafa á undanförnum árum verið við nám við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna, þar sem Matís hefur tekið virkan þátt í kennslunni. Þá hefur þekking og árangur Íslendinga við nýtingu aukaafurða og virðisaukningu sjávarafurða vakið athygli þar sem og annars staðar í heiminum.

Tækifæri til nýsköpunar og virðisaukningar

Af þessu tilefni fóru þeir Dr. Guðmundur Stefánsson og Oddur Gunnarsson frá Matís og Mary Frances Davidson frá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna til Bangladesh dagana 11.-17. maí síðastliðinn. Þar fengu þau tækifæri til að kynna sér fiskveiðar, vinnslu og fiskeldi með það markmið að leita leiða til að minnka framleiðslu tap, skapa nýjar verðmætar vörur og auka þekkingu á matvælaöryggi. Auk þess að finna leiðir til að auka samstarf milli Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna, Matís og Bangladesh. Heimsóknin vakti talsverða athygli þar í landi og var fjallað um hana í dagblaðinu Financial Express. Enda ljóst að virðisaukning sjávarafurða þar í landi gæti orðið talsverð með breyttum vinnsluaðferðum.  

Fiskur er mikilvæg fæða í Bangladesh og um 15 milljónir manna hafa atvinnu við veiðar, eldi og vinnslu. Á hverju ári eru unnin þar um 3 milljónir tonna af fiski. Mest af því rækjur, tilapia og pangasus sem fara til sölu innanlands. Einungis lítið brot er flutt úr landi, en útflutningur nemur aðeins um 100.000 tonnum. Rækja er viðamesta einstaka útflutningsvaran og árlega eru flutt út í kringum 50.000 tonn af henni, en hráefnisframboð er takmarkað sem stendur í vegi fyrir frekari útflutningi. Rækjan er yfirleitt flutt út haus og skellaus. Við vinnsluna fellur til mikið af aukaafurðum eða allt að 20.000 tonn sem ekki eru nýttar. Þar eru augljós tækifæri fyrir frekari vinnslu og verðmætasköpun og gott tækifæri fyrir Matís til að miðla af þekkingu sinni.  

Eftirliti ábótavant

Í Bangladesh er mikil þörf á að bæta meðhöndlun á afla fyrir innanlandsmarkað. Af þeim 43.000 skipum sem mynda flotann er einungis hægt að ísa fiskinn um borð í fáeinum þeirra oftast vegna aðstöðuleysis auk þess að oft er erfitt að nálgast ís. Það þýðir að stór hluti af þeim afla sem fer á innanlands markað er ókældur frá því að hann er veiddur og þar til að hann kemst í hendur neytandans. Þá eru aðstæður á mörkuðum og í flutningum ekki til fyrirmyndar, því oft er fiskurinn illa eða ekkert ísaður auk þess sem hreinlæti er verulega ábótavant. Talið er að um fjórðungur af aflanum og eldisafurðunum skemmist vegna skorts á kælingu og slæmrar meðhöndlunar og séu því ekki hæf til manneldis.

Eftirlit með vinnslu og öryggi minni skipana er einnig lítið sem ekkert, þrátt fyrir að þau sjái innanlandsmarkaðinum nær eingöngu fyrir fiski. Hinsvegar er eftirlit með stærri skipum og frystitogurum í flestum tilfellum í góðu lagi, en í landinu fyrirfinnast 175 frystitogarar og þar af 74 sem uppfylla ströngustu kröfur og mega flytja vörur til Evrópusambandsins og á aðra stóra markaði. Að sama skapi er lítið eftirlit með löndunarhöfnum, mörkuðum, geymsluaðstæðum, verksmiðjum og fiskeldi. Liggur vandinn í því að alltof fáir einstaklingar sinna þessu eftirliti en í heildina eru þeir rúmlega 70 í landi sem telur 160 milljónir og fara starfskraftar þeirra að mestu í að fylgja eftir lögum og reglum vegna útflutnings. 

Þá er staða fiskistofna  og möguleg ofveiði áhyggjuefni en lítið sem ekkert er fylgst með fiskistofunum og breytingum á stofnstærðum. Þó er von á umbótum í þeim efnum, því Sjávarútvegsráðuneyti Bangladesh á von á rannsóknarskipi árið 2015 en núna eru einu gögnin um afla, veiðiskýrslur einstakra báta og skipa.

Mikill áhugi á samstarfi

Áhugi heima manna á samstarfi er mikill og kom Syed Mahmudul Huq, stjórnarformaður BSFF til Íslands í heimsókn stuttu eftir að utanför Guðmundar og Odds lauk, til að ganga á eftir verkefninu og undirbúningi þess. En tillögur Matís og Sjávarútvegsháskóla Sameinuðuþjóðanna til BSFF eru þríþættar. Í fyrsta lagi að móta stefnu um námskeiðshald fyrir innanlandsmarkaðinn með það að markmiði að minnka hráefnistöp, bæta matvælaöryggi og að byggja upp innviði í fiskdreifikeðjunni. Í öðru lagi að koma af stað námskeiðum fyrir útflutningsiðnaðinn á betri nýtingu á aukafurðum og aukningu á virði fiskafurða.  Í þriðja lagi að auka samkeppnishæfni útflutningsiðnaðarins með hagkvæmnisrannsóknum á nýtingu þeirra aukaafurða sem nú þegar falla til við fiskeldi og vinnslu í Bangladesh. Vonast er til þess að námskeiðin hefjist í byrjun árs 2014.

IS